140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:24]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans yfirgripsmiklu ræðu. Hann kom víða við, enda er það háttur okkar stjórnmálamanna að við ræðum um hvað gerðist í fortíðinni, hvað getum við lært af henni, hvernig hún birtist og hver rétta söguskýringin er. Svo tökumst við á um hvert skuli halda. Ætlum við að stefna til vinstri eða ætlum við að stefna til hægri eða er besta leiðin beint áfram í anda jafnaðarmanna? Það er svona gróft á litið það sem við tökumst á um í þessum sal, ef við einföldum hlutina.

Getur hv. þingmaður ekki verið sammála mér um að þrátt fyrir allt (EKG: Nei.) getum við þó sagt að hér hafi tekist vel upp í meginatriðum hvað snertir stöðu efnahagsmála? Ég tel verkefni okkar undanfarin ár fyrst og fremst hafa verið það að ná tökum á ríkisfjármálunum, því að velferðin í landinu, bætt staða fyrirtækjanna í landinu, allur viðsnúningur, byggja á því að ná tökum á ríkisfjármálunum til þess að geta breytt vaxtakostnaði í raunverulega velferð, hvort hún snýr að almenningi í landinu eða fyrirtækjunum. Þar höfum við náð undraverðum árangri, við höfum náð halla ríkissjóðs úr rúmlega 200 milljörðum niður í 20 milljarða. Við höfum náð að skapa sífellt fleiri störf, til dæmis urðu til 1.500 ný störf í þessu landi á 3. ársfjórðungi þessa árs. Við sjáum að hagvöxtur hér er mjög góður miðað við stöðuna almennt í Evrópu, enda er hér heimskreppa á ferð. Við tölum um hvaðan hagvöxturinn kemur. Vissulega mundi ég gjarnan vilja sjá hann koma meira frá fjárfestingarhliðinni. Gætum þó að því að staða heimilanna hefur batnað, sem við sjáum svo glögglega í þessum hagvaxtartölum. Heimilin eru í betri stöðu, þau eru í betri færum en áður. Það sjáum við glögglega í þeim hagvaxtartölum sem greint er frá.