140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:03]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég nefna að það verklag sem við höfum hér á þegar við fyllum inn í tekjuramma fjárlaga er nokkuð öfugsnúið. Það er búið að ákveða hvar skal ná í tekjur í stað þess að ákveða útgjöldin eftir því sem tekjurnar leyfa. Þetta er alveg öfugt við það sem tíðkast venjulega í rekstri hvort sem er fyrirtækja eða heimila svo dæmi séu tekin, en er kannski dæmigert fyrir vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar.

Það hefur verið nokkuð magnað að hlusta á ræður nokkurra hv. stjórnarþingmanna sem hafa lofað vinnu og verkefni vinstri stjórnarinnar, talað um norræna velferðarstjórn og beitt fyrir sig frösum eins og að verið sé að breyta vöxtum í velferð o.s.frv. Þetta eru innihaldslausir frasar sem er svolítið í anda vinstri manna að slá fram. Ef þetta er borið saman við efnahagsstefnu okkar sjálfstæðismanna er markmið okkar að breyta atvinnuleysisbótum í skatta. Við viljum vinna að því að atvinnulausum fækki, atvinnuleysisbætur lækki en að þessi hópur fari um leið að borga skatta til samfélagsins.

Það er auðvitað mikill grundvallarmunur á þeim leiðum sem þessir stjórnmálaflokkar vilja fara til að leita lausna við erfiðar aðstæður eins og nú eru uppi og þeim leiðum sem við viljum fara. Það þvælist einnig orðið fyrir þingmönnum í þessari stjórn. Mig langar að minnast á að í það heila hefur verið talað um hana sem tæra vinstri stjórn og mikið lagt upp úr því að hún sitji sem lengst. En svo eru einhverjir farnir að tala um hana sem miðju og vinstri stjórn. Það er kannski enn eitt dæmið, ekki stórt en þó enn eitt dæmið, um hversu villuráfandi menn eru og óvissir um hvar þeir staðsetja sig í pólitík. Og kannski er það þannig innan þessara flokka að menn eru ekkert í sama liðinu þegar öllu er á botninn hvolft. Það er auðvitað mjög alvarlegt og hefur svo sem skinið í gegn vegna þess djúpstæða ágreinings sem er bæði á milli flokkanna og ekki síður innan flokkanna í mörgum mikilvægum málaflokkum.

Hér hefur verið rætt um verkefnið Allir vinna. Þessi ríkisstjórn hefur stöðugt farið skattlagningarleiðina til að reyna að vinna bug á vandanum, skatta sig út úr vandanum, en þetta er akkúrat dæmi um skattalækkun sem skilar sér í aukinni vinnu og sennilega meiri arðsemi en ella fyrir þjóðfélagið þegar upp er staðið. Verið er að gefa skattaívilnanir til að hvetja til starfsemi og það er nákvæmlega sú leið sem við sjálfstæðismenn höfum boðað. Það er svolítið sérstakt að hér koma þingmenn stjórnarflokkanna hver á fætur öðrum upp og segja að þetta verkefni sé eitthvert það besta sem ríkisstjórnin hafi gert. Ég er alveg sammála því, ég tek undir það. Þetta er sú leið sem á að fara, beita skattaívilnunum til að hvetja til aukinnar starfsemi, til að hvetja fólk til að vinna meira, leggja meira af mörkum og ná sér í meiri tekjur sem skila sér síðan út í samfélagið. Þessir blessuðu ríkisstjórnarflokkar eru ekki samkvæmir sjálfum sér varðandi vinnubrögðin.

Í þessu frumvarpi, þessum bandormi, er áfram verið að stíga skref skattahækkana sem munu koma hvað verst við millistéttina í landinu, við lítil og meðalstór fyrirtæki, í raun þann breiða hóp sem ber mestar skattbyrðar í samfélagi okkar og gæti, ef aðrar leiðir væru farnar, verið burðarásinn í endurreisn efnahagslífs okkar. Sú umræða af hálfu stjórnarliða og ekki síst hæstv. fjármálaráðherra að hér sé ekki um neinar skattahækkanir á almenning að ræða er áróðursumræða af verstu tegund. Það má lesa út úr viðbrögðum okkar í stjórnarandstöðunni en ekki síst út úr viðbrögðum samtaka launþega í landinu, Samtaka atvinnulífsins o.fl. sem hafa tjáð sig um þessi mál. Vissulega hafa orðið ákveðnar breytingar á málinu í meðförum þingsins, ekki síst vegna þeirrar vinnu sem minni hlutinn hefur lagt til og auðvitað höfum við ekki gefist upp. Við vonumst til að ná enn meiri árangri í að snúa mönnum af þessari villuleið.

