140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[17:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórnin gerði grein fyrir þeim áformum sem uppi væru af hennar hálfu um skattlagningu á næsta ári var beitt einhvers konar hókuspókus-aðferð. Það var sagt frá því að það ætti að ná svo og svo miklum tekjum með auknum gjöldum en þeim ætti að koma svo haganlega fyrir að það yrði eiginlega enginn var við það í buddunni sinni. Ekki yrðu hækkaðir skattar á almenning heldur fundnar einhverjar aðrar leiðir til að koma þessari skattlagningu við þannig að almenningur í landinu sem hefur fengið sig fullsaddan af skattpíningarstefnu ríkisstjórnarinnar yrði ekki var við neinar skattahækkanir. Nú vitum við auðvitað að þetta er allt saman tóm vitleysa eins og ég mun koma aðeins inn á á eftir.

Ríkisstjórnin boðaði okkur að hún hefði fundið einhvers konar ljóta kalla úti í atvinnulífinu sem mætti skattleggja sérstaklega án þess að nokkur maður fyndi fyrir því, það væru bara hin örgu fyrirtæki sem mætti svo sannarlega skattleggja og ættu það skilið af ýmsum ástæðum. Ljótu kallarnir í atvinnulífinu voru í fyrsta lagi stóriðjan. Þar átti að leggja á heilmikla skatta, m.a. í formi kolefnisgjalda. Það voru auðvitað bankarnir, fjármálastofnanirnar, sem liggja nú svona frekar lágt í umræðunni og njóta kannski ekki mikils álits, trausts eða vinsælda hjá almenningi og þess vegna var þrautaráðið í þrengingum ríkisstjórnarinnar sem búin var nokkurn veginn að ausa upp öllum sínum hugmyndum um skattlagningu annarra fyrirtækja og almennings að beina nú sjónum sínum þangað til viðbótar við fjármálakerfið, og gaf sér væntanlega að fáir yrðu til þess að bregðast til varnar fyrir fjármálakerfið, bankarnir væru þess vegna hluti af þessum ljótu köllum sem mætti skattleggja sérstaklega.

Þriðja dæmið var síðan sjávarútvegurinn, hinir vondu sægreifar sem allt í lagi væri að skattleggja margfalt meira en nokkru sinni áður og þar væri mikið fé að sækja sem ríkissjóður ætti núna að leggja áherslu á.

Til viðbótar hefur ríkisstjórnin fundið enn einn hópinn sem leggja má í þennan flokk hinna ljótu kalla, það má nú segja ríkisstjórninni til hróss að þar var hún dálítið fundvís. Kannski er þefskyn hæstv. ríkisstjórnar í þeim efnum athyglisvert því að í hópi ljótu kallanna sem nú á að skattleggja sérstaklega eru neftóbakskallarnir í landinu. Þar hefur verið fundinn sérstakur skattstofn sem ætti að gefa, að mig minnir að sagt sé í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, einar 94 millj. kr. Menn telja hins vegar að teygnin í þessari skattlagningu sé með þeim hætti að hún muni sennilega ekki skila nokkrum sköpuðum hlut. Allt er þetta þó gert í nafni lýðheilsu eða hvað það er annað sem menn bregða fyrir sig til afsökunar fyrir nýjum skattahugmyndum.

Það eru sem sagt stóriðjan, bankarnir, sjávarútvegurinn, ríka fólkið og neftóbakskallarnir sem augunum er sérstaklega beint að. Það er öll hugmyndaauðgin og það er allur fyrirsjáanleikinn í þessum efnum.

Þegar ég fer að fjalla um skattlagningu á neftóbaki, sem ég ætla samt ekki að gera að meginefni þessarar ræðu, dettur mér í hug lítil saga, því að það er ekki alveg nýtt að skattmann hafi numið staðar við möguleika á skattlagningu þegar kemur að áfengi og tóbaki. Sú saga er sögð af orðheppnum manni úr Reykjavík sem á einu sinni að hafa sagt að brennivínið sé orðið dýrt núna, það sé búið að skattleggja það svo mikið að hann hafi ekki lengur efni á að kaupa sér skó.

Er þetta þannig, eru þessir skattar sem ég gerði að umtalsefni, stóriðjan, bankarnir, sjávarútvegurinn, ríka fólkið og blessaðir neftóbakskallarnir, kannski skattar sem hægt er að leggja á án þess að almenningur finni fyrir því, án þess að það valdi neinum skaða, án þess að það dragi úr umsvifum í efnahagslífinu, atvinnulífinu o.s.frv.?

