140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[19:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Við þessa umræðu frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum er orðið bersýnilegt að allar yfirlýsingar sem heyrst hafa frá forustu ríkisstjórnarinnar í tengslum við fjárlagagerðina og ráðstafanir til að auka tekjur ríkisins á næsta ári um að nýjar tekjur yrðu ekki sóttar til almennings í landinu hafa verið alger markleysa. Í þessu frumvarpi er hægt að finna hvert dæmið á fætur öðru um nýjar álögur og hækkanir á þeim sem eru fyrir sem munu bitna á ráðstöfunartekjum heimila í landinu fyrir utan þau skaðlegu áhrif sem frumvarpið hefur í för með sér fyrir atvinnulífið.

Ég ætla að nefna nokkur skýr dæmi um þetta og ræða síðan um málið í samhengi við stöðuna í efnahagsmálum almennt og hvar við erum stödd.

Í fyrsta lagi má nefna til vitnis um breytingar á lögum sem hafa slæm áhrif fyrir almenning þá breytingu að tekjumörk í skattkerfinu verði einungis verðbætt um 3,5% í stað 8% eins og launþegar höfðu gert ráð fyrir og margítrekað hefur komið fram á undanförnum dögum og vikum. Í þessu felst að ráðstöfunartekjur þeirra sem lægst hafa launin munu ekki halda í við verðlag eins og áður hafði verið gert ráð fyrir. Þetta er dæmi um breytingu á lögum sem gengur þvert gegn yfirlýsingum um að verið sé að hlífa almenningi.

Í öðru lagi erum við með skýrt dæmi í kolefnisgjaldinu sem leggst á bensín og dísil. Það er hækkað um 32% og verður þá kolefnisgjaldið, sem er eitt þeirra gjalda sem ríkið leggur á eldsneyti fyrir utan virðisaukaskatt og önnur gjöld, eitt og sér búið að hækka um 6,3 kr. á bensínið og 7,2 kr. á dísil á þessu kjörtímabili. Þetta eru tölur sem munar um. Þetta mengunargjald, sem við getum líka nefnt það, verður þannig orðið 30% hærra en almennt gerist á Evrópska efnahagssvæðinu.

Af þessum lagabreytingum, og vísa ég þá til áðurnefndrar hækkunar á kjörtímabilinu, leiðir hækkun á skuldum heimilanna um nokkra milljarða króna. Verðlagsáhrifin eru talin vera um 0,2%. Allt skilar þetta sér yfir í vísitöluna sem á endanum hækkar skuldir heimilanna.

Hér er verið að hækka áfengis- og tóbaksgjöld. Þegar þetta er nefnt við hæstv. fjármálaráðherra segir hann að einungis sé verið að færa þessi gjöld upp til samræmis við verðlag en það hafi ekki alltaf verið gert. Þá er oft sagt að það hafi verið trassað. Það er mín skoðun að það sé ekkert lögmál að slík gjöld þurfi ávallt að halda í við verðlag. Eftir að menn hækkuðu þau nýlega, eins og þessi ríkisstjórn gerði langt umfram verðlag, er ekki hægt að stíga núna fram og segja: Við erum ekki að gera neitt annað en að láta gjaldið halda í við verðlag. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða að skoðast í því ljósi hvað hefur verið að gerast á kjörtímabilinu í heild sinni.

Hvað sem þessari umræðu líður er ljóst að áfengi og tóbak hækkar. Það mun verða öllum þeim sem versla með þær vörur ljóst nái frumvarpið fram að ganga óbreytt.

Það er alþekkt staðreynd að stanslausar hækkanir á áfengi og tóbaki leiða smám saman til aukinnar svartar starfsemi með þessar vörur. Þá er ég að vísa til ólöglegs innflutnings og bruggs, enda hefur það færst í vöxt aftur í tíð núverandi ríkisstjórnar.

Við getum líka nefnt fjórða dæmið um mál sem verið er að mæla fyrir og bitnar beint á heimilunum í landinu. Lagt er til að greiðslur í séreignarlífeyrissparnað sem eru umfram 2% verði skattlagðar. Hingað til hefur skattleysisviðmiðið verið 4%, en með þessu er sem sagt dregið úr hvatanum til að leggja til hliðar í séreignarsparnað. Við það minnkar að sjálfsögðu sparnaður í landinu og þá dregur úr fjárfestingu til lengri tíma þar sem lífeyrissjóðirnir hafa þeim mun minna til ráðstöfunar vegna sparnaðar almennings.