Áfram eru þó inni veigamiklar skattahækkunarhugmyndir og þar má nefna nokkur atriði, til dæmis hækkun á eldsneyti sem er enn í umræðunni. Það hefur sýnt sig að eldsneytishækkanir skila ekki auknum tekjum til ríkissjóðs heldur leiða þær til minni aksturs þannig að tekjurnar minnka ef eitthvað er. Þetta hafa meðal annars fulltrúar frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda sýnt fram á, og það sýnir líka minnkandi umferð um allt land. Þetta kemur verst við þá sem þurfa að nota bíla til að fara til vinnu. Þetta kemur verst við landsbyggðina, þá sem þurfa að sækja sér þjónustu um lengri veg, til dæmis í vaxandi mæli heilbrigðisþjónustu vegna þess mikla niðurskurðar sem hefur orðið í heilbrigðiskerfinu um allt land.

Auðlegðarskatturinn er í raun ekkert annað en ný útfærsla af eignarskatti. Hann getur komið sér illa fyrir marga og kemur illa við marga og er einhverjum hvati til að flytja hreinlega úr landi eins og dæmin sýna. Við höfum tapað fyrirtækjum úr landi sem höfðu hér aðsetur og borguðu skatta og gjöld, þar hafa tapast milljarðar. Áframhald á þessum skatti mun ekki leiða af sér neitt annað en sömu þróun hjá einstaklingum. Fleiri munu flytja burtu, fólk flýr hreinlega þessa vaxandi skattlagningu og tekjurnar tapast.

Þessi skattur kemur illa við margt eldra fólk sem býr í skuldlitlum eignum en hefur ekki endilega miklar ráðstöfunartekjur. Einhverjir neyðast meira að segja til að selja eignir bara til að geta staðið undir skattgreiðslum eða jafnvel daglegu lífi sínu. Þetta leiðir hugann að mismunun gagnvart þeim sem hafa sýnt ráðdeild og lagt til hliðar á starfsævi sinni og lenda nú í engu öðru en tvískattlagningu. Þeir hinir sömu hafa ekki endilega svera lífeyrissjóði að ganga í heldur þann sparnað sem þeir hafa lagt til hliðar á starfsævi sinni. Berum til dæmis saman stöðu þess fólks sem á starfsævi sinni hefur lagt til hliðar, sýnt ráðdeild og sparnað, við stöðu hæstv. fjármálaráðherra. Það má vel vera að hann hafi náð að leggja eitthvað til hliðar á starfsævi sinni en mér vitanlega greiðir hann ekki auðlegðarskatt. En hann á mjög rík og mikil eftirlaunaréttindi. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef liggja þau einhvers staðar nálægt 200 millj. kr. Og eflaust eru eftirlaunaréttindi hæstv. forsætisráðherra á svipuðum nótum. Þessi lífeyrissparnaður þeirra er að auki ríkistryggður sem á ekki almennt við um sparnað almennings í þessu landi. Ef forustumenn ríkisstjórnarinnar vildu vera samkvæmir sjálfum sér í auðlegðarskattlagningunni þar sem seilst er í vasa þeirra sem hafa sýnt ráðdeild og sparnað, væri þá ekki rétt að skattleggja slík ofurlífeyrisréttindi eða eftirlaunaréttindi? Aðrir geta reiknað út hve mikla skatta forustumenn ríkisstjórnarinnar ættu að greiða samkvæmt þeim lögum. En það hlýtur að teljast eðlilegt við þessar aðstæður að gengið sé alla leið og eitt gildi fyrir alla og að forustumenn ríkisstjórnarinnar og aðrir sem hafa mjög há eftirlaunaréttindi séu ekki undanþegnir þessari gölnu skattlagningu.

Í þessu frumvarpi liggja skattahækkanir á almenning og fyrirtæki en af þeim er nóg komið og tímabært væri fyrir ríkisstjórn og stjórnarflokka að skoða meðal annars efnahagstillögur okkar sjálfstæðismanna þar sem færð eru gild rök fyrir öðrum lausnum sem fela í sér að fara leið atvinnu- og verðmætasköpunar. Það er miklu jákvæðari og uppbyggilegri leið en ríkisstjórnarflokkarnir hafa enn og aftur valið.

Það er staðreynd að ríkisstjórnarflokkarnir koma sér ekki saman um þá leið sem þyrfti að fara, það er allt of mikill ágreiningur innan flokka og milli flokka sem kemur í veg fyrir að þeir nái saman um annað en skattahækkanir. Þetta hefur ítrekað komið fram, til dæmis í málefnum orkufreks iðnaðar, þetta blasir við okkur í sjávarútvegsmálum og í ákvörðunum um uppbyggingu í innviðum, t.d. samgöngukerfi og fangelsismálum. Það er einhvern veginn allt stopp og í þessum veika meiri hluta eru alltaf einhverjir einstaklingar sem geta sett fótinn fyrir verkefnin og leggja hreinlega líf ríkisstjórnarinnar að veði þannig að menn komast ekkert áfram í þessum framfaramálum. Skattlagningarleiðin er í raun lausn þeirra út úr þessum vanda vegna óþolandi ástands á ríkisstjórnarheimilinu. Ég hef ítrekað sagt að hún er mikil ábyrgð þeirra þingmanna sem taka þá ákvörðun að styðja þessa vitleysu áfram.

