140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

málshöfðun ESA á hendur Íslendingum vegna Icesave.

[11:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki hægt að segja að það sem hefur orðið í dag komi á óvart, að minnsta kosti ekki þeim sem hér stendur. Ljóst var að úr því að ekki tókst að leysa þetta mál með samningum gæti þetta mjög líklega orðið niðurstaðan.

Nú bíður okkar að taka til ýtrustu varna og þá hljótum við að sjálfsögðu að halda því fram sem allan tímann hefur verið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda að ekki sé ríkisábyrgð á bak við innstæðutryggingakerfin. Við munum hafna því að í aðgerðum okkar hafi falist nokkurs konar mismunun og nota okkur auðvitað eftir því sem mögulegt er þá „staðreynd“ að yfirgnæfandi líkur eru á að búið eigi fyrir öllum forgangskröfum.

Þær upplýsingar sem við höfum komið á framfæri að undanförnu um að búið muni nægja til að greiða upp höfuðstól allra forgangskrafna nægja hins vegar greinilega ekki ESA til að láta málið niður falla eða setja það á ís. Þá bíður okkar það verkefni að undirbúa málsvörn okkar fyrir dómi. Eignaþróun búsins er engu að síður mjög jákvæð og mun alltaf koma okkur til góða og hefði gert hvaða niðurstöðu sem er í þessu máli auðveldari fyrir Ísland, hvort sem það hefði verið lausn á grundvelli samninga eða deilur um meintar eftirstöðvar eftir dóm.

Reyndar töldu margir, að minnsta kosti framan af, og töluðu fyrir því að þetta mál ætti einmitt að fara fyrir dóm, þar ætti að fá úr þessum lagalega ágreiningi skorið. Þeim sem það vildu verður nú að ósk sinni. Hitt er jafnljóst að þeim sem það gerðu hefur reynst ótímabært að hrósa sigri í þessu máli. Hann er ekki í höfn en auðvitað vonum við hið besta. Áhættan hefur minnkað hvað sem öðru líður samanber batnandi eignastöðu búsins. Það að búið á fyrir forgangskröfunum sýnir að rétt leið var valin í málinu á útmánuðum 2009, sú leið að reyna að færa málið í þann farveg að í stað þess að ríkið ábyrgðist endurgreiðslur á stórum lánum yrði horft til eigna búsins og þær nýttar til að gera þetta upp svo lengi sem þær entust. Á þeim grundvelli hefur málið hvílt síðan og gerir enn, að eignir Landsbankans borgi þennan ólánsreikning vonandi að fullu, a.m.k. að langmestu leyti. Fjárhagsleg áhætta hefur að því leyti minnkað í málinu en er ekki horfin.

Það er mjög mikilvægt að halda yfirvegað á málinu og á þann hátt að það sem gerst hefur í dag setji landið ekki í neikvæðara ljós en óhjákvæmilegt er. Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að Ísland er nú á leiðinni fyrir dóm vegna meintra brota á evrópskum skuldbindingum og reglum og staða okkar verður í því ljósi næstu mánuði eða missiri. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt að horfa til þess og tefla því fram að hér er og hefur verið uppi lagalegur ágreiningur og það er ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér að hann endi fyrir dómstólum. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig ef ekki finnst lausn á öðrum forsendum. Þeirri niðurstöðu sem þar verður erum við hins vegar samningsbundin til að hlíta, þ.e. að því marki sem dómsniðurstaða útkljáir málið. Það er ljóst að til þess verður ætlast að við hlítum niðurstöðunni fljótt og undanbragðalaust þegar hún liggur fyrir. Það ber fréttatilkynning Eftirlitsstofnunar EFTA með sér. En við höfum málsvarnir eins og fram hefur komið, bæði í máli efnahags- og viðskiptaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins hv. þm. Bjarna Benediktssonar, og ég sé enga ástæðu til annars en að ætla að góð samstaða verði hér á landi að halda þeirri málsvörn fast fram og reyna að verja okkur. Við höfum þar margt til að tefla fram, bæði lagalegan ágreining um regluverkið sjálft sem og þær aðgerðir sem við höfum gripið til. Ég vil meina að það hvernig við höfum haldið á málinu þrátt fyrir ýmislegt, þ.e. við höfum sýnt vilja til að leysa það með samningum (Forseti hringir.) þó að það hafi ekki borið árangur, leggist með okkur að því leyti til að við getum nú undirbúið málsvörn okkar og haldið þannig á málinu að það valdi landinu ekki verulegum vandræðum.