140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki hægt að horfa bara á úttektir úr séreignarsparnaðarkerfinu, það verður líka að horfa á ávöxtun sjóðanna og það sem fólk borgar inn. Staðreyndin er sú að menn hafa ekki verið að ganga á séreignarsparnaðarformið, heldur hefur sparnaðurinn í því kerfi verið að aukast. Þess vegna er hagvöxturinn ekki drifinn áfram af því að menn séu að ganga á þann sparnað. Þegar sparnaður í séreignarkerfinu eykst er ekki verið að ganga á sparnaðinn, það skilur auðvitað hver maður. Hagvöxtur sem drifinn er áfram af auknum útflutningi er sannarlega jákvæður hagvöxtur og sá hagvöxtur hófst tveimur árum eftir hrun og hrunið varð á síðasta ársfjórðungi ársins 2008, það verður hv. þingmaður að hafa í huga. Tæplega 4% hagvöxtur er bara býsna góður árangur miðað við það árferði sem er á mörkuðum heimsins í dag.

Hv. þingmaður vék að auðlegðarskattinum og kallaði það svik að það sem hefði verið kynnt sem tímabundið væri nú ekki lengur tímabundið. Ég verð að leiðrétta hv. þingmann. Það er að vísu verið að framlengja þann skatt um eitt ár, því miður, en hann er engu að síður enn þá tímabundinn. Og þegar hv. þingmaður segir að horfa verði til flutnings sem hefur orðið á fólki sem greiddi þennan skatt frá því að skatturinn var tekinn upp, þá hefur það verið kannað. Á fyrsta árinu var helmingi minna um brottflutning hjá þessu fólki en almenningi. Ég hugsa að við hv. þingmaður séum sammála um að uppistaðan í þessum hópi sé auðvitað fólk sem er stolt af sínu starfi og stolt af því að vera Íslendingar eins og við öll og er auðvitað tímabundið tilbúið til þess að leggja hér af mörkum. Ég skil þó áhyggjur þingmannsins af því ef þetta yrði varanlegt sem skattlagning jafnmikil og hún er einmitt núna í augnablikinu.

Ég vil að lokum taka undir spurningu hv. þm. Lilju Mósesdóttur. Hv. þingmaður segir að það sé rangt að hækka skatta í kreppu. En er þá rétt að reka yfirskuldsettan ríkissjóð í kreppu með 2 millj. kr. halla á hvert heimili í landinu á ári og safna þannig upp skuldum ár frá ári? Er það rétt aðferð (Forseti hringir.) að horfast ekki í augu við veruleikann og hækka þá skatta sem nauðsynlegt er?