140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er kannski við hæfi að byrja á því að nefna það sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Bjarni Benediktsson, endaði á í svari sínu til hv. þm. Helga Hjörvars og geta þess að ég er sammála því sjónarmiði að ýmislegt í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er til bóta, er til þess fallið að gera afar slæmt frumvarp örlítið skárra. Það skal viðurkennast. Það sem hefur gerst í nefndinni, af hálfu meiri hluta hennar milli 1. og 2. umr. er til bóta. Alls ekki nóg en það er í meginatriðum til bóta.

Það verður þó ekki hjá því litið að aðdragandinn og vinnubrögðin eru ekki góð. Fyrir mann sem stendur utan nefndarinnar og hefur ekki fylgst í návígi með vinnu þar heldur fengið einungis fréttir af því eins og hver annar þingmaður þá er þetta ekki í nógu góðu horfi.

Hér hefur verið nefnt, og ástæða til að ítreka það, að í sjálfu sér er verið að byrja á vitlausum enda þegar fjárlagafrumvarp er afgreitt og þar gert ráð fyrir tilteknum tekjum af tilteknum gjaldstofnum og svo komið með frumvörp inn í þingið sem fela í sér lögfestingu þeirra gjalda eða gjaldahækkana sem fjárlagafrumvarpið byggir á. Byrjað er á því að fá niðurstöðuna og síðan er farið í það að finna út hvernig niðurstöðunni megi ná. Það er ekki gott. Það er ekki verið að vinna hlutina í réttri röð.

Vandi hv. þingmanna ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli er nokkur vegna þess að þeir samþykktu í síðustu viku fjárlagafrumvarp sem gerði ráð fyrir að það ætti að ná svo og svo miklum tekjum út úr þessum lið og svo og svo miklum tekjum út úr hinum liðnum. Svo eru þeir núna í þessari viku að fást við það hvernig haga eigi lagabreytingum til að ná þeirri niðurstöðu sem þeir sjálfir komust að í síðustu viku. Það er mjög skrýtið. Sérstaklega þegar fyrir liggur að jafnvel í þeirra eigin röðum er áhugi á að breyta ýmsum af þeim áformum og frumvörpum sem lágu til grundvallar fjárlagafrumvarpinu sem samþykkt var í síðustu viku, tillögur meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar í þessu máli bera þess vitni. Þar er um að ræða töluvert miklar breytingar á frumvarpinu. Og segja má að nefndin vinni út frá því að hún sé í rauninni neydd til þess að ná út sömu tekjum eða sambærilegum tekjum og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu í síðustu viku og það skerðir svigrúm hennar mjög mikið. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi í ræðu sinni áðan er auðvitað skynsamlegra að átta sig á því hverju menn geta náð í tekjur, hvaða tekna menn geta aflað, og láta síðan útgjöldin ráðast af því frekar en að fara hina leiðina, að byrja á því að ákveða hvaða útgjöld menn langar til að ráðast í og velta því síðan fyrir sér hvernig menn ætli að fjármagna það. Þetta er eitt atriði.

Annað atriði sem ég ætla að nefna er það að mörg af þeim frumvörpum, það á reyndar ekki við um þetta, sem við erum að fást við í þessari viku og fela í sér tekjuöflunaraðgerðir fyrir ríkissjóð komu skelfilega seint inn í þingið, komu inn í þingið 30. nóvember eða 1. desember og voru rædd við 1. umr. í síðustu viku, mörg hver 7. eða 8. desember, held ég. Alltaf hefur staðið til að þinginu lyki 16. desember. Þetta eru mjög skrýtin vinnubrögð, mjög einkennileg vinnubrögð hjá ráðuneytunum, og þau eru mörg sem bera ábyrgð á framlagningu þeirra frumvarpa, vegna þess að í mörgum tilvikum lágu fyrir áform um tekjuöflun í fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram 1. október. Það líða því tveir mánuðir frá því að fjárlagafrumvarp er lagt fram þar sem gert var ráð fyrir að einhverra tiltekinna tekna sé aflað og þangað til frumvörpin til að afla teknanna eru lögð fram á þingi. Það eru fráleit vinnubrögð, óútskýranleg og óafsakanleg vinnubrögð.

