140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég gleymi því ekki þegar á líður ætla ég að svara því strax: Jú, ég tel góðan grundvöll fyrir slíku og við ættum auðvitað að ýta slíku samstarfi af stað.

Þegar við erum að skoða árangurinn í tölum er nauðsynlegt, til þess að forðast árstíðasveifluna, að bera saman sambærilega mánuði. Við höfum farið úr 8% atvinnuleysi niður í 7,1% atvinnuleysi. Bak við þau 7,1% eru rúmlega 11 þús. manns. 6 þúsund hafa á sama tíma flutt í burtu. Þess vegna segi ég, herra forseti — (Gripið fram í: Þetta er …) Á 36 mánuðum. Ég horfi hér til nóvember 2009. Þetta eru þrjú ár þannig að menn sjái tímabilið. Nei, nei, allt í lagi, það má vel vera að skakki einhverjum mánuðum, en þetta er staðan. 6 þús. manns farnir. Hagvöxturinn hefur því miður ekki verið drifinn áfram af fjárfestingum. Þegar ég horfi til næstu missira er það hvernig við ætlum að halda hagvextinum uppi það sem ég hef áhyggjur af, (Forseti hringir.) að standa við kjarasamninga og tryggja að það verði til störf fyrir fólkið sem er nú atvinnulaust.