Hyggjum nú aðeins að og byrjum á stóriðjunni. Eins og við munum var lagt af stað í þessu máli með hugmyndir um að leggja margs konar gjöld á stóriðjuna, m.a. kolefnisgjald á kol og koks sem talið var mikið snjallræði í skattlagningu sem einmitt ætti að hafa þetta í för með sér. Það væri jú bara verið að skattleggja útlensk fyrirtæki, og útlensku fyrirtækjunum væri hreint ekki of gott að borga dálítið miklu meira til samfélagsins. Afleiðingarnar urðu hins vegar óvæntar.

Nú rifjast upp fyrir mér að ég sá í sjónvarpsfréttunum í gær fund norður á Húsavík, og ekki þann fyrsta, um atvinnumál. Voru þar komnir á vettvang fulltrúar fyrirtækis á sviði kísilverksmiðjustarfsemi sem hyggja á framkvæmdir á þarnæsta ári með undirbúningi þegar á næsta ári. Þetta hefur verið hluti af því sem menn hafa mjög vísað til eftir að ríkisstjórninni tókst að klúðra málum varðandi álverið á Bakka sem mjög hefur verið í umræðunni eins og allir vita og menn hafa þá horft til kísilverksmiðju þar. Fyrirtækið Torsil hefur hug á því að setja þar upp starfsemi.

Höfum þá í huga að ekki munaði nema hársbreidd að það tækist með skattaáformum ríkisstjórnarinnar um þennan kolefnisskatt sem sérstaklega átti að bitna á stóriðjunni, einn af þessum sköttum sem menn héldu að kæmi hvergi nokkurs staðar við. Það munaði ekki nema hársbreidd að það tækist að hrekja þessa starfsemi úr landi, öllu heldur koma í veg fyrir að hún næði nokkurn tíma landi á Íslandsströndum. Kolefnisskatturinn eins og hann var hugsaður hefði bókstaflega gengið frá þessari starfsemi dauðri.

Við fengum á okkar fund í atvinnuveganefnd fulltrúa þessa fyrirtækis ásamt fulltrúum annarra fyrirtækja sem fóru mjög rækilega yfir þetta. Þegar er búið að kosta til við undirbúning 400–500 millj. kr. Það var alveg ljóst að borin von væri að þetta fyrirtæki sem búið var að leggja þarna fram nærri hálfan milljarð króna til undirbúnings gæti fengið nokkra fjárhagslega fyrirgreiðslu ef skattaáform ríkisstjórnarinnar næðu fram að ganga. Með öðrum orðum var skatturinn sem engan átti að skaða þeirrar gerðar að hann hefði komið í veg fyrir þó þessa atvinnuuppbyggingu við Húsavík sem mjög margir höfðu mænt vonaraugum til. Sama hefði gerst með kísilverksmiðjuna sem búið var að koma töluvert áfram á Suðurnesjunum. Það var líka ljóst að sú verksmiðja hefði orðið að hætta við sín áform enda var það svo að eftir að frumvarp hæstv. ríkisstjórnarinnar var kynnt dró það fyrirtæki til baka útboðslýsingu sem búið var að undirbúa og einungis átti eftir að senda til verktaka sem hefði haft í för með sér veruleg umsvif. Jafnframt þessu hefði hugmyndin um kolefnisgjaldið líka sérstaklega skaðað eitt stórt og mikilvægt fyrirtæki sem er búið að starfa hér síðan 1979, að mig minnir með sérstakri blessun vinstri flokkanna á þeim tíma. Það fyrirtæki hefur á undanförnum árum aukið umsvif sín og vegna hagstæðra aðstæðna í skattumhverfi fyrirtækja hér fyrr meir ákvað það fyrirtæki sem er í eigu Elkems, stóru samsteypunnar, að færa talsverða starfsemi sem áður hafði verið unnin í Noregi upp á Grundartanga og menn höfðu síðan vonir um að það fyrirtæki gæti haslað sér enn þá frekari völl, ekki síst á sviðum sem leiddu til framleiðslu á íhlutum fyrir vistvæna orku, t.d. sólarorku, en öllum þessum áformum hefur núna verið ýtt út af borðinu.

Til viðbótar hefur þetta fyrirtæki líka tekið þá ákvörðun að flytja að nýju til Noregs verkefni sem búið var að staðsetja á Grundartanga þannig að þetta leiðir til beinnar fækkunar starfa. Með öðrum orðum hefur skatturinn stórsnjalli sem átti ekki að skaða nokkurn mann, ekki eitt einasta fyrirtæki, sem átti ekki að koma niður á nokkrum einstaklingi, þegar haft þau áhrif að störfum hefur fækkað og var nærri því búið að koma í veg fyrir að áform manna um kísilverksmiðju, bæði á Húsavík og Suðurnesjunum, næðu fram að ganga.

