140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Þetta er einmitt það sem ég byrjaði að tala um í ræðu minni áðan. Við þurfum oft að ræða hlutina, hvort heldur það eru prósentustig í atvinnuleysi eða annað, með miklu vandaðri hætti, þ.e. við séum að ræða um og kortleggja grunninn að því hvað er á bak við. Það eru klárlega ákveðnar veilur í því hvernig haldið er utan um það í dag. Það hefur verið bent á það á fundum í hv. fjárlaganefnd. Ég hef ekki áttað mig á því hversu stór hluti er fyrir utan eða með hvaða hætti, eins og hv. þingmaður kom inn í sambandi við háskólana. Við förum í framhaldsskóla og erum með ýmiss konar úrræði. Við erum öll hlynnt því að hlúa að því fólki sem lendir í þeirri stöðu að missa atvinnu sína og því fylgir alveg afskaplega mikil kvöl og erfiðleikar.

Við verðum samt að geta rætt þetta án einhvers upphrópunarstíls. Ég held að það væri mjög verðugt verkefni fyrir hv. velferðarnefnd sem hv. þingmaður situr í að kortleggja þetta nákvæmlega. Mér finnst mjög sérkennilegt að menn skuli rífast og pexa um hvort þetta eru 7,1 eða 7,7 eða 6,7 eða 8%. Menn eiga bara að kortleggja þetta til þess að við getum rætt hlutina eins og þeir eru, en ekki eins og við teljum að þeir séu.

Ég held því ekki fram að þeir hv. þingmenn sem segja að atvinnuleysi sé eitthvað tiltekið samkvæmt mælingunni, þótt það sé eitthvað annað, geri það vísvitandi. En ég hvet hv. þingmann til að taka þetta sérstaklega fyrir í hv. velferðarnefnd, kortleggja nákvæmlega hvernig þetta er þannig að við gætum verið að ræða um (Forseti hringir.) staðreyndir en ekki ágiskanir.