140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom mjög víða við í ræðu sinni og ég get ekki tekið á öllum þáttum. Mig langaði til að benda á það sem hann talaði um, atvinnuleysið, hvernig það er í rauninni falsað eða sýnt öðruvísi en það er.

Eftir hrun fór fjöldi fólks í háskóla. Það fór í nám sem yfirleitt tekur þrjú, fjögur ár sem er gott mál nema það að þau þrjú, fjögur ár eru núna liðin. Nú kemur þetta fólk út á vinnumarkaðinn — og hvað skyldi bíða þess? Ekkert. Það fer þá á atvinnuleysisskrá eða til útlanda. Þetta fólk er búið að mennta sig. Svo fóru nokkrir á atvinnuleysisskrá á sama tíma og standa núna frammi fyrir því að detta út af henni. Það eru eitthvað um 2 þús. manns, ég á reyndar eftir að kanna fjöldann betur. Þeir detta út af atvinnuleysisskrá þannig að þar minnkar allt í einu atvinnuleysið eftir næsta ár. Þá fer atvinnuleysið niður, en ekki vegna þess að fólk hafi fengið atvinnu heldur verður það komið á framfæri sveitarfélaganna — allt vegna þess að það skortir vinnu. Svo fluttu nokkrir til útlanda, það eru þessi 6 þús. manns sem hv. þingmaður nefndi, en svo eru líka nokkrir sem vinna í útlöndum en búa á Íslandi. Það er vaxandi fjöldi. Læknar vinna til dæmis þrjár vikur í Svíþjóð og eina viku á Íslandi. Þeir eru ekki í vinnu á Íslandi þessar þrjár vikur og þeir eru heldur ekki atvinnulausir. Svona eru í vaxandi mæli þær tölur sem við sjáum um atvinnuleysi, þær eru bara ekki raunhæfar að þessu leyti.

Atvinnuleysið er meira en hv. þingmaður nefndi og ég vildi koma því að með háskólana að þar stendur nýr vandi fyrir dyrum.