Síðan er sérstakur liður í þessu frumvarpi sem snýr að skattlagningu á brúttóeign lífeyrissjóðanna. Þetta er réttlætt með því að einhvers staðar þurfi að finna fjármuni til að standa undir vaxtabótum. Ef menn hafa gefið sér að það þurfi að hækka einhver tiltekin útgjöld, hvort sem þau heita vaxtabætur eða önnur útgjöld ríkisins, þá er í sjálfu sér alltaf hægt að segja: Þetta verður einhvers staðar að sækja. Það er einn helsti galli þessarar ríkisstjórnar að hún virðist ekki sjá neinn möguleika á því að geta gert jafn vel eða betur í einstökum málaflokkum án þess að verja til þess frekari fjármunum og sækja þá ávallt í vasa skattgreiðenda.

Í þessu tiltekna máli þar sem brúttóeign lífeyrissjóðanna verður skattlögð skulum við hafa það í huga að lífeyrissjóðirnir sem slíkir verða aldrei skattlagðir af því að þeir eru ekkert annað en lífeyrisréttindi þeirra sem eiga aðild að viðkomandi sjóðum. Það sem er í raun og veru rétt að tala um í þessu samhengi er skattlagning lífeyrisréttinda þeirra sem aðild eiga að öllum lífeyrissjóðum sem verða fyrir barðinu á þessari skattlagningu. Það er sem sagt verið að skattleggja lífeyrisréttindi. Hvað er það annað en skattlagning á almenning í landinu?

Í frumvarpinu er fleira sem mætti tína til, t.d. fjársýsluskatturinn. Hann gerir stöðu fjármálafyrirtækja verri gagnvart öðrum fjármálafyrirtækjum sem starfa á Evrópska efnahagssvæðinu. Í stuttu máli má kannski nefna sem dæmi að ef einhver er með hugmyndir um að koma af stað nýrri starfsemi af þeim toga er augljóst að samkeppnisumhverfið á Íslandi hefur versnað við þetta eitt. Ef við skoðum að öðru leyti áætluð áhrif hér innan lands þá hefur það birst greinilega í umsögnum sem sendar hafa verið til þeirrar nefndar sem um málið fjallaði að raunverulegar og miklar áhyggjur eru af því að þessi skattlagning bitni helst á þeim fjármálafyrirtækjum sem starfa á landsbyggðinni. Hvað einkennir þau fjármálafyrirtæki þegar grannt er skoðað? Þar eru konur meiri hluti starfsmanna og muni skatturinn þrengja að þessari starfsemi verður þegar öllu er á botninn hvolft þrengt að starfsemi þar sem konur á landsbyggðinni eru í meiri hluta. Þetta mun að öllum líkindum auka atvinnuleysi á viðkomandi stöðum og á endanum, vegna hinnar skertu samkeppnisstöðu, má jafnframt leiða líkur að því að útgjöld ríkissjóðs muni éta upp allan mögulega ávinning af hugmyndinni.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fagna því að stjórnarliðar hafi hlaupið frá hugmyndinni um kolefnisgjald. Eftir 1. umr. um þetta mál var það mjög skýrt að fyrirtæki á borð við Elkem á Grundartanga mundu hreinlega hætta starfsemi og þurfti ekki mikla eða flókna útreikninga til að sýna fram á hversu ótrúlega vanhugsuð og heimskuleg þessi hugmynd var. Hún hefur sem betur fer verið dregin til baka og henni hent. Ég fagna því.

Í þessu máli er komið inn á veiðileyfagjaldið. Þetta er að sjálfsögðu ekki í fyrsta skipti á kjörtímabilinu sem er verið að hreyfa við veiðileyfagjaldinu. Ég tel fullt tilefni til að rifja upp nokkur meginatriði varðandi stöðu sjávarútvegsins og sögu veiðileyfagjaldsins. Gjaldið sem er verið að hækka í frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar og fleira er sem sagt hækkað ásamt með ýmsum öðrum sköttum.

