140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki verið meira sammála hv. þm. Illuga Gunnarssyni í þessum seinni orðum sem hann viðhafði. Það er hreint með ólíkindum hvaða leið þessi ríkisstjórn fer varðandi lífeyrissjóðina og skattlagninguna. Ég minni líka á það að nú þegar er gat ríkisins vegna skuldbindinga lífeyrissjóðanna á opinbera markaðnum 400 milljarðar. Það er eins og seinni reikningurinn í Icesave hljóðaði upp á sem hæstv. fjármálaráðherra ætlaði að leggja á þjóðina. Þetta eru engar smáupphæðir. Og svo á að auka enn við þá skuld með því að ríkistryggja þær útgreiðslur sem eru núna. Þetta er ósanngjarnt og þetta er svo erfitt líka fyrir þá sem nú þegar hafa mætt skerðingu því að við skulum heldur ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir töpuðu háum fjárhæðum í hruninu og skerðingarnar eru byrjaðar nú þegar. En ríkisstjórnin ætlar að taka þessar greiðslur með valdboði (Forseti hringir.) og hún fer fram í ófriði frekar en (Forseti hringir.) friði og hefur valið þá aðferð lengi.