140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:52]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég er ekki hlynntur þessu. Eitt af því sem því miður hefur gerst með skattkerfið er að það er búið að flækja það með því að bæta við þrepum, með því að gera það ógagnsærra og erfiðara fyrir launamenn. (Gripið fram í: Stétt með stétt.) Stétt með stétt, er hér kallað fram í, herra forseti. Það er víst alveg ábyggilegt. Það verður ekki staðið við það loforð með því að fara í stighækkandi tekjuskatt, það segir sig sjálft. Það eru aðrar leiðir sem við höfum til þess að hjálpa þeim sem verst hafa kjörin.

Mestu skiptir að það sé til atvinna og tækifæri fyrir fólkið í landinu til að vinna sig út úr þessum vanda. Meðan atvinnuleysið er enn svona mikið, meðan meira en 11 þús. manns ganga um atvinnulausir, meðan yfir 6 þús. manns hafa flutt af landi brott á síðustu 36 mánuðum, er það verkefnið sem við eigum að leysa. Við verðum að gefa fólkinu tækifæri til að vinna, sjá sér og sínum farborða. Þá skiptir máli að (Gripið fram í.) skattkerfið sé einfalt, skattar lágir og tækifæri fyrir (Forseti hringir.) atvinnulífið til að fjárfesta. Það er lykilatriði.