Ég tók fram, hæstv. forseti, að það ætti ekki við um þetta frumvarp og svo maður hljómi nú aðeins jákvæður í garð hæstv. fjármálaráðherra má hann eiga það að þetta frumvarp og reyndar fleiri skattafrumvörp frá hans hendi komu inn í þingið um mánaðamótin október/nóvember, allt að mánuði fyrr en verið hefur undanfarin tvö, þrjú ár þegar hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að koma með skattafrumvörp í tengslum við fjárlagafrumvarpið inn í lok nóvember. Hrósa ber því sem vel er gert þannig að hæstv. ráðherra stóð sig vel að þessu leyti. Aðrir ráðherrar mega hins vegar líta í eigin barm og velta því fyrir sér hvernig á því stóð að það tók þá tvo mánuði frá því að fjárlagafrumvarp var lagt fram að koma til þingsins frumvörpum sem fela í sér tekjuöflun sem gert var ráð fyrir í því sama fjárlagafrumvarpi. Það er hreint út sagt fráleitt, sérstaklega þegar horft er til þess að það skerðir til mikilla muna möguleika þingsins til þess að fara í vandaða og góða skoðun á viðkomandi frumvörpum. Það skerðir möguleika þingsins til þess að fara í gegnum þau frumvörp, meta þau og velta fyrir sér þeirri stefnumörkun sem í þeim felst. Í mörgum tilfellum er ekki bara um að ræða breytingar á krónutölu eða prósentutölu gjalda, það er meiri stefnumörkun sem felst í frumvörpunum sem til umræðu eru og óhjákvæmilegt að þau mál séu skoðuð vandlega.

En frumvarpið kom inn 1. nóvember, gott mál. Það þýðir að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur haft nokkuð góðan tíma, alla vega í samanburði við fyrri ár, til að fara yfir þetta og vonandi birtist sú vandaða yfirferð í þeim tillögum sem hér liggja fyrir. Ég verð þó — þó að við séum nú í 2. umr. og málið eigi trúlega eftir að ganga aftur til nefndar og komi svo til 3. umr. — að lýsa ákveðnum áhyggjum af því að þær viðamiklu breytingartillögur sem er að finna í frumvarpinu fái kannski ekki nægilega góða skoðun áður en þær verða að lögum. Það hefur áður komið fyrir í þinginu að frumvörp sem eftir atvikum hafa fengið ágæta umfjöllun, fengið umsagnir og góða skoðun, þeim hefur verið snúið á hvolf eða gerbreytt á síðustu metrunum, á síðustu dögum eða klukkustundum málsmeðferðarinnar í þinginu. Fyrir hefur komið, eins og hv. þingmenn þekkja, að það leiði til þess að málin fái ekki nægilega góða skoðun áður en ákvörðun er tekin. Ég legg því áherslu á það í mestu vinsemd að þær breytingar sem lagðar eru til á frumvarpinu og þær breytingar sem verða gerðar á frumvarpinu fái góða skoðun í viðkomandi nefnd áður en það verður lögfest frá þingi, því að við því má búast að það verði niðurstaðan, að þetta verði lögfest núna fyrir jólin. Ég skora þess vegna á hv. efnahags- og viðskiptanefnd að gæta þess sérstaklega varðandi þær breytingar sem verið er að gera og eru í mörgum tilvikum mjög umfangsmiklar fái líka góða faglega skoðun áður en niðurstöðu er náð.