Hvernig kom þetta gjald til í upphafi? Í upphafi starfaði hér auðlindanefnd sem tók gjaldlagningu á auðlindum Íslands, sem gátu verið til þess fallnar að sæta skattlagningu, til sérstakar umfjöllunar í kjölfar mikilla átaka um stjórn fiskveiða í landinu. Margt var tekið til skoðunar í þeirri nefnd. Þar var m.a. rætt ítarlega hvort skynsamlegt væri að innkalla aflaheimildir á löngum tíma í þeim tilgangi að koma fram með nýtt fiskveiðistjórnarkerfi í kjölfarið. Það var ein af meginniðurstöðum meiri hluta nefndarinnar að það væri óskynsamleg leið. Þá tók auðlindanefndin til umfjöllunar hugmyndina um sérstaka gjaldtöku á takmörkuðum auðlindum eins og sjávarauðlindinni. Í því sambandi var það tiltekið að nauðsynlegt væri fyrir okkur Íslendinga að grípa til ráðstafana sem til þess væru fallnar að auka sátt um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar í landinu. Til að gera langa sögu stutta varð niðurstaðan á Alþingi í framhaldi af störfum nefndarinnar sú að innleiða veiðileyfagjald í sjávarútvegi. Frá þeim tíma hefur það oft verið til umræðu í heilan áratug hvort ástæða sé til að taka upp sambærilega gjaldtöku fyrir nýtingu annarra auðlinda. Á undanförnum árum hefur verið mjög mikil hreyfing og gerjun í því efni, m.a. í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar, en engu að síður hefur veiðileyfagjaldið staðið meira eða minna óhreyft í fjöldamörg ár og verið eina dæmið um gjald sem tekið er fyrir nýtingu auðlinda í landinu.

Því miður hefur málið þróast þannig frá því veiðileyfagjaldið var innleitt, og það þrátt fyrir að gjaldið væri ekki innleitt vegna nýtingar á öðrum auðlindum, að grafið hefur verið undan sátt um fiskveiðistjórn á Íslandi og lítið gert úr gjaldtökunni sem slíkri. Þannig hefur á þessum rúma áratug smám saman fjarað undan sáttinni og við erum komin á þann stað í dag að það er nánast talað um gjaldtökuna sem var innleidd í upphafi sem sáttargjörð sem eitthvert lítilræði, smáræði sem sé lítils virði.

Það blasir að minnsta kosti við að ríkisstjórnin vílar það ekki fyrir sér að hækka gjaldið ítrekað og hefur núna tvöfaldað gjaldið án þess að gera það í tengslum við einhverja frekari sáttargjörð um sjávarútveginn og framtíðarfiskveiðistjórnarstefnuna. Þvert á móti er sjávarútveginum haldið, þrátt fyrir hækkanir á veiðileyfagjaldinu, í alveg sérstökum ágreiningi. Það er fróðlegt að horfa stuttlega til þess sem hefur verið að gerast í sjávarútvegsmálum á þessu kjörtímabili. Ef við skoðum t.d. stöðugleikasáttmálann sem gerður var í júní 2009 þá sögðu Samtök atvinnulífsins að þau vildu viðhalda þeim fyrirvara gagnvart framlengingu kjarasamninga sem var samið um, að vinna á vegum ríkisstjórnarinnar við endurskoðun fiskveiðistjórnar yrði í þeim sáttafarvegi sem hafði verið lagt upp með við skipun nefndar til að vinna í málinu. Samtök atvinnulífsins sögðu sem sagt alveg skýrt í júní 2009 að þau treystu því að ríkisstjórnin mundi leiða áfram vinnu við góða, breiða og almenna sátt á milli allra hlutaðeigandi í fiskveiðistjórnarmálum.

Í október sama ár kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni þar sem hún vildi hnykkja á því að engin breyting hefði orðið á sáttafarvegi sem endurskoðun fiskveiðistjórnar var sett í með skipun sáttanefndar. Þetta gerðist 28. október 2009.

