140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann er mjög oft málefnalegur í svona umræðum á þingi og ég þakka fyrir það.

Hv. þingmaður kom inn á þrennt í andsvarinu, m.a. að menn yrðu að skera niður. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er verkefni sem við þurftum að fara í. Ég verð að segja líka að ég varð fyrir miklum vonbrigðum árið 2009 þegar ég var búinn að vera hér mjög stutt og hafði enga reynslu af því að vera hér, kom inn á mitt fyrsta þing en hafði reyndar starfað við það að stúdera aðeins rekstur og sveitarstjórnarmál. Þegar ég áttaði mig á því verkefni sem var, eða mér fannst það vera, og við vorum alveg sammála um það í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, lögðum við formlega til í hv. fjárlaganefnd þegar búið var að kynna niðurskurðinn að við skyldum skera með meiri hlutanum 8 milljarða til viðbótar. Við sögðum: Við skulum koma í þá vegferð með ykkur, forgangsröðum upp á nýtt. Við getum tekið fullt af hlutum og hent þeim út af borðinu. Við skulum bara koma í þá vegferð og verjast, fara í þá stöðu að verja niðurskurðinn vegna þess að okkur fannst verkefnið svo gígantískt og afleiðingarnar geta orðið svo alvarlegar. Því var því miður hafnað.

Ég er alveg sannfærður um að það tæki ekki mjög langan tíma ef við hv. þingmaður settumst niður og tækjumst það á hendur að búa til störf og hagvöxt til að skapa atvinnu og gefa fólki von, færa fólk frá atvinnuleysisbótum og til þess að verða skattgreiðendur. Ég er eiginlega algjörlega viss um að ef við tveir settumst niður værum við búnir að því fyrir kvöldmat. Það er nefnilega oft miklu styttra á milli manna þegar þeir fara að ræða þessi máli í rólegheitunum en (Forseti hringir.) margir halda.