140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Tvö þúsund manns hafa verið atvinnulaus síðan fyrir hrun og hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmaður gera ekkert fyrir þetta fólk. Nú hverfur það af atvinnuleysisskrá í lok næsta árs og þá telst það ekki lengur atvinnulaust.

Varðandi lífeyrissjóðina er B-deildin með ríkisábyrgð, A-deildin á að hækka iðgjaldið hjá ríkinu, ekki lækka réttindin. Þessar álögur á lífeyrissjóðina lenda því bara á verkamanninum, iðnaðarmanninum og verslunarmanninum. Þetta er það sem hv. þingmaður er að gera. Hann er að skattleggja hinn almenna sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum af því að hann lítur á lífeyrissjóðina sem einhvers konar fyrirtæki.

Lífeyrissjóðirnir eru réttindi, það er enginn efnahagur þar vegna þess að eignir lífeyrissjóðanna standa á móti skuldbindingunum og duga ekki einu sinni til. Það þarf að fara að skerða réttindi og það þarf að skerða þau meira vegna þeirra álaga sem við erum í þessu frumvarpi að leggja til og hv. þingmaður styður og segir að sé rósrauð velferðarframtíð.