Kem ég nú að öðrum ljótum köllum sem ríkisstjórnin hafði sérstaklega augastað á og taldi sérstakt verkefni sitt að ná til með nýjum sköttum. (Gripið fram í.) Það eru auðvitað fjármagnsfyrirtæki. Ég var, virðulegi forseti og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, að bæta í hóp ljótu kallanna, sem ríkisstjórnin ætlar að skattleggja sérstaklega, neftóbaksköllum sem ríkisstjórnin hefur af hyggjuviti sínu og hugkvæmni séð núna að hefðu svo breið bök að það væri sérstök ástæða til að seilast um hurð til lokunnar til þess að skattleggja. (Gripið fram í.) Ég er búinn að ræða það nokkuð ítarlega og ætla ekki að bæta miklu við það.

Þá eru það bankarnir. Við vitum, eins og ég sagði áðan, að bankarnir njóta mismunandi mikillar hylli, kannski álíka mikillar hylli og við stjórnmálamenn meðal almennings, og þess vegna þykir vel til fundið að leggja á þá sérstakar byrðar. Þá er vísað til þess að bankastarfsemin, fjármálastarfsemin, hafi skilað miklum hagnaði á undanförnum missirum. Það er alveg rétt, þ.e. hjá stóru bönkunum, ríkisbankanum Landsbanka og bönkunum Íslandsbanka og Arion banka sem að hluta til eru, eins og menn vita, í eigu vogunarsjóða og hluta til í eigu ríkisins, höfum við séð ársreikninga sem sýna mikinn hagnað. Á hverju byggist hann? Jú, því að þegar þessir bankar voru búnir að færa niður eignasafnið sem flutt var úr gömlu bönkunum í þá nýju var tekin mjög umdeild ákvörðun. Fyrir því voru færð tiltekin rök. Nú kemur það auðvitað á daginn, sem menn vissu, að eignasafnið hafði verið flutt það mikið niður að við endurmat þess yrðu innheimturnar af þessu eignasafni meiri en menn áætluðu. Þegar þetta er gert og menn meta safnið upp að nýju verður til tekjufærsla í þessum bönkum og það er stærsti hlutinn af þeim hagnaði sem bankarnir sýna núna missiri eftir missiri. En ríkisstjórnin gáði ekki að sér. Það eru nefnilega fleiri á markaði en þessir þrír stóru bankar. Það eru litlar fjármálastofnanir. Tökum til dæmis lítil fyrirtæki sem hafa sprottið upp, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, á fjármálasviðinu sem eru að reyna að skapa hér samkeppni um margs konar fjármálagerninga, koma aftur á skuldabréfamarkaði og vinna mikilvæg störf sem skipta miklu máli í nútímasamfélagi. Þessi fjármálafyrirtæki höfðu ekki fengið meðgjöf upp á marga milljarða og milljarðatugi. Þau voru einfaldlega byggð fyrir eigið fé og lánsfé eins og gengur í atvinnurekstri og áttu síðan að lúta því að fá á sig sérstakar álögur — sem hefðu haft hvað í för með sér? Jú, það að þessi fyrirtæki hefðu búið við skertan starfsgrundvöll, kannski engan starfsgrundvöll, enda heyrum við núna ýmsar fréttir af því að hin minni fjármálafyrirtæki eru einmitt þessa mánuðina að renna inn í hin stærri. Samþjöppunin á fjármálamarkaðnum er þannig að aukast gagnstætt því sem ég hygg að margir hafi talað fyrir úr öllum stjórnmálaflokkum á undanförnum mánuðum.

Nú langar mig síðan til viðbótar sérstaklega að gera að umtalsefni áhrifin á sparisjóðina okkar úti á landsbyggðinni. Þessir sparisjóðir, margir hverjir, ekki allir, fóru mjög illa út úr bankahruninu af mjög mörgum ástæðum. Þar hefur að vísu margt verið ósanngjarnt sagt um þessar stofnanir og fyrirtæki, en látum það liggja á milli hluta. Það mun allt saman upplýsast þegar fram í sækir. Kjarni málsins er sá að um það var tekin pólitísk ákvörðun á haustdögum 2008 við bankahrunið að stuðla að því að endurreisa þessa sparisjóði. Það gekk upp og ofan og er ástæða til að gagnrýna hversu seint mönnum vannst í þeim efnum. Nú er komin tiltekin niðurstaða sem menn geta verið mjög ósammála um, en niðurstaða er hún samt sem áður og fól það í sér að nú eru starfandi upp undir tíu sparisjóðir í landinu, hygg ég, sem skipta mjög miklu máli víða úti í dreifbýlinu. Þetta eru staðbundnar fjármálastofnanir sem sinna sérstökum verkefnum, hafa komið til skjalanna þegar illa hefur horft í rekstri margra fyrirtækja á landsbyggðinni, hafa verið mjög virkir í útlánum til einstaklinga til íbúðakaupa. Þeir hafa líka verið mikilvægir í stuðningi við margs konar samfélagsleg og menningarleg verkefni í þessum byggðum og gegna með öðrum orðum mjög miklu hlutverki.