Þetta segi ég þó að ég vonist vissulega til að enn meiri breytingar verði á þessu frumvarpi. Ég dreg ekki dul á það að ég tel að gera þurfi enn meiri breytingar á því en meiri hluti hv. nefndar hefur lagt til og vonast til að viðræður, sem að einhverju leyti eru hafnar innan nefndarinnar, leiði til jákvæðari niðurstöðu að þessu leyti þannig að sá skaði sem ég er hræddur um að frumvarp þetta valdi verði minni en ella. Þetta segi ég vegna þess að ég hef enga trú á að áhrif þessa frumvarps verði jákvæð. Ég held að það muni hafa neikvæð áhrif eins og mörg, flest, ef ekki öll skattafrumvörp núverandi ríkisstjórnar. Það muni vissulega, a.m.k. til skemmri tíma, hafa jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs en ríkissjóður er ekki eyland. Hagsmunir ríkissjóðs til lengri tíma ráðast af því hvernig hagsmunir efnahagslífsins, heimilanna og atvinnulífsins eru. Ríkissjóður sem byggir á atvinnulífi sem er í vanda, á heimilum sem eru í vanda, kemst mjög fljótt í vanda. Menn geta náð sér í tekjur til skamms tíma til að bæta stöðuna, bæta rekstrarstöðuna, en hætt er við að staðan snúist mjög fljótt í þá átt að ríkissjóður sé í rauninni að éta, eins og stundum er sagt, útsæðið með því að skattleggja skattstofnana, hvort sem um er að ræða þá sem tilheyra atvinnulífinu, fyrirtækjunum eða einstaklingunum, svo illa að þeir nái ekki að vaxa með þeim hætti sem þeir ella gætu gert.

Af því að ég vék almennt að skattstefnu ríkisstjórnarinnar áðan er mjög athyglisvert að velta því fyrir sér að þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum í upphaflegri mynd og komst að völdum fyrir næstum þremur árum, 1. febrúar 2009, voru fyrstu skattalegu aðgerðir þeirrar ríkisstjórnar þá um sumarið. Í júnílok voru skattbreytingar afgreiddar og afgreiddar í nokkru snarhasti og nokkrum látum vegna þess að menn vildu eins og sagt var grípa til skjótra aðgerða til að laga stöðu ríkissjóðs. Gáfu sér þess vegna ekki mikinn tíma til samráðs eða heildarstefnumótunar eða þess háttar, en því var lofað að út í slíka heildarstefnumótun varðandi uppbyggingu skattkerfisins yrði ráðist. Hæstv. fjármálaráðherra talaði um það, bæði hér innan þings og á fundum með samtökum úti í bæ, að hann sæi fyrir sér mikla vinnu stórra hópa þverpólitískt og með fulltrúum úr atvinnulífinu og frá hagsmunaaðilum og sérfræðingum og ég veit ekki hvað og hvað sem áttu að vinna sameiginlega að breyttu skattkerfi á Íslandi og móta heildarstefnu um skattlagningu hér á landi.

Síðan eru liðin tvö og hálft ár og enn og aftur erum við að fást við frumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi Íslendinga sem fela í sér breytingar hér og þar í skattkerfinu. Verið er að hækka þennan skatt lítillega, framlengja hann lítillega, finna upp nýjan skatt til að leggja á þessa starfsemi eða hina starfsemina, þessa eignina eða hina eignina, en enn bólar ekkert á þessari heildarstefnumörkun. Hvar liggur hún fyrir? Hvar liggur fyrir sú heildræna stefnumörkun sem fjármálaráðherra talaði um þegar sumarið 2009? Hvergi.

Hafa þeir aðilar, hagsmunaaðilar, fulltrúar stjórnmálaflokka, launþegasamtaka, atvinnurekendasamtaka eða fagsamtaka eða fagstétta verið kallaðir að borðinu til að taka þátt í mótun slíkrar heildarstefnu? Einhverjir fundir hafa átt sér stað. Sennilega ekki margir undanfarna mánuði, sennilega engir sem tilheyra þeirri stefnumörkun sem birtist í þessu frumvarpi og öðrum tekjuöflunarfrumvörpum. Ekki neitt. Það er alltaf verið í einhverjum bútasaumi.