Það er auðvitað ekki við ríkisstjórnina eina að sakast, hún ein ræður ekki för, það eru auðvitað stuðningsmenn hennar sem ráða ferðinni.

Óhóflegur niðurskurður er óumflýjanleg staðreynd þegar þessi leið, sem er í raun ófær, er valin. Auðvitað þurfti að fara í niðurskurð en við erum komin inn að beini í helstu velferðarmálaflokkum og ekki verður gengið lengra. Loforð hafa verið gefin um að ekki yrði gengið lengra en samt skal höggvið í sama knérunn. Heilbrigðiskerfi okkar er skorið inn að beini með tilheyrandi atgervisflótta úr greininni og vandamálum við mönnun á stöðum vegna þess að fólk í þessari grein flýr hreinlega land, í meira mæli en kannski margir aðrir hópar. Í þessum málaflokki er engin skýr framtíðarsýn. Stofnanir eru að draga úr þjónustu, deildum og stofnunum er lokað og ákvarðanir eru jafnvel teknar um að selja fasteignir eins og St. Jósefsspítalann í Hafnarfirði án þess að nokkur framtíðarsýn sé um það hvernig við ætlum að byggja upp, án þess að við séum komin að niðurstöðu um hvernig við ætlum að byggja nýtt háskólasjúkrahús.

Það er áhugavert að rifja upp ummæli manna, og ætti í raun að hvetja fólk til að gera það, þegar heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins í síðustu ríkisstjórn flokksins lagði til að breyta starfsemi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þau voru stóryrt ummælin þá, meðal annars ummæli hæstv. innanríkisráðherra. En nú er búið að loka spítalanum og selja á húsið án þess að nokkur skýr framtíðarsýn sé til staðar.

Ég heyrði í konu uppi á Akranesi í dag. Móðir hennar liggur á öldrunardeildinni þar. Hún var að fá tilkynningu um að deildinni yrði lokað og móðir hennar, rótgróin á þessu svæði, verði flutt norður á Hvammstanga. Með öðrum orðum mun það taka fjölskylduna um fjóra tíma í akstri við góðar aðstæður að fara í heimsókn en fjölskyldan hefur haft þann vana að koma við hjá gömlu konunni nokkrum sinnum í viku. Þetta er auðvitað ekki boðlegt, virðulegur forseti. Við getum ekki boðið fólki, hvort sem það er hér á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni, upp á svona vinnubrögð.

Þessu fylgir líka aukið atvinnuleysi um allt land og það verða helst konur sem missa vinnuna við þessar breytingar. Hvaða áhrif mun þetta hafa á byggðaþróun, byggðaþróun sem við höfum viljað snúa við? Við höfum viljað efla byggðir landsins að nýju og gert margar ráðstafanir til þess, en þetta eru auðvitað aðgerðir sem snúa í þveröfuga átt vegna þess að fólk mun flýja þetta ástand, það getur ekki sætt sig við þetta og mun flýja. Við erum því að búa til nýtt vandamál.

Viðbrögð samtaka launþega og atvinnurekenda hafa ekki látið á sér standa og nú er staðan þannig, sem gerir í raun hvaða ríkisstjórn sem er óstarfhæfa, að vantraust er orðið algjört. Þessir aðilar treysta ekki orðum eða gerðum ríkisstjórnarinnar. Þegar vantraustið er orðið slíkt getur engin ríkisstjórn náð árangri og eðlilegast væri að stokka upp. Það er ekki óeðlilegt að vantraustið skuli vera orðið svona mikið þegar loforðalistinn er skoðaður og farið yfir efndir, til dæmis loforðið um 7 þús. störf hér og þar, sem búið er að gefa nokkrum sinnum, og mörg önnur loforð sem hægt væri að telja upp.

Það er áhugavert að fara yfir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum frá 5. maí á þessu ári en þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við þær aðstæður sem ríkt hafa í íslensku samfélagi er brýnt að leggja grunn að sátt á vinnumarkaði og samstilltu átaki allra við endurreisn efnahags- og atvinnulífsins. Með þessari yfirlýsingu skuldbinda stjórnvöld sig til að vinna að einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð.“

Þetta segir í inngangi yfirlýsingarinnar. Er einhver sátt? Hefur eitthvað af þessum orðum gengið eftir?

