140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum komin í almennar stjórnmálaumræður. Maður veit stundum ekki hvort hv. þingmenn ætlist til þess að maður taki þá alvarlega í þessum umræðum eða ekki. (JónG: Þú mátt ráða.)

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hvatti okkur stjórnarliða til að huga að fortíðinni og spurði okkur hvað okkur fyndist um ósjálfbæran hagvöxt. Ég hvet hv. þingmann til að huga að fortíð sinni og fortíð þeirrar ríkisstjórnar sem hann sat í fyrir hrun og spyrja hann hvort sá hagvöxtur sem þá blossaði upp og margfaldaðist árum saman hafi kannski verið sjálfbær hagvöxtur.

Ég spyr hv. þingmann hvernig hann skilgreinir þann hagvöxt sem rakinn var til ofvaxtar í bankakerfinu. Og ég spyr hv. þingmann hvernig hann skilgreinir þann hagvöxt sem birtist í Kárahnjúkavirkjun sem hann var öflugur stuðningsmaður við. (Gripið fram í.) Hvernig skyldi nú arðsemin af þeirri framkvæmd hafa verið og ruðningsáhrifin sem henni fylgdu? (Gripið fram í.) Má ég biðja hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson um að leyfa mér að nýta þær 36 sekúndur sem ég á eftir af ræðutíma mínum?

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telur það ásættanlegan dóm um þá framkvæmd að arðsemin af Kárahnjúkavirkjun er nú aðeins 3,5% en ekki 11% eða margfalt meira eins og menn fullyrtu hér á tímum byggingarinnar. (TÞH: 6%.) Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson er að biðja um orðið, frú forseti.