Menn töluðu um það fyrir tveimur og hálfu ári að fara ætti í heildarstefnumörkun til þess að gerbreyta skattkerfinu á Íslandi, ná jafnræði og tryggja tekjuöflun og gera þetta í víðtækri breiðri sátt með samráði út og suður. Svo gerist ekkert nema það að í fjórða sinn kemur inn í þingið hrina, röð af skattbreytingafrumvörpum sem að því er virðist eru meira og minna án samhengis hvert við annað og án samhengis við neina heildarstefnumörkun. Þetta er enn einn bútasaumurinn.

Það sem þessar skattbreytingar, þessar fjórar hrinur og þau frumvörp sem við erum að tala um í þessari viku, eiga sameiginlegt nánast án undantekninga, undantekningarnar eru þó til, er að næstum allar þessar breytingar horfa í þá átt að auka álögur á einstaklinga, heimili og fyrirtæki.

Í frumvarpi þessu er reyndar verið að draga pínulítið í land eða nokkuð, umtalsvert, við skulum segja hlutina eins og þeir eru, varðandi tryggingagjaldið. Verið er að stíga jákvætt skref til baka varðandi tryggingagjaldið sem var hækkað stórlega fyrir tveimur árum. Það er jákvætt og það ber að virða.

Slíkar breytingar eru undantekningin. Nærfellt allar hinar breytingarnar eru einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum, sem sagt skattgreiðendum í landinu í óhag, leggja þyngri byrðar á einstaklinga, fyrirtæki og heimili, draga þar með úr þeim möguleikum að rísa úr öskustónni eftir hrunið haustið 2008. Þetta verðum við að horfast í augu við.

Einhverjir hafa talið saman þær skattalagabreytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og ég heyrði hér í gærkvöldi töluna 146. Það er kannski ekki nákvæm tala en hún lýsir því hversu margar og margvíslegar skattbreytingar hafa verið gerðar á síðustu tveimur og hálfu ári frá sumri 2009. Ég þori að fullyrða að 90% af þeim breytingum, kannski 95%, eru skattgreiðandanum í óhag, einstaklingnum, fyrirtækinu, heimilinu. Slíkar breytingar hafa ekki bara falið í sér skattahækkanir, hækkun á eiginlega öllum þeim sköttum sem til eru í landinu, nánast öllum sköttum sem finnast í lagasafninu, heldur eru þær að mörgu leyti líka til þess fallnar að flækja skattkerfið, gera það flóknara, ógagnsærra og erfiðara viðureignar.

Það er stundum talað um að þjónusta sé notendavæn. Þetta er ekki gott orðalag, en skattalöggjöfin hefur til muna verið gerð ónotendavænni en áður var með þeim fjölmörgu breytingum sem gerðar hafa verið auk þess sem það er ákveðið vandamál út af fyrir sig þegar tíðar skattalagabreytingar ganga yfir, þegar skattalögum er breytt í sumum tilvikum í verulegum atriðum einu sinni á ári og jafnvel oftar á einhverjum tilteknum sviðum. Það eykur flækjustigið fyrir þann sem þarf að lúta skattalögunum, þann sem þarf að fylgja þeim, þann sem þarf að gera áætlanir sínar þar sem m.a. er gert ráð fyrir áhrifum skatta, hvort sem um er að ræða einstakling, launamann, smáatvinnurekanda eða þá sem standa í umfangsmeiri fyrirtækjarekstri. Sannast sagna er það nú þannig varðandi breytingar af þessu tagi, flækjur í löggjöf og í skattalöggjöf ekki síst, að löngum eru þær til þess fallnar að valda t.d. smærri fyrirtækjum meiri vandræðum en stærri fyrirtækjunum sem hafa meiri möguleika á því að kaupa sér sérfræðiaðstoð eða hafa innanhússsérfræðinga á þessu sviði. Með þessu móti, hæstv. forseti, hefur ríkisstjórnin kannski ekki meðvitað, ég vil ekki ætla henni það, ég vil ekki ætla hæstv. ríkisstjórn að gera það meðvitað, en hún hefur engu að síður átt þátt í því að hindra eða seinka endurreisn efnahagslífsins með fjöldamörgum aðgerðum á sviði skattamála.

