140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

málshöfðun ESA á hendur Íslendingum vegna Icesave.

[11:53]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ágætiskynningu á stöðu þessa máls sem nú er á leið fyrir dómstóla. Þá er rétt að hafa í huga að á sínum tíma stóð til að meina Íslendingum að fara með það fyrir dóm. Þeir hinir sömu og virðast nú þrýsta á að málið fari fyrir dómstóla ætluðu að meina Íslendingum að gera slíkt á sínum tíma enda töldum við þá eins og nú að rétturinn væri Íslands megin.

Það er hins vegar svolítið sérkennilegt að þessi niðurstaða ESA skuli berast, ef ég hef skilið rétt, daginn eftir að ríkisstjórn Íslands sendir bréf þar sem staðan í málinu er útlistuð og færð rök fyrir því að Bretar og Hollendingar hagnist í raun stórkostlega á neyðarlögunum og þeirri aðferð sem var valin, að láta þrotabú Landsbankans fjármagna þetta í stað þess að borga út lágmarkstrygginguna strax og bankarnir féllu. Oft hefur Eftirlitsstofnun EFTA tekið sér vikur og mánuði og jafnvel ár í að svara bréfum en í þessu tilviki berst svarið að því er virðist áður en menn hafa haft tækifæri til að lesa bréfið. Þetta kemur svo sem ekki að öllu leyti á óvart í ljósi forsögu málsins. Forstöðumaður ESA hafði lýst því yfir, m.a. á fundi með EFTA-þingmönnum og þingmönnum frá Evrópuþinginu í haust, að stofnunin tæki afstöðu með Evrópusambandinu í málinu.

Þessi flýtir sem nú er kominn í málið af hálfu ESA hlýtur reyndar líka að tengjast þriðju málsgreininni í fréttatilkynningunni sem stofnunin sendi frá sér þar sem lögð er áhersla á að sú tilskipun sem ESA telur Íslendinga hafa brotið sé til þess ætluð að skapa traust gagnvart bankakerfinu og bankakerfið byggi umfram allt á trausti, m.a. því trausti að innstæðueigendur fái bætur fari bankar í þrot. Ekki er annað hægt en að setja þetta í samhengi við það neyðarástand sem nú ríkir í löndum Evrópusambandsins og má ætla að það hafi þrýst á um þessi fljótfærnislegu viðbrögð. En hvað um það. Málið fer fyrir EFTA-dómstólinn sem sumir vilja meina að sé heimadómstóll og muni, á sama hátt og ESA kemst að þeirri niðurstöðu sem Evrópusambandinu hentar, komast að þeirri niðurstöðu sem ESA hentar.

Fari svo er samt mikilvægt að hafa í huga grundvallarstaðreyndir málsins, sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gerði ágæta grein fyrir, að Bretar og Hollendingar hafa ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þess hvernig Íslendingar hafa haldið á málum. Þvert á móti hafa þeir hagnast verulega. Og það er rétt að minna hæstv. fjármálaráðherra, sem hér var að byrja að skrifa óútfyllta ávísun ef niðurstaða EFTA-dómstólsins yrði Íslendingum ekki í hag, á að einungis íslenskir dómstólar geta dæmt íslenska ríkið til að greiða skaðabætur. Það er mjög erfitt og raunar ekki hægt að sýna fram á að Bretar og Hollendingar hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra ráðstafana sem Íslendingar gripu til.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur haldið mjög vel á þessu máli frá því að hann tók við því og hefur sýnt frumkvæði, ekki hvað síst í því að mynda náið og gott samráð sem flestra um framgöngu málsins og það hefur gagnast mjög. Ég held að það sé því mjög mikilvægt að málið verði áfram á forræði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Málið verður að vera í höndum ráðherra sem menn trúa að hafi raunverulegan sigurvilja í málinu. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur tekið þetta föstum tökum og unnið vel að málinu og því mjög mikilvægt að mínu mati að það verði áfram á hendi hans. Þetta kom til umræðu á fundi utanríkismálanefndar í morgun þar sem ég lagði til að málið yrði áfram á hendi efnahags- og viðskiptaráðherra og fallist var á að taka það til umræðu í nefndinni áður en nokkur ákvörðun yrði tekin um annað.

Við bíðum að sjálfsögðu niðurstöðu EFTA-dómstólsins en þar á bæ ættu menn kannski að hafa í huga að sama hver niðurstaða dómstólsins verður er allt útlit fyrir að EFTA-dómstóllinn og ESA hefðu betur heima setið en af stað farið.