140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni málefnalega ræðu sem hefur verið í takt við málflutning okkar framsóknarmanna hér í þessari umræðu, um mikilvægi þess að auka hagvöxt og fjölga störfum í samfélaginu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála nálgun ríkisstjórnarinnar í umræðunni. Hún nefnir sig hina norrænu velferðarstjórn og talar um framlög til velferðarmála, að þau hafi aldrei verið meiri og þar af leiðandi velferðin, en inni í þeirri tölu eru stóraukin framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Eins og hv. þingmaður nefndi eru 11 þús. manns án atvinnu, 6 þúsund hafa farið úr landi og trúlega hafa nokkur hundruð manns horfið til frekara náms. Ef þetta er skilgreiningin og nálgunin hjá ríkisstjórninni, að eftir því sem atvinnuleysið verður meira og framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs aukast sé norræna velferðarstjórnin betri, veltir maður fyrir sér hvort hægt sé að tala um að verið sé að auka velferð í íslensku samfélagi. Ef atvinnuleysi yrði 15% og menn þyrftu að setja 20 milljarða aukalega í Atvinnuleysistryggingasjóð, væri þá verið að auka velferðina í landinu? Þetta er ótrúleg nálgun.

Eins og hv. þingmaður benti á eru atvinnuleysistölurnar ekki alveg kórréttar ef við tökum tillit til þess að 6 þús. manns hafa farið úr landi á undangengnum þremur árum og mörg hundruð manns vinna í lotum, m.a. í Noregi, og eru þar af leiðandi ekki á atvinnuleysisskrá. Þegar rætt hefur verið um að sjö Íslendingar fari á dag úr landi finnst hæstv. forsætisráðherra það svo sem ekkert óvenjulegt og telur ekki þurfa að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því. Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessu viðhorfi ríkisstjórnarinnar til vandamálsins eða kannski (Forseti hringir.) því andvaraleysi sem endurspeglast í orðum ráðherrans.