140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á góðum degi erum við hv. þm. Helgi Hjörvar svona næstum því sammála og ég get tekið undir margt sem hann sagði í andsvari sínu. Það verður þó að hafa í huga að því lengra sem umfjöllun um tekjuöflunarfrumvörp er komin þegar fjárlög eru endanlega afgreidd þá skiptir það máli, því að oft hefur það verið svo að þó að endanleg afgreiðsla frumvarpa um ráðstafanir í ríkisfjármálum eða skattamál hafi beðið fram yfir endanlega afgreiðslu fjárlaga hafa menn verið komnir lengra í umfjöllun sinn, vitað meira í hvað stefndi varðandi tekjuöflunina en áður.

Nú ætla ég alls ekki að gera þetta að einhverju aðalatriði í ræðu minni eða þessum umræðum. Ég nefndi þetta hins vegar vegna þess að ég teldi æskilegt, og vona að hv. þingmaður geti verið mér sammála um það, að við rekstur ríkisins geti menn gert eins og menn gera vonandi sem oftast í rekstri fyrirtækja eða jafnvel rekstri heimila, þ.e. að láta útgjöldin ráðast af tekjunum en ekki öfugt.