140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast alveg við þennan frasa, að sækja peningana þar sem þeir eru. Ég benti hins vegar á að þessi létta, ljúfa leið sem okkur var boðuð, sem átti að birtast í því að auka tekjur ríkisins án þess að það kæmi nokkurn tímann niður á vösum almennings, er einmitt blekkingaleikurinn. Það var það sem ég reyndi að sýna fram á með þeim dæmum sem ég tók af margs konar skattlagningu sem er einmitt þessu marki brennd.

Menn vísa til þess að tekjujöfnunaráhrif hafi orðið af skattbreytingunum. En ætli stór hluti þessara tekjujöfnunaráhrifa hafi ekki einmitt komið fram vegna þess að það eru miklu fleiri í dag sem eru með lág laun og fara þess vegna í lægri skattþrep og njóta betur tekjujöfnunaráhrifanna af persónuafsláttarkerfinu sem við höfum í tekjuskattskerfi okkar? Það er langsamlega virkasta aðferðin í þessu skattkerfi.

Stóra málið er að þetta er blekking. Það er með öðrum orðum verið að skattleggja fyrirtækin út af markaðnum, (Forseti hringir.) eyðileggja atvinnustarfsemina. Stundum hefur hæstv. ríkisstjórn tekist það en stundum hefur munað litlu, (Forseti hringir.) eins og ég tók dæmi um.