Þá datt mönnum í hug að skattleggja þessa sparisjóði til jafns við þær fjármálastofnanir sem höfðu fengið milljarða og milljarðatugi í meðgjöf í formi niðurfærðra lánasafna, á sama tíma og þessir sparisjóðir höfðu ekki notið eins eða neins í neinu slíku. Þeir voru að brölta upp á lappirnar aftur. Þá dettur mönnum í hug að slæma til þeirra þvílíku höggi að það er ljóst að mörgum þeirra hefði þetta riðið að fullu og augljóst að þeir hefðu ekki haft burði til að sinna því verkefni sem þeim er ætlað að sinna einmitt úti á landi.

Ég hef hér tölur undir höndum um áætlaðar álögur á sparisjóði árið 2008 miðað við stærðir sjóðanna eins og þeir verða í ársbyrjun 2012. Þessar álögur námu árið 2008, miðað við þær forsendur sem ég lýsti hér áðan, 109 millj. kr. Ef við notum nákvæmlega sams konar útreikninga og berum saman við árið 2009 hefði blasað við gerbreytt mynd í ársbyrjun 2012. Þá hefðum við ekki verið að tala um 109 millj. kr., heldur 473 millj. kr. Erum við þó að bera saman stofnanir sem voru að mati manna á árinu 2008 býsna öflugar, margar hverjar, með jákvætt eigið fé, margar þeirra reyndar með býsna mikið jákvætt eigið fé sem gufaði síðan upp eins og menn vita í hruninu. Núna erum við hins vegar að tala um stofnanir sem hafa verið meira og minna, en þó með undantekningum, endurreistar með fjármunum ríkisins. Þá skal maður velta fyrir sér skynseminni í því annars vegar að leggja fjármuni í þessar stofnanir til að byggja þær upp með peningum úr ríkissjóði og Seðlabankanum og skattleggja þær síðan með þeim hætti að það hefði getað riðið þeim að fullu eða gert þær óstarfhæfar í núverandi mynd og neytt þær til samruna við aðrar fjármálastofnanir, ekki síst við þá banka sem höfðu fengið meðgjöfina.

Með öðrum orðum var með þeim hugmyndum sem voru uppi verið að fjórfalda eða fimmfalda gjöldin sem áttu að koma á þessa ljótu kalla sem fjármálastofnanirnar voru greinilega í huga hæstv. ríkisstjórnar.

Þriðja atriðið sem mig langar að nefna í þessu sambandi er sjávarútvegurinn og er hann alveg kapítuli út af fyrir sig. Rekstrarstaða sjávarútvegsins er þannig að hans ræðst af ýmsum þáttum, m.a. af gengisþróun, aflaþróun og markaðsaðstæðum. Nú vitum við að markaðsaðstæður almennt talað hafa verið býsna góðar, með undantekningum auðvitað. Við höfum orðið fyrir áföllum í ýmsum markaðslöndum vegna þess að þar hefur kreppan dunið yfir, en almennt talað getum við sagt að rekstrarstaðan hafi verið góð, ekki síst vegna þess að gengið hefur verið hagstætt.

Engu að síður er það þannig að frá því að núverandi hæstv. ríkisstjórn tók við hefur fjárfesting árið 2009, árið 2010 og árið 2011 í þessari grein verið í sögulegu lágmarki. Við erum að tala hér um fjárfestingu upp á kannski 5 milljarða kr. Við eðlilegar aðstæður ætti þessi fjárfesting að vera 20–25 milljarðar kr. að lágmarki. Nú eru liðin þrjú ár þar sem við höfum verið að fjárfesta fyrir 15 milljarða en hefðum, ef allt hefði verið eðlilegt, átt að fjárfesta núna fyrir að minnsta kosti 75 milljarða kr. Þarna munar 60 milljörðum kr. sem hafa farið út úr fjárfestingunni sem við hefðum svo sannarlega þurft á að halda. Þetta stafar af mjög einfaldri ástæðu sem er sú að það ríkir algjör óvissa um rekstrarstöðu sjávarútvegsins. Enginn útgerðarmaður eða fiskverkandi veit hvernig rekstrarumhverfi hans verður á næsta ár. Við þær aðstæður eru menn ekki líklegir til að fjárfesta. Menn hafa að vísu fjárfest í uppsjávarveiðinni, sérstaklega makrílnum, og fyrir því eru ákveðnar ástæður. Makríllinn hefur gengið hér inn, það var sem betur fer horfið frá hinum ólympísku veiðum og tekið til við að úthluta aflaheimildum á skip sem leiddi til þess að menn gátu farið að huga að því að hámarka vinnsluverðmætið sem skilaði sér mjög vel. Fyrir vikið hefur orðið einhver fjárfesting í greininni. Ef til þessa hefði ekki komið værum við hér að tala um enn þá lægri tölu.

