140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:26]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði mig hvort ég teldi ekki að vel hefði tekist upp í ríkisfjármálum og varðandi hagvaxtarþróun og atvinnuleysi. Það eru þrjár spurningar sem hægt er að svara með einu orði: Nei. Ég tel að ekki hafi tekist vel upp í þeim efnum. Vitaskuld hefur það áhrif á afkomu ríkissjóðs þegar menn hafa gengið í niðurskurð og þegar menn hafa gengið svona hart fram í skattahækkunum. Það breytir því ekki að til eru aðrar og miklu öflugri leiðir til að takast á við vanda ríkissjóðs. Þær leiðir fela það fyrst og fremst í sér að reyna að koma af stað öflugri atvinnustarfsemi sem býr til raunverulegan hagvöxt.

Ég fór yfir það í ræðu minni áðan hvernig hagvöxturinn núna væri saman settur. Því miður er hann allt of mikið saman settur af einskiptisaðgerðum sem hafa skilað sér út í einkaneysluna en það verður ekki hins vegar sjálfbært og þess mun ekki gæta til lengri tíma.

Menn tala um það að hagvöxturinn sé að einhverju leyti útflutningsdrifinn. Skoðum málið. Þá er verið að vísa til þess að við fluttum út makríl fyrir 19 milljarða kr. Er það verk ríkisstjórnarinnar að makrílstofninn stækkaði þannig að hann fór að ganga meira í vesturátt og fór inn í íslenska lögsögu? Er það sérstaklega verk ríkisstjórnarinnar að afurðaverð á makríl á helsta markaði okkar í Rússlandi hækkaði um 45%? Eiga menn að setja heiðursmerki á ríkisstjórnina fyrir það allt saman?

Atvinnuleysið. Ég fór aðeins yfir með hvaða hætti það hefði þróast. Ég vakti athygli á því sem gerst hefur sem kann að hafa draga úr atvinnuleysistölunum. Ég vakti líka athygli á því, sem er gríðarlegt áhyggjuefni, að langtímaatvinnuleysi er að aukast. Til viðbótar hefur atvinnuleysi meðal ungs fólks verið að aukast þrátt fyrir að mjög margt ungt fólk hafi (Forseti hringir.) farið í skóla að nýju.