140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hér í dag og raunar undanfarin missiri hafa menn mikið rætt um það nafn sem þessi ríkisstjórn vildi gefa sér; norræna velferðarstjórnin. Auðvitað er sú umræða öll í háði. Ég er ekki viss um að fulltrúar ríkisstjórnarinnar, stjórnarliðar, hafi gert sér grein fyrir því hafandi heyrt nokkra þeirra tala hér í dag. Ég held að þeir haldi enn þá að fólk taki þetta alvarlega, að fólk sé að tala um þetta sem norrænu velferðarstjórnina. Það er nú kannski til marks um það hversu mikil afneitunin er hjá þessari ríkisstjórn. Auðvitað er um öfugmæli að ræða. Þetta er öfugmælaríkisstjórn. Það á við um öll þau atriði sem hún setti á oddinn og ætlaði að skilgreina sig út frá. Það má nefna gagnsæið, lýðræðið, jöfnuðinn, jafnréttið, verkstjórnina, sem átti að verða betri en nokkru sinni fyrr; allt hafa þetta reynst fullkomin öfugmæli og eru orðin að einhvers konar grínhugtökum í tengslum við umræðu um þessa ríkisstjórn.

Viðbrögðin hjá ríkisstjórninni eru hins vegar fullkomin afneitun. Við sjáum að menn eru stöðugt að færa sig upp á skaftið hvað það varðar. Ganga lengra og lengra eins og hæstv. forsætisráðherra í dag þegar hún leyfði sér að halda því fram að ekki væri óvenjumikill fólksflótti frá landinu. Það væru ekkert mikið fleiri að flytja frá Íslandi núna en áður hefði verið. Svo var bent á það af Samtökum atvinnulífsins að fólksflótti nú væri sá næstmesti sem nokkurn tímann hefði mælst í sögu Íslands.

Sama á við um skattamálin. Hér leyfa stjórnarliðar sér enn að halda því fram að ekki séu neinar verulegar skattahækkanir að eiga sér stað og jafnvel að skattar hafi í sumum tilvikum lækkað frá því sem áður var. Þar eru jafnvel menn á ferð sem höfðu sett hvað mest út á það að skattar hefðu lækkað of mikið á undanförnum árum sem segja nú að þeir séu að lækka skatta frekar en hitt; allt eru þetta auðvitað öfugmæli og fullkomin afneitun. Það sama á við þegar ráðherrar og forustumenn ríkisstjórnarinnar halda því fram í ræðu og riti að hér sé allt á uppleið, það sé allt að koma. Landið sé tekið að rísa eins og hæstv. fjármálaráðherra orðar það. Þetta höfum við reyndar fengið að heyra býsna lengi.

Alltaf er okkur sagt að það sé alveg að koma að því. Nú séu öll merki þess að landið sé að byrja að rísa. Svo gerist það ekki. Spárnar ganga ekki eftir. Fjárlögin reynast byggð á sandi. Þá er sagt: En nú er þetta alveg að koma. Svona heldur afneitunin áfram og hefur náð því stigi að nú eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar farnir að taka að sér afneitun fyrir útlendinga, fyrir heilu þjóðarbandalögin. [Hlátur í þingsal.]

Hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra þó sérstaklega og ýmsir stjórnarliðar, halda því fram að allt sé í lukkunnar velstandi í Evrópu, málin séu leyst. Hæstv. utanríkisráðherra hélt því fram í gær eða fyrradag að eftir 18. neyðarfund Evrópusambandsins væri nú búið að leysa málið og það væri mat sérfræðinga. Hann vitnaði reyndar ekki í hvaða sérfræðingar það væru sem lagt hefðu þetta mat á stöðuna. Þeir eru ekki auðfundnir ef menn fylgjast með erlendum fjölmiðlum, því að þar koma sérfræðingarnir fram í röðum og segja að málin séu hvergi nærri leyst og séu líklega orðin verri en nokkru sinni fyrr, það sé búið að gera illt verra. En hæstv. utanríkisráðherra á einhvers staðar sína eigin sérfræðinga, líklega í eigin þingflokki, sem halda því fram að málin séu leyst, nú sé allt á uppleið hjá Evrópusambandinu. Þannig hefur afneitun hjá þessari ríkisstjórn náð því marki að menn eru farnir að ráðast í útrás í afneituninni, taka að sér afneitun fyrir heilu þjóðabandalögin.