Ég held áfram, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld gangi samhent til þeirra verkefna sem fram undan eru við endurreisn samfélagsins og er brýnt að allir aðilar eigi með sér reglubundið og náið samráð á samningstímanum. Stjórnvöld eru reiðubúin að stuðla að því að svo verði, meðal annars með því að skuldbinda sig til að framkvæmd kjarasamninga verði háð því að þau áform sem hér er lýst nái fram að ganga.“

Hverjar eru efndirnar? Hverjar eru til dæmis efndirnar varðandi fiskveiðistjórnarfrumvarpið, svo bara eitt sé nefnt?

Ég held áfram að vitna í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta, en hér segir:

„Stjórnvöld munu endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA, þannig að lífeyrisþegar og atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabóta og um verður samið í kjarasamningum.“

Hefur þetta gengið eftir? Nei, virðulegur forseti. Þetta er meira að segja atriði sem er svo umdeilt að það setur kjarasamningana í stórhættu og hefur jafnvel verið talað um að þeim verði sagt upp á næsta ári með ófyrirséðum afleiðingum.

Hér er fleira. Í kaflanum sem fjallar um sókn í atvinnumálum og fjárfestingum segir meðal annars:

„Það er sameiginlegt markmið stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að vinna bug á atvinnuleysi og skapa fjölbreytt og vel launuð störf hér á landi. Til þess að ná því markmiði þarf að örva fjárfestingu og skapa hvata til nýsköpunar í atvinnulífi, en jafnframt búa atvinnulífinu hagstæð starfsskilyrði …“

Hefur þetta gengið eftir? Nei, virðulegi forseti. Atvinnuleysið er að aukast. Hér er ekkert að gerast sem örvar fjárfestingu. Það er miklu frekar verið að boða aðgerðir sem fela í sér aukna skattlagningu og pólitískan óstöðugleika, sem draga úr vilja til fjárfestingar. Óvissan er slík í sjávarútvegi að þar verður engin fjárfesting. Ekki er hægt að taka ákvarðanir um frekari fjárfestingu í orkufrekum iðnaði vegna þess að ósættið er svo mikið.

Hér segir um opinberar framkvæmdir: „Stjórnvöld munu auka opinberar fjárfestingar.“

Þar segir meðal annars:

„Kostnaður við byggingu nýs Landspítala er áætlaður um 40 milljarðar kr. (útgjöld á þessu ári og næsta um 3,1 milljarðar kr.).“

Er þetta í hendi? Nei. Þetta er fugl í skógi.

„Forútboð vegna Vaðlaheiðarganga er hafið og framkvæmdir hefjast að forfallalausu í haust (kostnaður ríflega 10 milljarðar kr. á þremur árum).“

Er þetta í hendi? Nei, þetta er í skógi, og allt í ósætti innan ríkisstjórnarinnar um þessa framkvæmd.

„Fyrirhuguð eru útboð á nýju fangelsi og framhaldsskóla á næstunni.“

Er þetta að gera sig? Nei, þessu hefur verið slegið á frest. Einhver málamyndaupphæð hefur verið sett inn í fjárlög næsta árs en það er algjörlega óvíst hvað verður um þessa framkvæmd.

„Átak verður gert í opinberum viðhaldsframkvæmdum.“

Er merki þessa að sjá í nýju fjárlagafrumvarpi? Nei, svo er ekki.

„Nýlega hefur verið ákveðið að leggja til aukningu vegaframkvæmda á Vestfjörðum.“

Samgönguáætlun hefur ekki litið dagsins ljós, samgönguáætlun er ekki komin og við vitum ekkert hvernig þingið afgreiðir hana.

Ekkert af þeim atriðum sem ég taldi hér upp og áttu í raun að vera komin í gagnið á þessu ári að hluta til og því næsta er í hendi.

Hér segir líka:

„Stjórnvöld munu skipa starfshóp með fulltrúum SA, ASÍ, fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti er reyni til þrautar að finna útfærslur sem gera mögulegt að ráðast í umfangsmiklar samgönguframkvæmdir á Suðvesturlandi og eftir atvikum víðar, fjármagnaðar með sérstökum hætti.“

Hvað er að frétta af þessu? Það eru engar fréttir af þessu máli, virðulegi forseti, ekki nokkrar, frekar en af öðrum.

Við komum hér síðan að kafla með fyrirsögninni Sókn í orku- og iðnaðarmálum. Þar segir:

„Stjórnvöld vilja greiða fyrir aukinni fjárfestingu á sem flestum sviðum, einkanlega þeim sem stuðla að auknum útflutningstekjum.“

Hér var klappað í þingsal þegar Alcoa fór af landinu og hætti við öll sín áform á Norðurlandi. Hér voru settar fram hugmyndir um kolefnisskatt sem hefði sett alla fjárfestingu í uppnám. Hér er mikil pólitísk óvissa.