Fyrst koma Samtök atvinnulífsins og segja: Við treystum því að áfram verði unnið í átt til sáttar á grundvelli vinnu nefndarinnar. Í október á sama ári kemur ríkisstjórnin að gefnu tilefni reyndar, sem ég ætla ekki að fara út í hér, og hnykkir á því með sérstakri yfirlýsingu að hún hyggist nýta starf nefndarinnar til að efna til sáttar í sjávarútvegsmálum. Þar sagði meðal annars að það væri forsenda nefndarstarfsins að skapa sjávarútveginum góð rekstrarskilyrði til langs tíma. Þetta var fyrir rúmum tveimur árum. Síðan kom þriðja yfirlýsingin sem tengist þessu máli. Hún kom frá ríkisstjórninni í maí á þessu ári. Þá var gefin út sérstök bókun um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Þegar sjávarútvegsráðherra hefur gengið frá frumvarpi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (samningaleið) og það fengið umfjöllun í ríkisstjórn og þingflokkum stjórnarflokkanna verður það fyrir endanlega afgreiðslu og framlagningu kynnt helstu hagsmunaaðilum sem tengjast sjávarútvegi á lokuðum trúnaðarfundum.“

Þar sagði í öðru lagi að stefnt yrði að því að koma málum til nefndar og til umsagnar, í þriðja lagi að vinna þyrfti síðan hagfræðilega greiningu á þessu öllu saman og leitast við að ná enn frekari sátt um málið o.s.frv.

Hverjar hafa efndirnar á öllu þessu verið? Þeir sem fylgst hafa með þekkja það mjög vel. Engar efndir hafa orðið á ítrekuðum yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um að vinna að sátt. Þvert á móti var frumvarpið, sem fjallað var um í yfirlýsingunni frá 5. maí 2011, alger og fullkomin skelfing. Í því frumvarpi sem unnið hafði verið á vegum einhvers konar súperþingmannanefndar, sem sérvaldir þingmenn úr stjórnarflokkunum fengu einir að koma að eftir að málið hafði verið kreist út úr sjávarútvegsráðuneytinu, var algerlega horfið frá niðurstöðu sáttanefndarinnar. Nefndin skilaði nefnilega af sér skýrslu þar sem nær allir sem að starfinu komu, á annan tug aðila, voru tilbúnir að gefa afslátt af sínum ýtrustu kröfum til að leiða fram sátt. Sú sátt átti annars vegar að fjalla um langtímasamninga um nýtingu og hins vegar að opna fyrir möguleikann á einhverri hækkun á veiðileyfagjaldinu. Þetta hékk saman eins og það hafði gert á sínum tíma eftir vinnu auðlindanefndarinnar. Veiðileyfagjald skyldi lagt á í tengslum við einhvers konar sáttargjörð um sjávarútveginn, mikilvægustu atvinnugrein okkar Íslendinga.

Allt sem ríkisstjórnin hefur sagt um sjávarútvegsmál hefur verið svikið. Horfið hefur verið frá sáttinni. Málinu hefur verið haldið í ágreiningi, sérstaklega við stjórnarandstöðuna og helstu hagsmunaaðila greinarinnar. Það birtist t.d. í öllum umsögnum sem málið fékk í sumar og viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við þeim umsögnum. Málið er þar að auki í svo miklum ágreiningi innan ríkisstjórnarinnar að allir bíða eftir því að sjá hvort forsætisráðherrann kasti hreinlega hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr ríkisstjórninni vegna þess að hann er ekki nógu leiðitamur í málinu. Þar er málið statt.

Hvers vegna er ég að rekja sögu átaka um sjávarútvegsstefnuna? Jú, vegna þess að í þessu máli er enn og aftur verið að hækka veiðileyfagjaldið og engu skeytt um sáttina, málið algerlega slitið frá henni og vaðið áfram þannig að bersýnilegt er að það er löngu hætt að skipta menn nokkru máli hvernig heildarsáttin verður á endanum. Það eina sem skiptir máli er að ríkisstjórnin verði sátt við sjálfa sig.