Svo sjáum við þessa afneitun einnig mjög skýrt í umræðu um fjárlögin og þau lög sem við ræðum hér, þær breytingar á lögum sem tengjast fjárlögunum, þetta frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Þar ríkir afneitunin ein í stað þess að menn reyni að læra af reynslunni. Nú hefur gefist mikið tilefni til þess að læra af reynslunni. Aftur og aftur hafa menn fengið að sjá að þær aðferðir sem notaðar hafa verið hafa ekki virkað, ábendingarnar sem hafa borist um gallana á nálgun ríkisstjórnarinnar hafa reynst réttar. Í stað þess að læra af reynslunni halda menn áfram að fylgja sömu vonlausu stefnu, halda áfram að gera sömu hlutina í þeirri von að þeir leiði til annarrar niðurstöðu í þetta skiptið. Aftur og aftur gera menn sömu hlutina og vonast til þess að afleiðingarnar verði aðrar. Það hlýtur að vera áhyggjuefni að ríkisstjórn skuli haga sér með þessum hætti.

Það eru dregin upp mikil pótemkíntjöld, ef svo má segja, í hvert skipti sem fjárlög eru lögð fram. Ekkert stenst við nánari skoðun og ekkert stenst þegar tíminn líður og menn sjá hinar raunverulegu afleiðingar. Samt er haldið áfram að reyna að villa um fyrir fólki með blekkingum, með því að sleppa jafnvel tugum milljarða útgjalda, sem þegar eru orðin ljós, úr fjárlögunum. Til að mynda allar þær ráðstafanir sem hæstv. fjármálaráðherra hefur ráðist í varðandi fjármálakerfið og ekkert rætt hér í þinginu. Hann hefur nýtt sér neyðarlögin til þess enda þótt í þeim segi að þau hafi átt að endurskoða í síðasta lagi í lok árs 2009. Það var ekki gert. Engu að síður nýtir hæstv. fjármálaráðherra sér neyðarlögin til að halda málum frá þinginu, halda ákvörðunum hjá sér og nýta sér það vald sem í neyðarlögunum fólst — felst kannski ekki enn, en hann nýtir sér það enn þá til að halda málum hjá sér og ráðast í tugmilljarðaútgjöld sem ekki er tekið mið af í fjárlögunum.

Við getum litið okkur nær því að nú er snjór yfir mestöllu landinu og orðað það sem svo að á hverjum vetri búi ríkisstjórnin til mikinn snjókarl og segi: Sjáið árangurinn. En svo líður tíminn og þegar þíðan kemur er ekkert eftir af snjókarlinum nema pípuhatturinn og gulrótin. En eins og Snæfinnur snjókarl birtist snjókarlinn aftur að ári, búinn er til nýr og mikill snjókarl og ríkisstjórnin státar sig af því hvað hún hafi byggt upp, en allt er þetta til þess ætlað að blekkja um skamma stund. Allt er þetta til þess ætlað að sýnast fram yfir áramót, ná fjárlögunum í gegn, setja á svið leiksýningu, en menn vita auðvitað að þetta er ekki eitthvað sem dugar til langframa. Menn vita að afleiðingarnar verða jafnvel þveröfugar í mörgum tilvikum eins og í tilviki margra þeirra gjaldskrárhækkana og skattahækkana sem við horfum nú enn og aftur upp á.

