140. löggjafarþing — 35. fundur,  13. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert. Þetta er ekki rætt á mörgum stöðum, ég nefni þó í því sambandi þær þrjár bækur sem gefnar hafa verið út nýlega. Það er bók Þórs Whiteheads sem kom út fyrir síðustu jól og núna bókin Íslenskir kommúnistar og sömuleiðis Roðinn í austri eftir Snorra G. Bergsson. Einhverra hluta vegna er fullkomin þögn um þennan litteratúr, menn fara þarna fara mjög vel yfir söguna og eru með mjög góðar heimildir um ýmsa hluti. Ég kallaði hér frammí „Samfylkingin“ vegna þess að ég áttaði mig á því þegar ég las bók Þórs Whiteheads að Samfylkingin er gamalt nafn sem íslenskir sósíalistar og kommúnistar notuðu mjög mikið og ræturnar eru augljósar. Ég verð að viðurkenna, af því ég hef nú reynt alltaf að halda góðum tengslum og verið í miklum samskiptum við erlenda stjórnmálamenn líka og talað við fólk sem er fylgjandi Evrópusambandinu, að þessa ofsalegu blindu á Evrópusambandið og þá hugmynd að það sé hið fullkomna fyrirbæri hef hvergi fundið nema hjá íslenskum samfylkingarmönnum. Það er bundið við samfylkingarfólk því að mjög margir utan Samfylkingarinnar eru fylgjandi því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og vilja jafnvel ganga í það en þeir eru þó ekki í ofsalegri afneitun gagnvart göllum Evrópusambandsins. Mér hefur í besta falli fundist það spaugilegt en það er það samt ekki þegar maður hlustar á forustumenn Samfylkingarinnar ræða Evrópumálin og stefnu flokksins og hún er bara sú og hefur verið um langa hríð að ganga í Evrópusambandið, sama hvort um er að ræða efnahagsmál, félagsmál eða annað þá leysast einhvern allir hlutir bara með því að ganga þar inn.

Það er líka mjög áhugaverð pæling sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór yfir áðan varðandi alþjóðlegu sósíalistana eða kommúnistana versus (Forseti hringir.) þjóðlegu sósíalistana.