Það segir líka í þessum kafla, með leyfi forseta:

„Rammaáætlun verður lögð fram á næstu vikum og fer í viðeigandi ferli. Stjórnvöld stefna að því að hún verði afgreidd á næsta haustþingi.“

Þessu haustþingi er að ljúka, virðulegi forseti, og rammaáætlun er ekki enn komin til þingsins og fyrirséð að um hana verður gríðarlega mikill ágreiningur, mjög mikill ágreiningur. Ákveðnir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lagt ríkisstjórnarsamstarfið að veði í því máli þannig að alveg er fyrirséð að ef þessi ríkisstjórn ætlar að lifa lengur en út þennan vetur og fram á vor verður málinu frestað eins og svo mörgum öðrum.

Hér segir líka að það verði hvatt til fjárfestinga, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að kynna erlendum fjárfestum Ísland sem fjárfestingarkost með markvissum aðferðum og er stefnt að því að veita auknum fjármunum til markaðssóknar. Stjórnvöld telja nauðsynlegt að auka beina erlenda fjárfestingu hér á landi og ryðja burt hindrunum sem helst standa í vegi hennar og taka mið af niðurstöðum nefndar iðnaðarráðherra um stefnumótun fyrir beinar erlendar fjárfestingar.“

Eitt af því sem þessi ríkisstjórn hefur verið dugleg við er að skipa nefndir. Sumar nefndirnar deyja drottni sínum, úr öðrum kemur eitthvað, en það skilur ekkert eftir sig og breytir engu. Það er ekkert gert með niðurstöðurnar sem koma fram og þetta er alveg skýrt dæmi um það. Við höfum séð hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér og aukið á pólitíska óvissu og nú segja okkur fulltrúar okkar sem kynna Ísland á erlendum vettvangi að pólitísk óvissa sé farin að vaxa svo hér að ekkert traust er gagnvart landinu þegar kemur að því að draga til okkar frekari beina erlenda fjárfestingu. Skýrsla Pricewaterhouse Coopers í Hollandi fyrir framkvæmdaskrifstofu Íslandsstofu er skýrt dæmi um þetta.

Í niðurlagi yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum þann 5. maí segir í sérstökum kafla um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

„Þegar sjávarútvegsráðherra hefur gengið frá frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (samningaleið), og það fengið umfjöllun í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna verður það, fyrir endanlega afgreiðslu og framlagningu, kynnt helstu hagsmunaaðilum sem tengjast sjávarútvegi á lokuðum trúnaðarfundum.“

Gekk þetta eftir, virðulegi forseti? Nei, enn ein svikin. Auðvitað gekk þetta ekki eftir. Hæstv. sjávarútvegsráðherra boðaði í haust þegar hann fundaði með atvinnuveganefnd þingsins að nýtt frumvarp um fiskveiðistjórnarmálin mundi koma inn í þingið um mánaðamótin nóvember/desember. Það endaði með því að drög að frumvarpi, sem enginn hafði séð, voru sett á vefsíðu ráðuneytisins. Ekkert samráð hafði verið haft, ekki neitt, og ekkert frumvarp hefur verið kynnt.

Nú er búið að taka málið af hæstv. ráðherra og setja í sérstaka ráðherranefnd og guð má vita hvenær eitthvað kemur út úr því. Ekkert samráð við hagsmunaaðila, ekkert samráð við stjórnarandstöðu um eitt mikilvægasta málið sem við stöndum frammi fyrir.

Á sama tíma er kynnt mikil aukning á veiðigjaldi án þess að áhrif þess á greinina séu könnuð. Svo tala ákveðnir þingmenn stjórnarflokkanna um að það hefði mátt ná 9 milljarða kr. leigugjaldi af makrílnum ef kvótinn hefði verið leigður út. Þetta er þvílík vitleysa, virðulegi forseti, og sýnir svo vel hvað þetta fólk er lítið inni í þessum hlutum, hvað það kynnir sér þessa hluti illa. Þetta 9 milljarða kr. leigugjald átti að koma af 30 milljarða kr. útflutningsverðmæti allra makrílveiðanna á þessu ári. Útflutningstekjur er áætlaðar um 30 milljarðar kr. og greiða átti 9 milljarða kr. aukaskatt af því. Þá átti eftir að borga allan útgerðarkostnað, laun og allt. Það hefði enginn farið á sjóinn að veiða makríl við þær aðstæður. En þessu er slengt fram, algjörlega ábyrgðarlaust, til að villa um fyrir almenningi í landinu í þessum mikilvæga málaflokki.