Við höfum heyrt stjórnarliða tala mikið um það að undanförnu hvað þeir hafi verið duglegir að finna matarholur. Hæstv. þm. Magnús Orri Schram gerði þetta að umtalsefni, státaði sig af því hvað þessi ríkisstjórn væri dugleg að finna nýjar matarholur. Það hlýtur að vera áhyggjuefni þegar ríkisstjórn er farin að temja sér hugsunarhátt nagdýrs og nálgast ríkisfjármálin á sama hátt, leita sér að matarholum, haga sér eins og moldvarpa sem ferðast um neðan jarðar, rótar öllu upp, étur útsæðið, nagar grænmetið neðan frá, eyðileggur uppskeruna; leitar alls staðar að matarholum til skamms tíma í stað þess að hugsa fram í tímann.

Ríkisstjórn verður að hugsa eins og góður bóndi. Hún verður að huga að því að rækta jörðina, sá og bera á áburð, í trausti þess að ef vel sé hugað að jörðinni og því að sá og hugsa til framtíðar muni menn uppskera. En þessa hugsun vantar algerlega. Það birtist í því að fjárfesting á Íslandi er nú í sögulegu lágmarki, hefur aldrei verið jafnlítil frá því mælingar hófust akkúrat á þeim tíma þegar tækifærin til að byggja upp, til að fjárfesta, hafa verið meiri en oft áður, jafnvel meiri en nokkru sinni fyrr. Hér eru allar aðstæður til þess að hér geti verið mikill og góður og stöðugur hagvöxtur, sjálfbær hagvöxtur. Það hefur ekki verið nýtt.

Þau tækifæri sem Ísland hefur staðið frammi fyrir undanfarin ár hafa ekki verð nýtt og í stað þess að við höfum sveiflast upp eins og lönd gera svo oft eftir að þau lenda í djúpri kreppu hefur áfram ríkt stöðnun. Menn benda á einhvern dálítinn hagvöxt núna, en hvað kemur í ljós þegar farið er að skoða hvernig sá hagvöxtur varð til? Þetta er allt hluti af þessum pótemkíntjöldum, eða þessu gríska bókhaldi sem ríkisstjórnin stundar. Þetta er til komið með því að fá fólk til að eyða sparnaðinum sínum, jafnvel að þvinga fólk til þess, setja fólk í þá stöðu að það þurfi að taka af sparnaði sínum og eyða honum í neyslu til að hífa upp hagvöxt. Þar fyrir utan hefur útflutningur að sjálfsögðu aukist vegna þess hve gjaldmiðillinn hefur verið lágt skráður og makrílveiðar hafa hjálpað til við að hífa upp hagvöxtinn.

Stóra áhyggjuefnið er að þessi hagvöxtur er ekki sjálfbær. Hann byggist á því að eyða sparnaðinum en ekki því að fjárfesta og skapa ný verðmæti eða ný tækifæri til verðmætasköpunar.

Ég nefndi að fjárfestingarhlutfall væri nú það lægsta frá því mælingar hófust, 13% af landsframleiðslu (Gripið fram í: 12,6.) — 12,6 er hér kallað fram í og eflaust er það réttari tala því að reynslan sýnir okkur að yfirleitt er sannleikurinn svartari en það sem birtist í gögnum frá ríkisstjórninni.

Ef við skoðum fjármunamyndun er hún líka sú lægsta frá því mælingar hófust, rúm 10%. Meðaltal undanfarinna 30 ára hefur verið yfir 21%. Nú er fjármunamyndun, þ.e. þau áþreifanlegu raunverulegu verðmæti sem menn eru að fjárfesta í og byggja upp, ekki nema rúm 10% af landsframleiðslu, sem segir okkur að við erum ekki að byggja upp þau fyrirtæki, þær fasteignir, þær vélar og tæki sem við þurfum til þess að viðhalda hagvexti og byggja samfélagið upp.