Það eru að verða þrjú ár frá því að gerður var stjórnarsáttmáli um sjávarútvegsmálin og reyndar nokkur önnur stórmál sem ekkert er að gerast í — við skulum kannski orða það svo: sem ekki horfir til neinnar niðurstöðu í en átti þó að ljúka á kjörtímabilinu. Ætli sé ekki réttara að orða það þannig svo að allrar sanngirni sé gætt? Sjávarútvegsmálin eru eitt málið, Evrópusambandsmálið er annað mál sem átti að klárast á þessu kjörtímabili og þriðja stóra málið sem mætti vekja athygli á í þessu samhengi er endurskoðun stjórnarskrárinnar; risastór mál öll þrjú.

Það er í þessu samhengi sem ég tel rétt að breytingar á veiðileyfagjaldinu séu ræddar og ég ætla að nota þetta tækifæri til að lýsa mikilli andstöðu við ítrekaðar hækkanir á því án þess að það sé gert í nokkru einasta samhengi við mikilvæga sátt um sjávarútveginn.

Um þetta mál er að öðru leyti það að segja að það kemur í kjölfar margra annarra þingmála frá ríkisstjórninni á þessu haustþingi og á þessu kjörtímabili sem öll hníga í sömu átt, þ.e. að auka álögur, hækka skatta og kynna til sögunnar nýja. Það er ekkert annað en svik þegar ríkisstjórnin framlengir skatta sem hún kynnti áður sem tímabundna skatta.

Ég get nefnt auðlegðarskattinn svonefnda sem með réttu ætti að heita eignarskattur. Skýrt dæmi um svik ríkisstjórnarinnar er þegar það mál var kynnt þannig að verið væri að leita til þeirra sem mestar ættu eignirnar í landinu og þeir beðnir um að greiða tímabundið — tímabundið — þær prósentur af eignum sínum sem lögin gera ráð fyrir í ríkisreksturinn til að takast á við vandann. Það gerðu menn að sjálfsögðu. Hér hefur verið umræða um það hversu margir hafa hreinlega flúið land. Það er erfitt að geta sér til um hverjar hinar eiginlegu ástæður eru fyrir brottflutningi af landinu en eflaust hafa einhverjir flutt af landinu út af þessu, ég er í engum vafa um það. Mér þykir rétt að horfa ekki bara til ársins 2011 í þeim efnum heldur að skoða þróunina frá því lögin voru sett. Þannig var talað við þann hóp sem lenti í skattlagningunni. Við skulum hafa í huga að þetta eru ekki bara einhverjir auðmenn sem gjarnan er talað niður til í dag. Mjög stór hluti — ég fullyrði það — af þeim sem hafa lent í þessari skattgreiðslu er einfaldlega fólk sem við í þingsal nefnum oft eldri borgara, þ.e. elsta kynslóðin í landinu sem er búin að greiða niður húsnæðisskuldir sínar og á fasteignir, sumir eiga kannski fleiri en eina og aðrar eignir sem þeir hafa náð að ávaxta yfir starfsævina, en það eru eignir sem litlar tekjur eru af. Hvernig eiga menn að bregðast við kröfunni um að skila skatti af þessum eignum til ríkissjóðs? En látum það vera.

Ég nefni auðlegðarskattinn, þann eignarskatt sem hann er, til vitnis um svik sem ég tel ástæðu til að minna á í tengslum við þær skatta- og gjaldahækkanir sem við erum að ræða. Það væri hægt að telja upp langan lista. Ég efast um að ég geti svona í svipinn munað alla skattana. Tekjuskattar fyrirtækja hafa hækkað. Fjármagnstekjuskattur hefur hækkað. Kynntir hafa verið aðrir skattar sem við hreyfum ekki mikið við hér eins og af vaxtatekjum. Við höfum í dag hæsta virðisaukaskatt sem þekkist á byggðu bóli. Hann hefur verið hækkaður. Við höfum líka séð tekjuskattskerfið tekið til heildarendurskoðunar með nýjum skattþrepum þannig að langflestir hafa þurft að þola miklar skattahækkanir, en allir hafa þurft að þola skattahækkanir.