Sáttin er nauðsynleg til að fjárfestingar fari af stað í greininni og núna gæti verið blómlegt atvinnulíf í kringum sjávarútveginn um allt land, við hefðum getað aukið veiðiheimildir og komið á sátt í sjávarútvegi. Að því var búið að leggja grunn en þetta var leiðin sem ríkisstjórnin valdi að fara.

Skattlagning á lífeyrissjóði kom eins og köld gusa framan í aðila vinnumarkaðarins. Það er talið brot á samningum og að grundvöllur kjarasamninga sé jafnvel brostinn, þeim verði sagt upp á næsta ári. Breytingar á séreignarlífeyrissparnaði eru grunnhyggnar og munu leiða til hærri tryggingargreiðslna í framtíðinni og draga úr sparnaði. Þetta eru skrefin sem eru stigin.

Þessu hefur verið harðlega mótmælt. Meðal annars sendi Starfsgreinasamband Íslands frá sér yfirlýsingu í gær þar sem áformum stjórnvalda er mótmælt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Áformum stjórnvalda um skattlagningu á lífeyrissjóði er harðlega mótmælt af framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins, enda munu þau leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og um leið auka frekar á þann ójöfnuð sem er á lífeyrisréttindum á milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins. Fyrirhuguð skattlagning snertir eingöngu almennu lífeyrissjóðina þar sem ríkið er skuldbundið að bæta opinberu sjóðunum upp skattlagninguna með auknum inngreiðslum sem teknar verða af skattfé almennings.

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands harmar að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ætli að svíkja skriflegt loforð um jöfnun lífeyrisréttinda á milli almenna og opinbera lífeyriskerfisins sem gefin voru við undirritun kjarasamninga í vor.“

Það er ekkert skrýtið þó að við sjáum slík viðbrögð frá aðilum vinnumarkaðarins.

Mig langar að minnast á aðra en minni skattlagningu. Hér var lagt fram svokallað skötuselsfrumvarp og sett lög um skötusel og heimild ráðherra til að leigja út viðbótarveiðiheimildir í skötusel. Við sjálfstæðismenn mótmæltum þessu frumvarpi harðlega enda var með því verið að taka veiðiheimildir af fólki sem hafði áður keypt þær og skuldsett sig. Það var skilið eftir með skuldirnar. Í þeirri aðstöðu voru einkum litlar útgerðir úti um land. Nú er farið að leigja þetta út frá ríkissjóði. Þetta eru um 100 millj. kr. ári og á þessu ári hefur féð farið til atvinnuuppbyggingar, sérstaklega á landsbyggðinni. Þannig var þetta líka hugsað, réttlætingin fyrir gjaldtökunni var sú að féð sem af henni kæmi skyldi nýtt til atvinnuuppbyggingar og rannsóknarverkefna í sjávarútvegi. Þetta hefur lyft grettistaki víða og hefur hjálpað manni til að sættast aðeins við þessa leið.

En nei, nú á að breyta þessu. Nú ætlar hæstv. fjármálaráðherra að setja krumlurnar í þetta fé líka. Það á að koma beint inn í ríkissjóð til að standa undir lífeyrisréttindum hans, eftirlaunaréttindum hans og fleiri. Þetta er dæmi um enn ein svikin við það sem lagt var upp með.

Af öllum þessum litlu efndum eru afleiðingarnar auðvitað alvarlegar. Fjárfesting hefur ekkert farið af stað þrátt fyrir fögur fyrirheit og er innan við 13% eða 12,6% af vergri landsframleiðslu. Það er algjörlega nauðsynlegt að fjárfesting fari af stað til að skapa hagvöxt og eyða atvinnuleysi. Ekkert annað getur komið í staðinn fyrir það. Atvinnuleysi er að aukast hjá okkur aftur, eftir að það dróst tímabundið saman í sumar, og staðan í til dæmis verslun og þjónustu er mjög slæm. Við höfum heyrt af því fréttir núna og fyrirséð að í þeim geira mun verða fjöldi uppsagna eftir áramót. Maður heyrir af fyrirtækjum víða um land sem eru að draga úr starfsemi sinni og margir tala um að nú sé kreppan fyrst að skella á.

Afleiðingarnar birtast okkur ekki síst í auknum brottflutningi fólks frá landinu. Það kemur fram á vef Hagstofunnar að brottfluttir umfram aðflutta hafi verið tæplega 1.400 á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta voru 1.320 og erlendir ríkisborgarar voru 80. Ef fram heldur sem horfir verða brottfluttir íslenskir ríkisborgarar umfram aðflutta 1.700–1.800 á árinu öllu. Ef svo fer, virðulegi forseti, verður árið 2011 næstmesta brottflutningsár Íslendinga í sögunni í fjölda einstaklinga talið. Það er einungis árið 2009 sem er hærra í tölum þegar brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta voru tæplega 2.500 en árið 2010 voru þeir 1.700.