Þetta er mikið áhyggjuefni. Þetta er reyndar gríðarlegt áhyggjuefni og sérstaklega dapurlegt í ljósi þess að tækifærin hafa verið til staðar að undanförnu, en í hverju einasta skrefi, hvert einasta skipti sem raunverulegt tækifæri birtist, er brugðið fyrir það fæti. Svo er rekin hér stefna sem er eins og hönnuð til að halda fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu í landinu niðri. Skattar hækkaðir og skattkerfinu breytt og því flækt 142 sinnum. Er það ekki nýjasta talan? (BJJ: Nýjasta talan frá því í dag.) 142 er nýjasta talan frá því í dag. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hver talan verður eftir að þau mál sem við ræðum hér hafa verið afgreidd, enda er Ísland komið á lista með löndum þar sem pólitísk áhætta er sérstakt áhyggjuefni fyrir hugsanlega fjárfesta. Ísland er komið á lista með löndum eins og Rússlandi, Egyptalandi og ýmsum löndum Suður-Ameríku. Þetta birtist jafnvel í greinargerð sem iðnaðarráðherra lét vinna um möguleikana á fjárfestingu á Íslandi. Jafnvel þær upplýsingar sem teknar eru saman fyrir ríkisstjórnina sýna fram á hversu skaðlegt þetta er.

Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson bendir á í nefndaráliti sínu segir í áliti starfshóps iðnaðarráðherra um þessa hluti:

„Auk þekktra hindrana á borð við gjaldeyrisáhættu og sveiflur í hagkerfinu er talað um landsáhættu vegna skyndilegrar og ógagnsærrar ákvarðanatöku stjórnvalda og seinagangs og ófaglegra vinnubragða í stjórnsýslu.“

Þetta er dómur um þessa ríkisstjórn, dómur sem birtist í plaggi sem ríkisstjórnin sjálf lét vinna.

Allt hlýtur þetta að vera okkur gríðarlegt áhyggjuefni, sérstaklega í ljósi þess að þetta þyrfti ekki að vera svona. Framsóknarmenn hafa lagt fram tillögur um það trekk í trekk alveg frá því í byrjun árs 2009 hvernig snúa mætti við þessari þróun. Ef þeirri stefnu hefði verið fylgt, hvort sem litið er til stöðu heimilanna og skuldamála þeirra, stöðu fyrirtækjanna, ekki hvað síst litlu fyrirtækjanna sem er gert mjög erfitt fyrir nú um stundir, eða bara stefnunnar í atvinnumálum, væri staðan allt önnur og miklu betri núna. Þetta hefur algjörlega skort. Í staðinn er viðhaldið varanlegri óvissu og jafnvel undirstöðuatvinnugreinar, þær greinar sem hefðu átt að getað dregið vagninn, dregið okkur áfram í gegnum þessa kreppu, eru settar í fullkomið uppnám.

Svo státar ríkisstjórnin sig af árangri og ber þá niðurstöðuna á þessu ári saman við árið 2008. Þetta er í rauninni alveg ótrúlega ósvífin umræða að bera niðurstöðuna nú, á þeim tíma þegar fjárfesting ætti að vera farin á fullan skrið og búið að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, saman við hrunárið sjálft 2008, árið sem hundruða milljarða kostnaður féll á ríkið vegna bankahrunsins. Svo bera menn það ár saman við árið núna og segja: Sjáið hvaða árangri við höfum náð. Þetta er ekkert annað en fölsun, hluti af hinum grísku bókhaldsbrellum sem ríkisstjórnin stundar svo mjög.

Það eru því mikil öfugmæli að tala um einhvers konar velferðarstjórn hér og líklega tímabært að ríkisstjórnin fari að gera sér grein fyrir því að þegar menn kalla hana því nafni er það gert til að hæðast að henni. Þetta er nefnilega ekki norræna velferðarstjórnin. Þetta er mjög dýr pólitísk tilraun, þessi ríkisstjórn, og mjög skaðleg.

Við sitjum hér uppi með ríkisstjórn Alþýðubandalagsins. (Gripið fram í.) Hver hefði trúað því fyrir 20, 30 árum að Alþýðubandalagið ætti eftir að ná öllum völdum á Íslandi? (BJJ: Enginn.) Það hefði enginn trúað því. Það er einn flokkur, gamla Alþýðubandalagið, sem hefur náð völdum á Íslandi. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að þótt sá ótrúlegi viðburður ætti eftir að eiga sér stað að Alþýðubandalagið yrði einrátt á Íslandi að það mundi fylgja gömlu sósíalísku stefnunni sem sá flokkur boðaði fyrir hrun múrsins, taka hana aftur upp, stjórna landinu eftir stefnu sem beðið hefur algjört skipbrot og menn hafa séð um allan heim um áratugaskeið að virkar ekki? Nei, þeir notuðu tækifærið þegar Alþýðubandalagið komst eitt til valda á Íslandi til að innleiða hér harðlínusósíalisma. Svo grófir eru menn í því að þeir kunna ekki að skammast sín og segja að menn eigi nú bara að bíða og sjá, það sé von á meiru af sömu sort.