Við þessa óvissu dettur ríkisstjórninni það snjallræði í hug að hækka svo auðlindagjaldið á sjávarútveginum að það nemur þreföldun frá því sem það var á síðasta fiskveiðiári, fer upp í rúma 9 milljarða kr. Menn spyrja kannski: Hvað munar sjávarútveginn um 9 milljarða?

Þá skulum við aðeins skoða á hvaða forsendum þetta byggir. Þetta byggir á þeim forsendum að það eigi að skattleggja 27% af framlegð sjávarútvegsins. Með framlegð eigum við við þær tekjur og þá stöðu sem uppi er þegar búið er að greiða allan breytilegan kostnað og það sem menn hafa til að standa undir fjármagnsgjöldum sínum. Ég geri ráð fyrir því að öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin sem skulda minnst komist nokkurn veginn í gegnum þetta, að vísu ekki skaðlaus en þau komist nokkurn veginn í gegnum þetta.

Hyggjum þá að öllum hinum aðilunum, einstaklingunum, smábátaútgerðinni, sem fyrir liggur að er skuldugust hlutfallslega miðað við sjávarútveginn í heild. Þessir aðilar þurfa á að halda allri þessari framlegð sem þeir hafa til þess að standa undir skuldbindingum sínum. Með þeim áformum að setja 27% af framlegð sjávarútvegsins inn í ríkissjóð er sérstaklega vegið að rekstrargrundvelli þessara sjávarútvegsfyrirtækja. Afleiðingin verður augljós, sú að það verður aukin samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi. Gömlu kallarnir sem töluðu fyrir háu veiðileyfagjaldi hér áður og fyrr voru heiðarlegir. Þeir sögðu okkur það, Gylfi Þ. Gíslason og aðrir slíkir: Hugsun veiðigjaldsins var að fækka skipum og útgerðum, gera útgerðina þannig hagkvæmari. Þeir sem núna tala fyrir þessu segja okkur hins vegar líka á hitt borðið að jafnframt þessu vilji þeir auka fjölbreytnina í sjávarútvegi, fjölga fyrirtækjunum, fjölga þeim sem fá að starfa í sjávarútveginum alveg gagnstætt því sem þreföldun veiðigjaldsins á tveimur árum mun hafa í för með sér.

Ég spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra og landbúnaðarráðherra út í þetta mál á dögunum og fékk mjög athyglisvert svar. Þetta var fyrirspurn um veiðigjaldið og hvernig það skiptist á milli byggðarlaga. Ég ætla að rekja áhrifin á nokkur sveitarfélög.

Ísafjarðarbær: Þar greiddu útgerðir á síðasta fiskveiðiári 117 millj. kr. en munu greiða á því næsta 351 millj. kr.

Bolungarvík: Þar greiddu útgerðir á síðasta fiskveiðiári 56 millj. kr. og munu greiða á því næsta 168.

Snæfellsbær: Þar greiddu útgerðir á síðasta fiskveiðiári 125 millj. kr. og greiða á því næsta 375 millj. kr.

Fjallabyggð: Þar greiddu útgerðir á síðasta fiskveiðiári 123 millj. kr. og greiða á því næsta 369 millj. kr.

Fjarðabyggð: Útgerðirnar þar greiddu á síðasta ári 281 millj. kr. og munu greiða á næsta fiskveiðiári 843 milljónir.

Vestmannaeyjar: Þar greiddu útgerðir á síðasta ári 421 millj. kr. og munu greiða á því næsta 1.263 millj. kr., þ.e. tæplega 1,3 milljarða.

Grindavík: Þar greiddu útgerðir 221 millj. kr. og munu greiða á því næsta 663.

