140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:48]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst hvað varðar tillögugerð í þessum málum er, eins og ég benti hér á, búið að samþykkja fjárlög. Sjálfstæðisflokkurinn lýsti við þá afgreiðslu fullkominni andstöðu við tekjuhluta frumvarpsins og þær fyrirhuguðu skattahækkanir sem þær tekjuáætlanir boðuðu. Afstaða Sjálfstæðisflokksins liggur þar skýr fyrir. Við horfumst hins vegar í augu við það eins og aðrir að ríkissjóður þarf tekjur, en við höfum sett fram skoðanir okkar og hugmyndir, m.a. í þeirri þingsályktunartillögu sem hv. þingmaður vísaði til. Hér er auðvitað um að ræða tillögur ríkisstjórnarinnar til að fylla út í þá ramma sem búið er að ákveða með fjárlagafrumvarpinu. Þess vegna hef ég verið að nefna hér að það hefði verið eðlilegra að fara fyrst í gegnum það hvaða skattbreytingar eru lagðar til, ef einhverjar, áður en menn samþykkja fjárlagafrumvarpið.

Hvað varðar möguleikana til þess að lækka skattana og fjármagna það bentum við í fyrsta lagi á það strax 2009 að ríkissjóður ætti þá í 80–90 milljarða í séreignarsjóðunum í formi skatttekna. Það væri eðlilegt að í staðinn fyrir að fara skattahækkanaleiðina yrðu þeir peningar notaðir til að hjálpa ríkissjóði til að komast yfir versta hjallann. Síðan verður auðvitað að setja þetta í samhengi við áherslur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum. Þær byggja á því að örva mjög hratt og mjög myndarlega fjárfestingar og þar með alla drift í atvinnulífinu sem síðan skilar mjög miklum peningum fyrir ríkissjóð.

Ég ætla að benda hv. þingmanni á það sem ég reiknaði hér saman, bara það sem liggur alveg fyrir. Ef þeir einstaklingar sem hafa ekki atvinnu í dag og hafa flutt í burtu væru á landinu að vinna og væru á meðallaunum væri um að ræða 83 milljarða inn í þjóðarframleiðsluna. Ef við reiknum með að hið opinbera taki 28% (Forseti hringir.) af því eru það 23 milljarðar, bara þetta eitt.