Þegar menn tala um sömu sort eru það ekki síst skattahækkanirnar. Hversu oft hafa skattar verið hækkaðir á eldsneyti í tíð þessarar ríkisstjórnar? Hefur einhver tölu á því? Er einhver hér í þingsalnum sem hefur náð að halda utan um það og telja hversu oft skattar á eldsneyti hafa verið hækkaðir á Íslandi í tíð þessarar ríkisstjórnar? (TÞH: Því miður. Ég er ekki með nógu marga putta.) Því miður berast ekki svör við því, enda er ekki svo gott að fylgjast með því, svo tíðar eru þessar hækkanir. Hér er enn og aftur verið að boða hækkanir. Ég les upp úr nefndaráliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, með leyfi forseta:

„Verði fyrirhugaðar hækkanir á eldsneyti að veruleika má gera ráð fyrir að verð á bensínlítra muni hækka um 3,5 kr. Þó hefur verð á bensíni hækkað um 7% á árinu en verð á dísilolíu um 13%. Hér er enn verið að auka álögur á heimilin og atvinnulífið í landinu. Ekki þarf að minna á að fólk í hinum dreifðu byggðum og atvinnulíf þar reiðir sig mikið á bifreiðar.“

Það eru önnur áhrif af þessum hækkunum öllum, m.a. hækkunum á eldsneyti, sem eru sínu skaðlegri. Það eru áhrifin sem verða vegna verðbólgu og verðtryggingar. Allar þessar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar á neysluvörur leiða til verðbólguhækkunar, leiða þar af leiðandi til þess að lán margra heimila og fyrirtækja hækka og hækka. Þannig á að ná í nokkrar milljónir í hækkuðum sköttum en þó er ekki víst að þær skili sér, sú hefur ekki verið reynslan. Oft hafa þessar hækkanir á neysluvörur þýtt að skattstofninn minnkar og ríkið fær þeim mun minni tekjur. En þessar tilraunir til að ná í nokkrar milljónir með skattahækkunum hafa skilað sér í því að lán heimilanna hækka og hækka og þar með kröfur bankanna. Sem eru í eigu hverra? Erlendra kröfuhafa. Í tilraun sinni til að ná nokkrum milljónum með hækkunum á sköttum á neysluvörur, er ríkisstjórnin því stöðugt að færa erlendum kröfuhöfum bankanna aukinn ávinning, milljarða á milljarða ofan í hækkun á lánum heimilanna.

Svo fá menn reyndar alls konar hugmyndir til viðbótar við þessar hefðbundnu skattahækkanir á neysluvörur. Því er í rauninni engin takmörk sett hversu hugmyndaflug þessarar ríkisstjórnar er mikið í skattamálum. Hér stóð til að leggja á sérstakt kolefnisgjald, eða réttara sagt kolefnisskatt. Að vísu var hætt við þau áform, eða þeim var a.m.k. slegið á frest, eftir að sýnt var fram á að skatturinn hefði haft það í för með sér að járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga yrði lokað og horfið frá tveimur kísilverksmiðjuverkefnum. Þetta hefði með öðrum orðum þýtt að nokkur hundruð manns hefðu misst vinnuna, e.t.v. þúsundir ef áhrifin hefðu verið mikil á íslenskan iðnað og stóriðju, sem allt leit út fyrir að yrði. Af þeim sökum var þessu slegið á frest, vonandi hætt við það.