Auðvitað er það svo að til að atvinnulífið nái sér almennilega á strik, til að efnahagslífið nái almennilega að reisa sig við þurfa mörg skilyrði að vera fyrir hendi og skattaþátturinn er bara hluti af því dæmi. En skattaþátturinn er þó einn af þeim þáttum varðandi starfsumhverfi atvinnulífsins og fyrirtækja sem við stjórnmálamenn, við sem eigum þátt í löggjafarvaldinu eða framkvæmdarvaldinu, getum haft hvað mest áhrif á. Ýmsir aðrir þættir eru þess eðlis að við ráðum miklu minna um það hver skilyrði atvinnulífsins eru, en varðandi skattahlutann höfum við veruleg áhrif. Og við þurfum að velta því fyrir okkur: Er það sem við erum að gera, eru þær ákvarðanir sem við tökum á þingi til þess fallnar að ýta undir endurreisn efnahagslífsins eða eru þær til þess fallnar að tefja fyrir endurreisn efnahagslífsins? Hvort erum við að gera með þessu frumvarpi? Hvort erum við að gera með ýmsum öðrum frumvörpum sem fela í sér aukna tekjuöflun fyrir ríkissjóð? Erum við að seinka endurreisn efnahagslífsins eða erum við að ýta undir endurreisn efnahagslífsins? Í mínum huga er svarið augljóst. Hér er um að ræða skaðlegar aðgerðir í því samhengi.

Ég vildi nefna þetta, hæstv. forseti, án þess endilega að missa sjónar í sjálfu sér á því sem við ræðum hér nákvæmlega, því frumvarpi sem við erum nú með til umfjöllunar. En þetta samhengi er hins vegar þannig að við verðum að horfa á það í heild. Ef við til dæmis veltum fyrir okkur hvað ríkissjóður er að auka skattheimtu sína mikið með nákvæmlega þessu frumvarpi erum við að tala um nokkra milljarða. Menn geta deilt um það hver sú upphæð nákvæmlega er eða hver hún verður nái frumvarpið fram að ganga með þeim breytingum sem á því kunna að vera gerðar. Það eru nokkrir milljarðar. Það eru nokkrir milljarðar í aukna skatta til viðbótar við tugi milljarða á ársgrundvelli sem hefur verið bætt ofan á skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja í landinu á valdatíma núverandi ríkisstjórnar. Hún hefur í fjórum lotum hækkað skatta einstaklinga og fyrirtækja verulega. Um er að ræða umtalsverðar fjárhæðir og það eru fjármunir sem nýtast þá ekki til þeirrar uppbyggingar sem nauðsynleg er á hinum vígstöðvunum, þ.e. hjá þeim sem standa undir ríkisrekstrinum í dag og á öllum tímum. Það verðum við að hafa í huga.

Um er að ræða minni skattahækkanir í frumvarpinu en oft áður, það skal viðurkennt, verið er að hækka skattana minna, kannski álíka mikið og í fyrra en minna en í hittiðfyrra. En það sem við erum að gera núna, við erum að bæta því ofan á skattahækkanirnar í desember 2010. Þær bættust síðan ofan á skattahækkanirnar í desember 2009, sem bættust ofan á skattahækkanirnar í júní 2009. Við erum því sífellt að þyngja pinklana sem við leggjum á einstaklinga og fyrirtæki í landinu. Við erum sífellt að þyngja þá bagga, það er rétt að við höfum það í huga. Ég er hræddur um að þetta verði til þess að seinka þeim bata sem við höfum öll vonað að væri að koma í landinu.

