140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil beina til hv. þingmanns nokkrum athugasemdum og þá um leið spurningum sem snúa að þeirri fyrirætlan stjórnarmeirihlutans á þingi að breyta fyrirkomulagi skattheimtu varðandi séreignarlífeyri. Nú er það þannig að við sjálfstæðismenn lögðum fram strax árið 2009 efnahagsprógramm sem meðal annars byggði á því að nota ætti þá peninga sem ríkissjóður sannarlega ætti í frestuðum skatttekjum inni í séreignarsjóðunum, nota þá fjármuni til að koma í veg fyrir að skattahækkanir yrðu á íslensk heimili sem væru skuldum vafin eða stæðu frammi fyrir gríðarlegum vandamálum vegna atvinnumissis, minnkandi atvinnu jafnvel, og stökkbreyttum lánum, það væri nauðsynlegt að hlífa heimilunum fyrir þessu. Ein af þeim röksemdum sem hér voru bornar fram gegn þeirri hugmynd var sú að með því að þetta væri gert væri dregið úr þeim fjármunum sem við hefðum milli handanna síðar meir til þess að fást við þau vandamál sem fylgja þeirri breytingu á aldurssamsetningu þjóðarinnar sem fyrirsjáanleg er.

Röksemdir okkar voru þær að það væru það alvarleg vandamál uppi, það væri það mikil hætta á fólksflutningum frá landinu og verulegum áföllum fyrir íslenskan almenning að ástæða væri til að nota þá fjármuni sem þarna lægju inni sem væru ætlaðir til framtíðarinnar til að bregðast við þessu og koma í veg fyrir auknar álögur á heimilin.

Nú liggur fyrir að stjórnarmeirihlutinn leggur til að breyta fyrirkomulagi séreignarlífeyrissparnaðarins og draga úr hvatanum til að leggja til hliðar þannig að það er ekki bara verið að taka fjármuni núna strax í gegnum þessa skattheimtu til ríkisins til að nota upp á 1,4 milljarða heldur er verið að draga úr hvatanum til að leggja til hliðar til síðari tíma sem gengur raunverulega lengra en við sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) lögðum til. Ég vildi gjarnan fá að heyra skoðanir hv. þingmanns á þessu fyrirkomulagi.