Nú velti ég fyrir mér hvort virðulegur forseti gæti slegið aðeins mildar á lyklaborðið, ég heyri varla í sjálfum mér fyrir hamrinu hér fyrir aftan mig. [Skellihlátur í þingsal.] Það var fallið frá þessu um stund að minnsta kosti eftir að sýnt var fram á að af þessari skattlagningu hefði orðið hreint tap. En það sama á nefnilega við um svo marga aðra skatta sem hækkaðir hafa verið hvað eftir annað. Þeir skila ekki auknum tekjum. Þvert á móti: skattstofnarnir dragast saman og þetta heldur aftur af þeirri fjárfestingu sem við þurfum á að halda. Þetta er ástæðan fyrir því að fjárfesting er í sögulegu lágmarki. Ástæðan fyrir því að störfin eru ekki að verða til, þau störf sem við þurfum á að halda.

Í ljósi þess að ríkisstjórnin, eða hluti hennar, sá ljósið varðandi kolefnisskattinn má þá ekki fara fram á að hún meti aðrar skattahækkanir á sama hátt og hugleiði hvort ekki geti verið að þessi ofurskattlagningarstefna hafi áhrif í öðrum atvinnugreinum líka, haldi aftur af nauðsynlegri fjárfestingu hjá öðrum fyrirtækjum einnig?

Um nokkurt skeið hefur verið rekið hér vel heppnað verkefni sem kallast Allir vinna og snýst um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna viðhalds á húsnæði. Það er mat ríkisstjórnarinnar, og sjálfsagt er það rétt, að þetta hafi að einhverju leyti skilað sér í auknum hagvexti og jafnvel í auknum tekjum til ríkisins, þ.e. það að endurgreiða virðisaukaskattinn vegna þessara framkvæmda hafi reynst arðbært fyrir samfélagið. Og hvaða vísbendingu höfum við þá þar? Á það sama ekki við á öðrum sviðum líka? Getur ekki verið að það að lækka skatta eða einfalda skattkerfið geti í sumum tilvikum leitt til þess að fjárfesting aukist og tekjur ríkisins aukist? Hvernig væri nú að skoða annars vegar þetta slys sem rétt tókst að forðast varðandi kolefnisskattinn og þær afleiðingar sem það hefði haft og hins vegar þau jákvæðu áhrif sem átakið Allir vinna hefur haft, þ.e. endurgreiðsla virðisaukaskatts, og hugleiða hvort ekki megi heimfæra þetta á aðra skatta líka. Eitthvað af þessum 142 skattahækkunum og skattkerfisbreytingum sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í.

Að vísu stefnir nú í dálitla lækkun á tryggingagjaldi sem er mikilvægt því tryggingagjaldið er í raun skattur á vinnu, en lækkunin er til komin vegna þess að menn gera ráð fyrir því að atvinnuleysi dragist saman og því þurfi ekki jafnhátt tryggingagjald til að standa undir atvinnuleysinu.

Eitt af því sérkennilega í málflutningi þessarar ríkisstjórnar hefur verið að halda því fram að framlög til velferðarmála hafi aukist verulega þegar tekið er með í reikninginn að framlög til atvinnuleysistrygginga, þ.e. það sem ríkið þarf að borga atvinnulausum, ríkið og að sjálfsögðu fyrirtæki sem standa undir því, hafi hækkað. Með öðrum orðum þýðir aukið atvinnuleysi aukin framlög til velferðar. Þetta er náttúrlega furðuleg þversögn, en því miður í stíl við svo margt annað sem frá ríkisstjórninni kemur.

Það er hægt að halda fram ýmsum skrýtnum hlutum með tölfræðileikjum. Það mætti halda því fram til dæmis að árekstur tveggja bíla auki hagvöxt. Bílarnir skemmast og þurfa að fara í viðgerð. Það þarf að borga fyrir það og það eykur hagvöxtinn. Er þetta jákvæður hagvöxtur? Auðvitað ekki. Auðvitað er tjón ekki jákvætt. En á sama hátt reynir ríkisstjórnin að blekkja fólk með því að halda því fram að aukið atvinnuleysi og aukinn kostnaður vegna þess þýði að framlög til velferðarmála hafi aukist og þar af leiðandi sé velferð í landinu að auka. Aukið atvinnuleysi sé sama sem aukin velferð í landinu. Aðeins þessi ríkisstjórn hefði leyft sér að viðhafa slíkan málflutning.