Þá kem ég að því sem mönnum hefur orðið tíðrætt um í umræðunni og það snýr að hagvextinum. Það er rétt að tölur Hagstofunnar sýna að hagvöxtur á þessu ári hefur verið meiri en spáð var, 3,7% á fyrstu þremur ársfjórðungum, sem er töluverður hagvöxtur, töluvert mikill og góður hagvöxtur. En það er líka rétt, eins og bent hefur verið á fyrr í umræðunni, að mikið af þeim hagvexti er til komið vegna aukningar í einkaneyslu sem ástæða er til að hafa áhyggjur af að verði ekki viðvarandi, að það verði ekki sú framleiðsluaukning, verðmætasköpun í þjóðfélaginu sem dugar til þess að halda einkaneyslu uppi til lengri tíma. Auðvitað verðum við að segja að framtíðin ein getur svarað því hvernig þær stærðir allar leggjast, hvaða tölur koma út þegar þetta ár í heild verður gert upp og þegar næsta ár í heild verður gert upp út frá þjóðhagslegum forsendum. Og við vonum það besta.

En það er ástæða til að hafa áhyggjur af því hve mikill hluti af hagvextinum er til kominn vegna einkaneyslu sem á sér rætur í einhverju öðru en aukinni verðmætasköpun í samfélaginu og því sem hér hefur líka verið bent á, þ.e. hve fjárfesting, atvinnuvegafjárfesting er lítil, því að það er hún sem skapar verðmætin til framtíðar. Það er þar, í fjárfestingu í atvinnulífinu, sem lagður er grunnur að hagvexti framtíðarinnar. Þegar atvinnuvegafjárfesting er jafnlítil og nú virðist vera og verið hefur frá hruni þá veldur það okkur áhyggjum þegar horft er til framtíðar. Og þá, svo ég snúi máli mínu aftur, hæstv. forseti, að skattalöggjöfinni, er sá skattalagapakki sem við ræðum um í þessari viku ekki til þess fallinn að ýta undir fjárfestingu eða aukna verðmætasköpun, sérstaklega ekki þegar horft er í baksýnisspegilinn og það metið að hvaða leyti þær skattahækkanir sem nú er verið að leggja á bætast ofan á eldri skattahækkanir, sem líka voru til þess fallnar að draga úr fjárfestingu, fæla menn frá fjárfestingu, hræða menn frá fjárfestingu. Það er áhyggjuefni þegar við horfum til framtíðar og þegar við veltum fyrir okkur hvort forsendur verði til kröftugs hagvaxtar á næstu árum.

Þetta eru þættir, hæstv. forseti, sem valda mér áhyggjum og þess vegna vildi ég sjá skattapólitíkina einhvern veginn allt öðruvísi en við sjáum í þessu frumvarpi. Ég tel að æskilegt væri, sem liður í ráðstöfunum af hálfu löggjafans og stjórnvalda til að ýta undir atvinnulífið og efla efnahagsstarfsemina í landinu, að breyta skattapólitíkinni, slaka á skattpíningunni til að reyna að stuðla að því að koma hjólum atvinnulífsins af stað, því að þar snúast þau því miður allt of hægt, hæstv. forseti. Og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þó að vel gangi vissulega í ákveðnum greinum þá á hið almenna atvinnulíf á heildina litið enn mjög langt í land með að ná sér upp í eðlilegan snúning ef svo má segja, ekki yfirsnúning heldur eðlilegan snúning, eðlilegan vöxt.

Við þekkjum hvaða ástæður búa þar að baki. Við sumar þeirra ráðum við, aðrar ekki. Við ráðum því ekki að um þessar mundir eru aðstæður á mörkuðum erlendis að mörgu leyti erfiðari en verið hefur, við ráðum ekki við það. Við ráðum ekki að öllu leyti við atriði sem hér hefur verið nefnt, sem er endurskipulagning skulda fyrirtækja sem að miklu leyti er ekki í höndum okkar stjórnmálamannanna. Þar hafa hlutirnir gengið of hægt en vonandi er að nást árangur á því sviði núna. Við hér á þingi ákveðum ekki vaxtastigið í landinu sem auðvitað hefur áhrif í þessu sambandi líka. En það eru ákveðnir þættir sem við höfum töluverð áhrif á og skattarnir eru þar á meðal.

