140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef fylgst með þessum málum og ég deili áhyggjum hv. þingmanns í þessum efnum. Ég ætla ekki að fara að gera þetta neftóbaksmál að stærsta málinu í þessum orðaskiptum okkar. Ég ætla bara að beina sjónum mínum aftur að því sem við vorum að ræða áðan.

Hv. þingmaður hvatti mig nefnilega til að reyna að læra af fortíðinni, er það ekki rétt? Ég vísaði til fortíðarinnar og ég benti á ýmislegt sem farið hefði úrskeiðis í fortíðinni. Ég benti jafnframt á að mér sýndist ýmislegt vera að endurtaka sig núna sem benti til þess að núverandi ríkisstjórn hefði ekki haft burði eða kjark til þess að reyna að læra sjálf af fortíðinni. Sá hagvöxtur sem menn stæra sig nú af er í meginatriðum drifinn áfram af einkaneyslu sem vísustu hagfræðingar okkar, eins og til dæmis úr Seðlabankanum, telja ekki sjálfbæran. Ég held að það væri gott fyrir hæstv. ríkisstjórn að skoða líka þá hluti með sérfræðingum Seðlabankans um leið og hún (Forseti hringir.) tekur þá ákvörðun að skattleggja neftóbakskallana.