140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

yfirlýsing.

[11:42]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að gera þinginu grein fyrir stöðu málsins. Ég held að óhætt sé að segja að óvarlegt hefði verið, miðað við það sem á undan var gengið, að gera ráð fyrir öðru en að málið gæti endað fyrir EFTA-dómstólnum. Málsástæður eins og þær hafa nú verið kynntar eru hinar sömu og við höfum áður svarað í samskiptum íslenskra stjórnvalda við stofnunina og ekkert í þeim sem kemur á óvart. Það vekur hins vegar athygli að á þeim tíma sem liðinn er frá því að deila um þetta mál hófst við Eftirlitsstofnun EFTA hefur áherslan færst mjög frá því sem var í upphafi þegar lögð var megináhersla á ríkisábyrgð á innstæðutryggingakerfinu, nú virðist hin meinta mismunun vera í forgrunni. Báðum þessum þáttum hefur ítrekað verið svarað og verkefnið sem við blasir núna er að halda þeim málstað áfram hátt á lofti og verjast þeim kröfum sem uppi eru í málinu til að gæta ýtrasta réttar okkar.

Sá fjárhagsþáttur í málinu sem hæstv. ráðherra gerði aðeins að umtalsefni er í raun og veru tvíþættur. Annars vegar er það höfuðstóllinn sem um er að ræða sem er margfeldi reikninganna og hinnar tryggðu fjárhæðar. Það er mikið gleðiefni að þróunin hefur verið sú hjá þrotabúi Landsbankans að fyrir öllum þessum höfuðstól eru eignir eins og útlitið er í dag. Hins vegar er það krafa þeirra sem hafa beðið eftir útgreiðslu úr þrotabúinu um að fá vexti greidda þann tíma. Úr þeirri vaxtakröfu verður ekki leyst fyrir EFTA-dómstólnum heldur mun það bíða úrlausnar síðari dómstóla ef til þess kemur.

Fyrir dómstóli EFTA, gangi málið þar alla leið til dóms eins og verður að gera ráð fyrir í dag, verður hins vegar fyrst og fremst tekist á um fyrrnefnda mismunun og hina meintu ríkisábyrgð. Það verður ekki annað séð en dómstólar á Íslandi verði síðan einir bærir til að fjalla um það, ef málið fer á það stig, sem snýr að mögulegri kröfu um vexti. En við skulum líka í því samhengi horfast í augu við að þar getur verið um gríðarlega háar fjárhæðir að ræða og engin ástæða til að gera lítið úr því á þessu stigi.

Það sem mestu skiptir núna er að við lærum af reynslunni og gætum þess að halda málstað okkar hátt á lofti. Ég er í engum vafa um að það mun vekja athygli að málið fer núna til dómstólsins. Þá lít ég svo á að það sé hlutverk stjórnvalda að koma skýrt til skila þeim meginatriðum sem hæstv. ráðherra hefur farið yfir og sýna að við gripum til aðgerða sem komu öllum hlutaðeigandi mjög vel, öllum innstæðueigendum, bæði í Bretlandi og Hollandi, og þeim sem tóku við kröfum þeirra. Gleymum því ekki að það eru engir innstæðueigendur í þessum löndum sem ekki hafa nú þegar fengið greitt út. Þeir fengu greitt út á árinu 2008. Þeir sem tóku við kröfum þeirra voru ríkisstjórnir viðkomandi landa.

Það má ekki tala um þetta þannig að einhvers staðar sitji innstæðueigendur í sárum. Það er ekki þannig og íslensk stjórnvöld hafa skyldu til að koma þeim boðum rækilega og skýrt til skila. Hluti af þessu máli er að tala máli okkar Íslendinga þannig að það skili sér í fjölmiðla og til stjórnvalda sem vilja fylgjast með. Við á þingi eigum að tryggja góða samstöðu um ýtrustu kröfur, ýtrustu málsvarnir sem hægt er að halda uppi og við höfum góðan málstað að verja. Sjónarmið allra sem hafa tekið til máls í þingsal hafa verið þau að sannarlega væru góðar málsvarnir í Icesave-málinu, hvaða niðurstöðu sem menn komust síðan að á einstökum stigum málsins þegar það var til meðferðar. Ég kalla eftir að þeirri samstöðu sem er svo mikilvæg á þessu stigi málsins verði viðhaldið.