Virðulegur forseti. Ég hef rætt hér töluvert um það hversu röng mynd er hvað eftir annað dregin upp af ríkisfjármálunum í fjárlagafrumvarpi og hversu skaðleg sú efnahagsstefna sem innleidd hefur verið — ekki hvað síst í tengslum við fjárlagafrumvarpið — hefur reynst. Eitt af því sem litið er fram hjá og ég tel að sé töluvert áhyggjuefni er hversu lítið af sköttum hafa innheimst í raun, eða réttara sagt kannski hversu mikið af þeim sköttum sem fólk og fyrirtæki ætti að vera búið að greiða hafa ekki innheimst.

Síðast þegar ég leitaði eftir upplýsingum um stöðu þeirra mála voru, ef ég man rétt, 127 milljarðar fallnir í vangreidda skatta, vangreidda, áfallna skatta. Mér heyrðist á hæstv. fjármálaráðherra að ríkið reiknaði með því að megnið af þessu væri eign ríkisins, mundi innheimtast með tíð og tíma. Stór hluti af þessu, 45% minnir mig, voru vörsluskattar — virðisaukaskattur og aðrir skattar sem hefur verið talið alvarlegt lögbrot að standa ekki skil á.

Þetta hafði engu að síður ekki innheimst. Hverjar eru líkurnar á því að þessir 127 milljarðar, eða stór hluti þeirra, muni innheimtast? Ég er dálítið hræddur um að þar enn og aftur sé um að ræða falið tap. Þegar menn komast í aðstöðu til að fara yfir það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, fara yfir bókhaldið hjá ríkisstjórninni eins og það lítur raunverulega út, komi í ljós að aftur og aftur hafi verið settar fram tölfræðilegar blekkingar um stöðu mála.

Það er í því mjög holur hljómur þegar menn tala um að árangur sé að nást með þeirri stefnu sem hér er rekin. Það er alveg sérstaklega holur hljómur í því þegar stjórnarliðar koma hér upp, eins og þeir hafa gert í dag sumir hverjir, og státa sig af árangri í því að koma til móts við íslensk heimili (Gripið fram í: Jæja.) — árangri í því að vinna á skuldavanda heimilanna. Vilja menn virkilega vera að fara yfir þá sögu enn og aftur? (Gripið fram í.) Þau tækifæri sem fóru til spillis, þau hundruða milljarða króna tækifæri sem fóru til spillis og afleiðingar þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið í þeim málum og varað var við aftur og aftur. Tilsjónarmannakerfið hefur verið stærsti kostnaðarliðurinn í aðgerðum umboðsmanns skuldara. Það var í raun fráleit hugmynd og allir gátu séð að það dygði engan veginn til að takast á við svo stóran vanda eins og skuldir heimilanna voru. Samt var ákveðið að styðjast við þá leið — skipa sérstaka tilsjónarmenn fyrir fólk og fjölskyldur til að fylgjast með því hvað fólk eyddi miklu og meta það hversu mikið ætti að koma til móts við það. Þetta eru náttúrlega ekki mannúðlegar leiðir og þær eru ekki sanngjarnar, því það sem hefur vantað hjá þessari ríkisstjórn er jafnræði og sanngirni. Ég held að langflestir séu tilbúnir til að leggja býsna mikið á sig til að vinna sig út úr vanda ef þeir geta treyst því að þeir njóti jafnræðis og að sanngirni verði gætt. Það mátti ekki þegar tækifæri var til ráðast í niðurfærslu skulda. Þeir voru ófáir talsmenn ríkisstjórnarinnar sem færðu þau rök fyrir því að ef eitt yrði látið yfir alla ganga og skuldir yrðu færðar niður í það sem þær voru fyrir efnahagshrunið mundu þeir sem skulduðu mest fá mestu niðurfærslurnar í krónutölu, þó að í raun væri bara verið að færa alla á nokkurn veginn sama stað og þeir höfðu verið áður en hinn svokallaði forsendubrestur varð.