Með öðrum orðum er ætlunin að færa núna í einu slengi út úr þessum hagkerfum, litlu, veiku hagkerfum sjávarplássanna sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vísar gjarnan til með mikilli velþóknun, rúma 9 milljarða kr. inn í ríkissjóð. Við vitum öll hvar þessir peningar enda síðan. Það er verið að veikja hagkerfin sem þessu nemur, þessi litlu hagkerfi, án þess að þau fái það að nokkru leyti upp borið.

Ég hef þess vegna miklar áhyggjur af þessu. Ég er út af fyrir sig tilbúinn að fallast á að það sé ekki óeðlilegt að hækka veiðigjaldið frá því sem það var. Við höfum þegar stigið gríðarlega mikil skref í þessum efnum og nú væri að mínu mati lag til þess að nema staðar.

Þessi hækkun mun ekki bitna sérstaklega á stóru fyrirtækjunum. Hún mun bitna á litlu fyrirtækjunum. Hún mun bitna á einyrkjunum, hún mun bitna á nýliðunum og hún mun bitna á veiku sjávarplássunum.

Þess vegna vil ég segja að þetta er ekki góð aðferð sem hér er lögð til og mun örugglega hafa mjög neikvæðar afleiðingar í för með sér hvernig sem menn líta á þessi mál.

Annað vil ég líka koma aðeins inn á. Ég nefndi kolefnisgjaldið sem sérstaklega hefði bitnað á nokkrum svokölluðum stóriðjufyrirtækjum. Þrátt fyrir að menn hafi horfið frá því fyrir nokkrum vikum, vegna andstöðu einstakra þingmanna stjórnarliðsins, andstöðu okkar í stjórnarandstöðunni og mikilla mótmæla sveitarfélaga víða um landið, atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar, situr ríkisstjórnin föst við sinn keip með hugmyndir sínar um að hækka kolefnisgjald á bensín og dísil um 32%. Auðvitað vita allir hvaða áhrif það mun hafa á hag heimilanna. Það er með öðrum orðum ekki rétt að það sé búið að finna upp þá stórkostlegu aðferð að skattleggja upp á marga milljarða án þess að nokkur maður verði var við það. Kolefnisgjaldið á bensín og dísil sem hækkar um 32% veldur því að bensínið kostar 6–7 kr. meira en áður og dísillinn rúmlega 7 kr. meira en áður. Það liggur við að þetta muni bitna á heimilisbuddu hvers einasta manns á Íslandi, og alveg sérstaklega íbúa landsbyggðarinnar sem eiga ekki margra kosta völ. Þeir geta ekki sest upp í strætó og ferðast þannig til vinnu sinnar. Þeir eiga ekki slíka kosti, þeir verða einfaldlega að skrölta áfram á sínum bílum og borga sitt bensín ef þeir ætla að geta framfleytt sér og komist til vinnu sinnar í ýmsum tilvikum eða sótt þá þjónustu sem oft er um langan veg að sækja, ekki síst núna eftir að ríkisstjórninni hefur tekist að veikja heilbrigðiskerfið úti á landsbyggðinni þannig að menn þurfa einmitt að fara um lengri veg til að sækja slíka þjónustu.

Ég ætla samt sem áður ekki að gera þetta að stóra málinu. Ég ætlaði aðeins að nefna í þessu sambandi áhrifin á annað. Hér eru stundum haldnar miklar og innblásnar ræður um almenningssamgöngur. Er ekki ríkisstjórnin að monta sig af hugmyndum sínum um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu? Er ekki ætlunin þegar fram í sækir að setja 1 þús. millj. kr. í eflingu almenningssamgangna? Menn hafa hér uppi stór áform í þessum efnum.

Ein mikilvægasta tegund almenningssamgangna í landinu er innanlandsflugið sem á milli 400 og 500 þús. manns nota, ef ég man tölurnar rétt, frá Reykjavíkurflugvelli að mestu leyti og út á landsbyggðina, og öfugt auðvitað. Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin, frá því að hún tók við, ákveðið að skattleggja alveg sérstaklega innanlandsflugið. Í fyrra var svo komið að hún hafði aukið álögur á innanlandsflugið um upp undir 400 millj. kr. Innanlandsflugið veltir 4 milljörðum kr. Þessar sérstöku álögur í formi margs konar gjaldahækkana, þar á meðal hækkana á bensíngjöld og slíka hluti, hafa valdið kostnaðarhækkun upp á 400 millj. kr. Hvar ætli þetta hafi endað? Þetta hefur auðvitað komið úr vösum almennings. Þaðan eru þessar tekjur teknar. Menn sem ferðast um Reykjavíkurflugvöll og nota innanlandsflugið vita líka að flugmiðarnir hafa snarhækkað í verði sem hafði þau áhrif á árinu 2009 að það varð 10% samdráttur í innanlandsflugi þótt auðvitað hafi ýmislegt annað spilað þar inn í svo ég sé alveg sanngjarn. Menn höfðu gert sér vonir um að menn gætu snúið þessu við á árinu 2010, það voru vísbendingar í þá átt, en þegar búið var að gera upp dæmið kom í ljós að við vorum föst í þeim samdrætti sem kominn var í um 10% og við höfum sem sagt ekki snúið þessu við. Þetta breyttist ekki á árinu 2010.