Það er alveg magnað að við þessar aðstæður og þrátt fyrir þær staðreyndir sem við okkur blasa og lagðar eru á borð af Hagstofu Íslands, sagði hæstv. forsætisráðherra í fjölmiðlum í gær að fólksflutningar núna séu ekkert meiri en í venjulegu árferði. Þeir hafi verið töluverðir árin 2009 og 2010 en hafi svo stöðvast miðað við þann mikla brottflutning sem var áður, þannig að við erum bara á svipuðu róli og var, sagði hæstv. forsætisráðherra.

Skyldi hæstv. forsætisráðherra trúa því sem hún segir? Er hún vísvitandi að reyna að blekkja þjóðina? Hvort tveggja er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, vegna þess að ef hún veit ekki betur er hún náttúrlega, eins og oft hefur komið fram, ekki starfi sínu vaxin og ætti að koma sér frá störfum. Ef hún er vísvitandi að reyna að blekkja þjóðina er það einnig stóralvarlegt.

En segja má að stefna stjórnvalda í þessu hafi tekist. Þær eru ömurlegar auglýsingar Vinnumálastofnunar um kynningar með erlendum vinnumiðlunum í Ráðhúsi borgarinnar sem haldnar eru reglulega og fólk hvatt til að koma og kynna sér atvinnumarkaði erlendis. Í því felast auðvitað engin önnur skilaboð en þessi: Komið ykkur af landinu, vinnandi fólk, hér verður ekkert að hafa. Ekki er hægt að túlka þetta öðruvísi en að það sé að vissu leyti stefna stjórnvalda.

Nýjasta hagspá Alþýðusambands Íslands er ekki björt en þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Við höfum klárlega fleiri tækifæri til hagvaxtar en margar aðrar þjóðir en gætum allt eins upplifað að þau sigli hjá ef við náum ekki breiðri samstöðu um leiðina fram á við.

Til að komast upp úr hjólförunum þurfum við hugrekki og breyttar forsendur til að lenda ekki í sömu pyttum og við erum að glíma við. […] Við þurfum skýra framtíðarsýn um hvert við viljum fara og stefnufestu til þess að hrekjast ekki af leið. Þjóðin býr að fjölmörgum tækifærum og mannauði en okkur skortir áræðni til að nýta þau.“

Ég endurtek að með leyfi forseta er ég að lesa upp úr gögnum frá Alþýðusambandi Íslands.

„Augljóslega er brýnasta úrlausnarefnið að auka hagvöxt og fjölga störfum. […] Bæði þarf að huga að bráðaaðgerðum til að skapa störf á borð við fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og viðhaldi og nýbyggingu fyrir hið opinbera þar sem lífeyrissjóðirnir geta verið mikilvægir samstarfsaðilar um fjármögnun og huga að langtímauppbyggingu og þróun. Það er mikill ábyrgðarhluti að einstaka ráðherrar geta einfaldlega slegið samkomulag við okkur út af borðinu án þess að ríkisstjórnin bregðist við í heild sinni. Í nýrri hagspá hagdeildarinnar kemur fram, að litlar líkur eru á því að óbreyttu að markmiðið um umfang fjárfestinga náist á þessu samningstímabili. Þetta er áhyggjuefni og það er mikilvægt að verkalýðshreyfingin sendi stjórnvöldum skýr skilaboð um að slík vinnubrögð verði ekki liðin.“

Gumað er af því að hagvöxturinn sé mikill en hér hafa verið settar fram rökstuddar upplýsingar um að sá hagvöxtur byggist á froðu. Það er mjög rangt af stjórnvöldum að reyna að taka þennan tímabundna hagvöxt sem mun ekki vara lengi sem dæmi um góðan gang í efnahagslífi okkar. Það er mjög villandi og bendir til að ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir horfist ekki í augu við staðreyndir. Í nýjustu hagvaxtarspá ASÍ er gert ráð fyrir um 1% hagvexti á næsta ári, sem er alveg hræðilegt. Það er hræðilegt að við skulum standa frammi fyrir því að vöxturinn verði um 1% á næsta ári og 2,7% á árinu 2013 og 1,5% á árinu 2014. Þetta þýðir að ekkert annað bíður okkar en meiri niðurskurður, meiri fólksflótti og aukinn samdráttur. Annað mun þetta ekki leiða af sér.

Svo það er ekki skrýtið að traustið sé farið og í staðinn komið algjört vantraust gagnvart ríkisstjórninni af hálfu aðila vinnumarkaðarins og af hálfu þjóðarinnar, þjóðarinnar sem svo oft er búið að færa boðskap um hvað allt sé hér í góðu lagi. Sá boðskapur heyrist enn í sölum Alþingis, að hér sé allt í góðu lagi, við séum á réttri leið og allt stefni upp á við þegar fólk finnur allt annað á eigin skinni.

