140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir bregður aldrei vana sínum að tala niður til manna. Hv. þingmaður kvartaði undan því að hér væri hafin almenn stjórnmálaumræða. Það er frekar erfitt að ræða um skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar öðruvísi en að stjórnmál blandist inn í það, a.m.k. lítillega. Ég fjallaði í ræðu minni eingöngu um skattamál og það sem boðað væri í því frumvarpi, og síðan í framhaldinu almennt um skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Ég vísaði til þess að nú væri ríkisstjórnin að stæra sig af hagvaxtartölum sem birtar hefðu verið frá Hagstofunni á dögunum þar sem komið hefði fram að mjög stór hluti þess hagvaxtar væri drifinn áfram af aukinni einkaneyslu. Ég rakti það með dæmum hvernig sú einkaneysla gæti ekki verið sjálfbær, alla vega ekki við þær aðstæður sem nú eru. Ég vona að hv. þingmaður hafi heyrt orð mín í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ég var með þeim orðum, og nefndi það í ræðunni, að vísa til fortíðarinnar í þeim efnum, því að það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það er hægt að sýna fram á að á ákveðnum tíma var hagvöxturinn á fyrri árum ekki sjálfbær m.a. vegna þess að hér var fölsk einkaneysla. Hér var sterkt gengi sem knúði áfram þá einkaneyslu og enn fremur að það mikla fjármálakerfi sem hér var byggt upp reyndist ekki hafa þær stoðir til að standa á sem við töldum að væru til staðar.

Það er hins vegar rangt hjá hv. þingmanni að Kárahnjúkavirkjun hafi orðið til þess að draga úr lífskjörunum í landinu. Þvert á móti. Ég sat haustfund Landsvirkjunar. Þar kom fram að það orkuverð sem samið var um hefði verið það hæsta sem hægt var að fá við þessar aðstæður. Þeir vísuðu líka til þess að þegar verið væri að tala um arðsemina væri verið að vísa til óafskrifaðrar virkjunar, (Forseti hringir.) Kárahnjúkavirkjunar, og að þær tölur mundu þess vegna breytast mjög hratt, með sama áframhaldi yrði Landsvirkjun skuldlaust fyrirtæki innan 12 ára.