Hver hefur raunin orðið? Það hafði nánast eingöngu komið til móts við þá sem skulduðu mest. Það hefur ekkert verið gert fyrir það fólk sem var búið að byggja upp eitthvert eigið fé. Það er ekkert gert fyrir þá sem vilja fá tækifæri til þess að vinna sig út úr vandanum. Skilaboðin eru alltaf öfug. Það eru alltaf þessir öfugu hvatar. Það verður ekkert gert fyrir þig nema þú komist í algjört þrot. Ef þú átt eitthvert eigið fé eða áttir eitthvert eigið fé, þá þurrkast það út. Það verður á engan hátt komið til móts við þig nema þú komist í algjört þrot. Þetta er stóra vandamál þessarar ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem hún hefur rekið. Alls staðar í samfélaginu er verið að búa til þessa öfugu hvata. Það er verið að segja við fólk: Ekki stofna fyrirtæki, ekki framleiða, ekki vinna meira, ekki reyna að borga niður skuldir þínar, því að ef þú gerir það ertu bara að kasta peningum út um gluggann miðað við þær aðferðir sem við ætlum að styðjast við. Það er alltaf verið að senda út þessi öfugu skilaboð.

Það sem stjórnvöld eiga að gera umfram allt er að búa til jákvæða hvata, hafa reglurnar þannig að þær hvetji til verðmætasköpunar en ekki þvert á móti. Því miður neita menn í þessu eins og svo mörgu öðru að læra af reynslunni og halda áfram að hjakka í sama farinu. Viðbrögðin eru alltaf afneitun; afneitun á hverju stigi málsins og afneitun sem verður alltaf vandræðalegri og vandræðalegri, eins og dæmin frá því í dag þegar hæstv. forsætisráðherra sagði að það væri nú enginn sérstakur fólksflótti úr landinu, sama daginn og upplýst var að hann væri sá næstmesti í sögu Íslands. Eins og undanfarna daga, þegar hæstv. fjármálaráðherra og aðrir stjórnarliðar hafa haldið því fram að skattahækkanir væru nú nánast engar og í sumum tilvikum jafnvel bara um skattalækkanir að ræða, á sama tíma og við blasir að verið er að hækka skatta á öllum vígstöðvum og flækja skattkerfið.

Í ofanálag eru svo þeir samningar sem gerðir eru, hátíðlega oft og tíðum og undirritaðir, brotnir trekk í trekk. Það ríkir afneitun um afleiðingar skaðlegrar stefnu og samningar sem gerðir eru, hvort heldur sem er við aðila vinnumarkaðarins, aðra stjórnmálaflokka eða stjórnarandstöðuna, eru brotnir blygðunarlaust. Alþýðusambandi Íslands er meira að segja nóg boðið og er farið að gagnrýna þessa ríkisstjórn fyrir svik, fyrir hrein og klár svik.

Virðulegur forseti. Af þessu öllu, afleiðingum þeirrar stefnu sem þessi ríkisstjórn hefur rekið, og síendurteknum svikum ríkisstjórnarinnar, brotum á gerðum samningum, er ekki með nokkru móti hægt að ímynda sér að þegar menn tala um norrænu velferðarstjórnina séu þeir að gera eitthvað annað en að henda grín að ríkisstjórninni. Séu hálfdaprir að reyna að nota svartan húmor til að lýsa ríkisstjórn sem notast stöðugt við öfugmæli og afneitun í öllum sínum gjörðum.

Virðulegur forseti. Tækifærin eru öll til staðar. Þetta er bara spurning um rétta stefnu. Með réttri stefnu getum við snúið þróuninni í landinu mjög hratt við öllum Íslendingum til hagsbóta, en stefnan mun ekki breytast með þessari ríkisstjórn. Til þess að nýta hin gríðarlegu tækifæri sem Ísland stendur þó enn frammi fyrir, verðum við því að skipta um ríkisstjórn.