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins segir til dæmis að lítill hagvöxtur, skortur á framkvæmdum og fjárfestingum, atvinnuleysi og brottflutningur fólks tefji endurreisn og rýri lífskjör í landinu. Árið 2011 er enn eitt ár vannýttra tækifæra. „Eitthvað-annað-stefnan“ er að þeirra mati fullreynd, virðulegi forseti.

Allt er þetta mjög sorglegt í ljósi þess að hér hafa verið lagðar fram efnahagstillögur, meðal annars af hálfu Sjálfstæðisflokksins og tillögur frá Framsóknarflokknum sem eru nokkuð samstiga, um að fara allt aðra leið. Þjóð sem býr yfir slíkum náttúruauðlindum eins og við á gríðarleg tækifæri. Við höfum þau tækifæri fram yfir margar þjóðir sem eiga við erfiðleika að stríða. Þær búa ekki að sömu náttúruauðlindum, orkunni, vatninu, sjónum og við.

Það eru í raun fjórar aðgerðir sem þarf að grípa til, virðulegi forseti, til að hlutirnir fari að lagast. Það þarf auðvitað að ljúka því að leysa skuldavandamál heimila. Þar þarf að taka sterkar á en gert hefur verið og einfalda kerfið sem unnið er eftir. Það á ekki síst við um lítil og meðalstór fyrirtæki þar sem hlutirnir hafa ekki gengið eftir og dregist hefur úr hófi að leysa úr vanda þeirra. Það er mjög mikilvægt að strax sé farið í þetta.

Síðan þarf að taka ákvarðanir um uppbyggingu innviða og það á sérstaklega við um samgöngumálin. Í samgöngumálum voru verkefni fyrir um 8 milljarða kr. tilbúin í útboð hjá Vegagerðinni. Sum af þeim voru komin í útboð og meira að segja búið að taka tilboðum en það var dregið til baka og hætt við þegar hrunið kom. Við gætum því sett á mjög skömmum tíma, nánast dögum eða örfáum vikum, af stað vinnu í samgöngumálum fyrir um 8 milljarða kr.

Það verður að nást sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Fjárfestingar í sjávarútvegi voru um 4,5–5 milljarðar á árunum 2010 og 2011 en eðlileg fjárfestingarþörf greinarinnar er í kringum 18–20 milljarðar á ári. Áætlað er að uppsöfnuð fjárfestingarþörf greinarinnar sé einhvers staðar nálægt 60 milljörðum kr., sem muni skila sér að mestu á tveimur árum eftir að sátt næst um kerfið. Við getum alveg ímyndað okkur hvað það mundi skapa í tekjur og leysa úr atvinnuleysisvanda ef sátt um kerfið lægi fyrir og fyrirtæki í sjávarútvegi á Íslandi færu að fjárfesta fyrir 25 milljarða um allt land, bæði í mannvirkjum, vinnslustöðvum, viðhaldi skipa o.s.frv. á næsta ári.

Næstu skref í orkufrekum iðnaði eru nauðsynleg. Til þess verður að taka ákvörðun um að fara í virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það verður ekki gert af hálfu þessarar ríkisstjórnar á meðan rammaáætlun er ófrágengin, þingmenn hafa lagt líf ríkisstjórnarinnar að veði í því máli. Það er hræðilegt vegna þess að þetta er önnur af þeim meginstoðum sem við þurfum að nýta til að koma okkur af stað. Enginn annar valkostur í virkjunum en neðri hluti Þjórsár er kominn svo langt í undirbúningi að það sé raunhæft, ef ákvarðanir eru teknar í dag, að hann geti skilað einhverjum áhrifum inn í íslenskt efnahagslíf á næsta ári.

Hið sama gildir um Norðlingaölduveitu og þá villandi umræðu sem hefur verið um hana. Hún er samkvæmt upplýsingum og yfirlýsingum forstjóra Landsvirkjunar einhver hagkvæmasti virkjunarkostur okkar í umhverfislegu og efnahagslegu tilliti. En inn í þetta mál er alltaf blandað umræðu um Þjórsárver sem er mjög villandi og rangt.

Til að skapa okkur svigrúm til þessara aðgerða höfum við sjálfstæðismenn lagt til að innleystar verði skatttekjur af séreignarlífeyrissparnaði. Ef skattstofnarnir taka ekki við sér eins fljótt og við reiknum með höfum við það til að grípa í, sem ákveðinn varasjóð sem að öðru leyti yrði (Forseti hringir.) notaður til að greiða niður erlendar skuldir.

Virðulegi forseti. Það er ömurlegt að við skulum búa við þær aðstæður sem við búum við í dag. (Forseti hringir.) Það er algjör óþarfi.