Það eru ákveðin atriði sem við höfum áhrif á sem tengjast meðal annars fjárfestingum og framkvæmdum, t.d. á sviði orkumála, framkvæmdum á sviði uppbyggingar orkufreks iðnaðar og annað þess háttar þar sem hlutirnir hafa gengið töluvert hægt, þó að ekki verði sagt að ekkert hafi gerst, það væri ekki sanngjarnt, en þar hafa hlutir gengið mjög hægt miðað við það sem væntingar voru um fyrir ári, fyrir tveimur árum, fyrir þremur árum.

Hversu oft höfum við ekki séð í hagspám, hvort sem er frá opinberum aðilum eða öðrum, að hagvöxtur muni svo og svo mikið aukast ef tilteknar framkvæmdir, hvort sem við erum að horfa á Suðurnesin eða norður í Þingeyjarsýslur, kæmust af stað? Hversu oft höfum við ekki séð hagspár sem hafa getið þess hversu mikil áhrif það hefði á hagvöxt í landinu ef slíkar framkvæmdir kæmust af stað? Við vitum að ein framkvæmd sem komst af stað, stækkun í Straumsvík, hjálpar okkur mikið núna, við vitum það. Stækkun og endurnýjun á álverinu í Straumsvík hefur veruleg áhrif inn í hagvaxtartölur núna, mjög jákvæð. En við höfum líka séð í tölum í niðurstöðum Hagstofunnar, fjármálaráðuneytis, Seðlabanka, Alþýðusambandsins, Vinnuveitendasambands og allra þeirra aðila sem eru að spá fyrir um framtíðina um áhrif — bara ef við horfum annars vegar til Helguvíkur og hins vegar Bakka við Húsavík, hvað framkvæmdir á þeim stöðum gætu haft mikil áhrif fyrir utan tilteknar framkvæmdir á sviði orkuöflunar, sem skipta líka miklu máli í þessu sambandi. Þar hefur ríkisstjórnin ekki borið gæfu til að vera samstiga, heldur hafa mikil ágreiningsmál sem þessu tengjast verið innan ríkisstjórnarflokkanna sem hafa í rauninni gert það að verkum að uppbygging á þessu sviði hefur tafist mjög mikið allan valdatíma þessarar ríkisstjórnar.

Það eru hlutir sem við á Alþingi, við sem þingmenn, við sem stjórnmálamenn hefðum getað haft nokkur áhrif á, ekki ráðið öllu um, ekki haft fullkomlega í hendi okkar, alls ekki, en við hefðum getað haft áhrif á það. En þau áhrif sem hafa komið úr Stjórnarráðinu eða héðan frá þinginu hafa fremur orðið til þess að tefja fyrir frekar en að flýta fyrir á þessum sviðum. Og það er alveg í takti við það sem við höfum verið að gera í skattamálunum þar sem þær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa frekar verið til þess fallnar að tefja fyrir, trufla, draga úr og seinka batanum frekar en að ýta undir það að fyrirtækin og heimilin í landinu gætu náð sér á strik að nýju.

Í frumvarpinu er verið að fjalla um fjöldamarga tiltekna skatta. Upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir í 15 köflum, 30 greinum, ýmsum skattalegum breytingum, í sumum tilvikum krónutölubreytingum, í öðrum tilvikum prósentuhækkunum. Eitthvað af þessu hefur verið tekið til endurskoðunar af hv. efnahags- og viðskiptanefnd, til bóta að mér sýnist að mestu leyti en alls ekki nógu mikið.

Hæstv. forseti. Ég vona, og vil ljúka máli mínu á því, að hv. nefnd skoði málin enn betur og geri enn fleiri breytingar á frumvarpinu sem til bóta mega verða með það að markmiði að draga úr skaðlegum áhrifum frumvarpsins. En þó að ýmislegt hafi verið lagfært, að því er mér sýnist í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar nú þegar, er nauðsynlegt að málin séu skoðuð til muna betur áður en frumvarpið verður gert að lögum.