Nú eru hugmyndir um að setja sérstakt gjald til viðbótar á orkugjafa innanlandsflugsins. Það er auðvitað ljóst hvar það endar; það mun enda eins og allt annað í pyngju almennings. En ekki nóg með það. Hér áðan var dreift hinni langþráðu tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2011–2014. Þetta er búið að vera einn af hinum fjölmörgu hausverkjum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnarflokkanna eftir því sem fréttir hafa borist um. Tillagan barst inn í þingflokka ríkisstjórnarflokkanna fyrir mörgum vikum, ef ekki mánuðum, og þar hafa menn togast á um þessa hluti og eru reyndar farnir að tala um þessa samgönguáætlun eins og hún sé orðinn hlutur. Við höfum heyrt hér viðbrögð einstakra hv. stjórnarliða sem hafa sagt okkur hvernig þeim lítist á innihaldið löngu áður en málið var komið inn á Alþingi. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg orð um samgönguáætlunina enda er hún ekki á dagskrá. (Gripið fram í: Þú sleppir því ekki.) Þó verð ég í þessu sambandi að vekja athygli á því sem tengist nákvæmlega því frumvarpi sem við erum hér að ræða, tekjuöflunarfrumvarpi ríkisstjórnarinnar, að á bls. 4 í þessari tillögu er boðuð stórhækkun á lendingar- og farþegagjöldum á Reykjavíkurflugvelli. Með leyfi virðulegs forseta segir hér:

„Í samræmi við minnisblað innanríkisráðherra til ríkisstjórnar er stefnt að hækkun lendingargjalda og farþegagjalda á Reykjavíkurflugvelli til jafns við gjöld á Keflavíkurflugvelli. Þetta gæti leitt til allt að 250 millj. kr. árlegrar tekjuaukningar í innanlandskerfinu sem nýttar verða í nauðsynlegar framkvæmdir og viðhald.“ (Gripið fram í: Enn ein matarholan.) (Gripið fram í: Finna …)

250 millj. kr. — og hvaðan ætli þær komi? Frá ljótu köllunum? Bönkunum? Stóriðjunni? Ríka fólkinu? Sjávarútveginum? Og eins og ég sagði hér áðan, neftóbaksköllunum sem eru orðnir sérstakur skattstofn núverandi ríkisstjórnar? Nei, þetta mun lenda á almenningi í landinu, sérstaklega íbúum landsbyggðarinnar og auðvitað skaða stórlega ferðaþjónustu, einkum á landsbyggðinni. Er ekki verið að gera eitthvert átak í ferðamálum, „Ferðumst allt árið“, eða hvað þetta heitir, „Ísland allt árið“, með sérstöku boði um fótabað með hæstv. iðnaðarráðherra? Ætli mönnum verði ekki orðið svolítið kalt á fótunum þegar þeir fara um í innanlandsfluginu og þurfa að borga alla þessa peninga í skatta til ríkisstjórnarinnar? Það er kannski ekki nema von að það sé boðið upp á heitt fótabað þegar menn hafa kalda fætur í því sem verið er að gera í sambandi við skattlagningu á ferðaþjónustu og innanlandsflugið.

250 millj. kr. ofan í það sem áður er segir auðvitað sína sögu um hvar forgangurinn liggur þegar kemur að hugmyndaauðgi hæstv. ríkisstjórnar í sambandi við skattahækkanir. Hvað eru 250 millj. kr.? Svona 6% af veltu innanlandsflugsins sem í einu vetfangi er skellt fram í neðanmálsgrein í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun. Þetta er dálítið sérkennilegt í ljósi alls þess sem menn hafa sagt á undanförnum árum um ýmislegt af því sem hér hefur verið til umfjöllunar.