Það er ekkert annað en blekking þegar því er haldið fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattamálum almennt á þessu kjörtímabili komi ekki við þá sem lægst hafa launin. Það er ekkert nema blekking vegna þess að í því sambandi leyfa menn sér að undanskilja þá ákvörðun sem var gripið til fyrr á kjörtímabilinu að afnema verðbætur á persónuafslætti. Menn undanskilja það bara frá öðrum aðgerðum, sem hefði þó augljóslega leitt til hærri skattbyrði ef það hefði verið látið kyrrt liggja. Síðan reyna menn að slá sig til riddara fyrir það að lægstu laun verði verðbætt í frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu í dag, (Gripið fram í: Fjárhæðamörkin.) þ.e. fjárhæðamörkin.

Eina rétta leiðin til þess að meta áhrif á lægstu laun í landinu á valdatíma núverandi ríkisstjórnar er einfaldlega að spyrja sig þessarar spurningar: Hvernig hefði skattbyrði lægstu launa verið á þessu kjörtímabili ef engar skattbreytingar hefðu verið gerðar, ef ekkert hefði verið hreyft við persónuafslættinum og engar aðrar skattbreytingar verið gerðar? Það er eina leiðin til að nálgast rétt svar við því hvernig hefur verið komið fram við þá sem lægst hafa launin. Þegar málum er þannig stillt upp er augljóst að þeir lægst launuðu hafa líka þurft að þola hærri skattbyrði. Alveg sama hvað hæstv. fjármálaráðherra tyggur það oft í þingsal að þessu sé öfugt farið þá er það einfaldlega ekki rétt. Það er heldur ekki rétt hjá hæstv. forsætisráðherra þegar hún heldur því sama fram.

Ég hef minnst hérna á eldsneytið. Það hefur marghækkað og öll hin gjöldin sem ýmist hafa verið færð upp til verðlags eða stóraukin og hækkuð. Listinn er svo langur að ég ætla ekki að reyna að rifja hann allan upp hér. Þetta hefur verið ein samfelld skattahækkanahrina og enn er verið að bæta í.

Við höfum boðið upp á valkost við þessum aðgerðum. Sá valkostur birtist í efnahagstillögum okkar sem síðast voru lagðar fram í haust. Við teljum að rangt hafi verið að fara skattahækkunarleiðina í gegnum efnahagskrísuna. Við teljum okkur eiga allt undir því að hlífa bæði heimilum og fyrirtækjum við þessum miklu skattahækkunum vegna þess að þannig náum við að styrkja á ný skattstofnana, þannig náum við að koma miklu betur og heilbrigðar til móts við heimilin sem eru í þröngri stöðu, ekki bara út af atvinnuleysinu sem hér hefur verið heldur líka vegna hinnar miklu greiðslubyrði sem heimilin fást við. Tölurnar sem við fáum frá Hagstofunni um stöðu heimilanna eru skelfilegar og það hversu hátt hlutfall heimilanna á í erfiðleikum með að ná endum saman. Þetta eru skelfilegar tölur. Þrátt fyrir það er í þessu nýja máli enn verið að kynna til sögunnar auknar álögur.

Staða efnahagsmála að öðru leyti, sem ég ætla að minnast stuttlega á undir lok ræðu minnar, er líka sérstakt áhyggjuefni. Menn hafa gert rangt með því að hampa þeim hagvaxtartölum sem hér hafa verið þótt þær geti að hluta til falið í sér jákvæð tíðindi því að uppspretta hagvaxtarins er sérstakt áhyggjuefni, þ.e. skortur á fjárfestingu. Fjárfesting mun áfram láta á sér standa meðan skattumhverfið á Íslandi er ekki samkeppnishæft og við höfum ríkisstjórn í landinu sem sífellt er að hrófla við skattkerfinu, breyta því og sýna vinnubrögð eins og þau sem við höfum orðið vitni að hér á þingi við afgreiðslu þessa máls. Það er eins og allt sé unnið öfugt hjá ríkisstjórninni.

