140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, það er slæmt að hækka skatta í samdrætti vegna þess að það dregur mjög úr efnahagsstarfseminni einmitt þegar hana þarf að auka eða örva. Vandamálið við það er að við erum með meira en samdrátt, við erum með kreppu sem kom í kjölfar bankahruns. Við slíkar aðstæður taka skatttekjur mjög seint við sér. Til að getað lækkað skatta við slíkar aðstæður þarf að lækka þá mjög mikið sem þýðir að á móti þarf að skera velferðarútgjöld mjög mikið niður. Þá erum við farin að skera niður grunnþjónustu í velferðarkerfinu og í raun að koma kostnaði af ríkinu yfir á einstaklinga sem þurfa, eins og við sjáum reyndar að vissu leyti úti á landsbyggðinni, að fara mjög langar vegalengdir til að sækja nauðsynlega sjúkraþjónustu.

Það hefur verið álit hagfræðinga, m.a. hagfræðinga AGS, að halda eigi aftur af skattahækkunum eftir bankahrun vegna þess að það þýði of mikinn niðurskurð á grunnþjónustu.

Frú forseti. Ég hefði viljað spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála því að draga þurfi úr iðgjaldagreiðslum í lífeyrissjóði fyrst skattbyrðin er svona þung hér á landi og leggja miklu meiri áherslu á að tryggja vöxt raunlauna. Ef raunlaun vaxa hér á landi aukast skatttekjur nógu mikið til þess að við lendum ekki í vandræðum með öldrun þjóðarinnar.