140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þetta svar hv. þingmanns og er sammála þeim athugasemdum sem hv. þingmaður hafði fram að færa varðandi lífeyrissjóðina og þá fyrirhuguðu skatttöku sem ríkisstjórnin hefur boðað. Ég tel það mjög alvarlegt og aðför að lífeyrisréttindum landsmanna. Í þessu er fólginn mikill ójöfnuður, annars vegar á milli þeirra sem nú þegar hafa mátt þola skerðingar vegna þeirra aðstæðna sem hér hafa verið á undanförnum árum og hins vegar þeirra sem eru með lífeyrissparnað sinn í hinum opinberu sjóðum sem eru tryggðir fyrir því að þeir fjármunir sem þangað verða nú sóttir verða síðan bættir af hálfu ríkissjóðs og þar með í gegnum skattgreiðslur alls almennings. Ég vil ítreka þessa skoðun mína, þá áhættu sem er verið að taka með því að fara leið skattahækkana við þær aðstæður þar sem eru skuldsett heimili og að verið sé að draga úr sparnaði hjá þjóð sem á allt sitt undir því að ýta undir fjárfestingu. Þetta eru alvarleg stefnumistök, frú forseti.