140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

málshöfðun ESA á hendur Íslendingum vegna Icesave.

[12:01]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt meiri hluta þjóðarinnar hafnað frá upphafi kröfu Breta og Hollendinga um að íslenska ríkið ábyrgist greiðslu innstæðutryggingarinnar. Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi kveða lög um innstæðutryggingu ekki skýrt á um ríkisábyrgð.

Í öðru lagi tel ég, ásamt mörgum öðrum sem hér hafa talað, að neyðarlögin hafi tryggt innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi þann rétt að þeir muni fá innstæður sínar tryggðar að fullu, þ.e. breska og hollenska ríkið munu fá í sína vasa það fjármagn sem þau lögðu út til að geta tryggt innstæður.

Lengi hefur legið fyrir og InDefence benti á það fljótlega eftir hrun að nóg væri til í þrotabúunum. Það ætti því ekki að koma okkur á óvart að Bretar og Hollendingar muni ekki bera neitt tjón af því að hafa tryggt eigendur innstæðna á Icesave-reikningum í Landsbankanum.

Frú forseti. Ég tel að Icesave-málið sé komið í réttan farveg, dómstólafarveginn. Þetta er sá farvegur sem meiri hluti kjósenda vildi að málið færi í og það er brýnt að skattgreiðendur á Evrópska efnahagssvæðinu fái skýr svör um hvaða skuldbindingar Evrópusambandið leggur á þá fyrir hönd fjármagnseigenda.