Síðan hefur verið talað um, sem er auðvitað kjarni málsins, að ríkisstjórnin er komin í miklar ógöngur með efnahagsstjórn sína. Hagvöxturinn sem boðaður var og menn höfðu gert áætlanir um haustið 2008 hefur ekki skilað sér. Að vísu fóru hér stjórnarliðar með húrrahróp part úr degi yfir nýjum tölum sem Hagstofan hafði birt þangað til þeim var bent á að kannski væri ekki allt sem sýndist. Í ljós kom nefnilega að grundvöllur hagvaxtarins sem menn hrósuðu sér af, og meira að segja hæstv. forsætisráðherra klifaði enn á í vandræðalegu sjónvarpsviðtali í gærkvöldi, byggir á einkaneyslu (TÞH: Froðu.) sem má kalla froðu. Einkaneyslan sem jókst á sér ýmsar skýringar, m.a. í kjarasamningunum. Hvað hafa menn sagt um kjarasamningana? Hafa menn ekki sagt okkur að þeir standist ekki? Sagði ekki aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands í frægu frammíkalli á fundi þar sem ég sat með atvinnulífinu: „Hvernig datt ykkur í hug að gera slíka kjarasamninga?“ Það er eingreiðsla í tengslum við þessa samninga. Það er útgreiðsla á séreignarsparnaði upp á eina 25 milljarða kr., ekki rétt? Það eru auðvitað áhrif af frystingu lána sem bráðum verða þídd upp. Það eru útgreiddar vaxtabætur, það er útgreidd vaxtalækkun Landsbankans. (Gripið fram í: Árangur ríkisstjórnar.) Þetta er sagt vera árangur ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Já.)

Rifjast þá upp fyrir mér dálítil umræða. Hún var um það að hér hefði á undanförnum árum verið það sem menn kölluðu ósjálfbæran hagvöxt (Gripið fram í: Akkúrat.) þar sem menn höfðu blekkt sjálfa sig og jafnvel aðra með því að ímynda sér (Gripið fram í.) að einkaneysla gæti verið varanleg. Hún studdist þó við einhverja atvinnuuppbyggingu sem að sumu leyti var ekki eins varanleg og við héldum og sem við nú vitum að er þetta sem hér er verið að vísa til — monthagvöxtur, froða. Og við vitum hvað sagt er um þá sem snakka um froðuna. En við vitum að þetta er ekki sjálfbær hagvöxtur. Er það það sem menn ætla að stæra sig af? Hafa menn ekki lært af reynslunni? Má ég taka mér í munn hin fleygu orð: „Muna menn ekki að hér varð hrun?“ [Hlátur í þingsal.] Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hefur talað um þetta nokkurn veginn annan hvern dag hafi hún farið í ræðustól annan hvern dag. Ég vil bara minna hv. stjórnarliða sérstaklega á að þeir ættu að hyggja að fortíðinni í þessum efnum og gá aðeins að því hvort þeir geti verið svona staffírugir.

Hér hefur líka verið nokkuð rætt um það atvinnuleysi sem við höfum búið við undanfarin ár. Það er út af fyrir sig rétt. Atvinnuleysistölurnar eru ekki jafnháar núna og þær voru þegar þær voru hæstar. Eru menn að hrósa sér af því þremur árum eftir hrun að eitthvað hafi gerst í því að minnka atvinnuleysi? Það er ekki til að hrósa sér af, öðru nær. Við vitum að fólk hefur verið á harðaflótta frá landinu, að vísu hafa menn reynt að halda öðru fram en það vill bara þannig til að við höfum hér stofnun sem heitir Hagstofan og hún hefur sagt okkur að brottfluttir umfram aðflutta hafi á fyrstu níu mánuðum þessa árs verið 1.400 manns. Það þýðir væntanlega að íslenskir ríkisborgarar, brottfluttir umfram aðflutta, geti orðið 1.700–1.800 árlega. Þetta eru hæstu tölur sem við þekkjum á undanförnum árum með einni undantekningu sem var árið 2009. Þetta hefur haft áhrif á atvinnuleysistölurnar. Við vitum líka, sem var út af fyrir sig jákvætt, að það var stuðlað að því að fleira fólk færi til náms. Það hafði sem betur fer sín áhrif á atvinnuleysistölurnar.

Það alvarlegasta í öllu þessu er að við sjáum að tilhneigingin er mjög skýr í þá veruna að atvinnulausum sem hafa verið atvinnulausir í sex eða tólf mánuði fer fjölgandi. Helmingur atvinnulausra manna á Íslandi hefur nú verið atvinnulaus í meira en eitt ár. Þetta er alvarlegur hlutur og það gefur hvorki stjórnarliðum né neinum öðrum tilefni til að hrósa sér af einhverjum árangri. Þetta er alvarlegt mál sem við verðum að takast á við en það verður ekki gert (Forseti hringir.) með þeirri stefnumörkun sem við sjáum í þessum bandormi.