Í síðustu viku samþykktum við fjárlögin og bjuggum til einhverja tölu um hverjar tekjurnar ættu að vera. Núna erum við að ræða frumvörpin sem eiga að fylla inn í þann tekjuramma. Við sjáum það eftir afgreiðslu fjárlaganna að nefndarmenn eru á hlaupum á göngunum við að breyta og laga og draga úr tekjumyndun og bæta það upp með einhverri annarri, allt til þess að það passi inn í ramma fjárlaganna. Auðvitað ætti þetta að vera alveg þveröfugt. Auðvitað ætti fyrst að komast að því fyrir hverju er meiri hluti á þingi hvað skattahækkanir varðar, fyrir hverju er meiri hluti þegar kemur að tekjuhlið fjárlaganna og um leið fyrir hverju er þá meiri hluti hvað snertir nauðsynlegan niðurskurð. Þegar það liggur fyrir geta menn afgreitt fjárlögin og sagt: Þetta er það sem við höfum komið okkur saman um og meiri hluti er fyrir á þingi. — en þetta er allt gert þveröfugt.

Það er ömurlegt að verða vitni að þessum vinnubrögðum. Að sjálfsögðu tekur allt atvinnulífið eftir því vegna þess að menn eru á harðahlaupum að kynna sér þær hugmyndir sem verða hér til seint á kvöldin í nefndum og er varpað inn í þingsal til að ræða sem breytingartillögur við þessi frumvörp. Allt atvinnulífið hefur mikla hagsmuni af því að fá tækifæri til að veita slíkum hugmyndum umsögn og meta áhrif þeirra á þá starfsemi sem fer fram úti í þjóðfélaginu. Það er dapurlegt að verða vitni að slíkum vinnubrögðum.

Hvaða skilaboð senda þau til fjárfesta? Þau senda þau skilaboð að hér sé engu að treysta, hér sé pólitískur óstöðugleiki og menn geti ekki gengið að neinu vísu varðandi rekstrarumhverfi sitt. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál og er enn, þess vegna er fjárfestingin jafnlítil og raun ber vitni.

Hagtölurnar sem við höfum séð að undanförnu bera með sér að einkaneysla er að taka við sér og það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að því marki sem aukin einkaneysla byggir á einhverri raunverulegri verðmætasköpun í landinu, þ.e. að svo lengi sem við höfum fullvissu fyrir því að fyrir launahækkunum sem hafa átt sér stað í landinu sé einhver innstæða, að atvinnureksturinn beri þær launahækkanir, að þær skili sér ekki á endanum í verðlagi og uppsögnum. Síðan þurfum við að gera okkur grein fyrir því að aukinn kaupmáttur almennings byggir að hluta til á einskiptisaðgerðum, vaxtaendurgreiðslum eins og frá Landsbankanum, niðurfellingu lána og öðru þess háttar og auðvitað líka á úttekt séreignarsparnaðar sem tekinn hefur verið út í tugum milljarða króna. Þegar við mælum einhvern kipp í einkaneyslu og vitum að allt þetta hefur verið að gerast verðum við að gæta okkar á að hampa því ekki sem merkjum um meiri háttar viðsnúning í hagkerfinu.

Við hljótum að geta verið sammála um að það sem þarf fyrst og fremst að gerast hér er að fjárfesting fari af stað og raunveruleg verðmætasköpun. Við þurfum að taka höndum saman til að tryggja að atvinnustarfsemi í landinu geti með raunhæfum hætti staðið undir launahækkunum sem vara. Ef það er eitthvað sem við ættum að hafa lært eftir undanfarna áratugi þá er það víxlverkun kauphækkana og verðlags sem er ekkert annað en ömurlegur vítahringur sem hefur tilhneigingu til að taka nánast engan enda þegar hann fer af stað. Það þarf meiri háttar sameiginlegt átak allra aðila á vinnumarkaði og stjórnvalda til að binda enda á slíkan vítahring þegar hann kemst á snúning.

Allt þetta eigum við að láta verða tilefni til að staldra við. Mér er kunnugt um að í efnahags- og viðskiptanefnd séu menn enn að vinna í þessu máli. Ég vona að sú vinna skili einhverjum árangri. En skatta- og gjaldahækkanir getum við í Sjálfstæðisflokknum einfaldlega ekki stutt. Við getum ekki gert það vegna þeirra aðstæðna sem eru. Við getum ekki gert það atvinnulífsins vegna. Við getum ekki gert það heimilanna vegna. Við erum ósammála ríkisstjórninni um að nauðsynlegt sé að fara í slíkar hækkanir. Við teljum þvert á móti að nauðsynlegt sé að fara ekki í slíkar hækkanir.