140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:39]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kostirnir við gegnumstreymiskerfið samanborið við sjóðsmyndunarkerfið eru þeir að fjármagnið tapast ekki í gegnumstreymiskerfinu að sama skapi og við sáum til dæmis hér í hruninu þegar fjárfestingar lífeyrissjóðanna meðal annars í hlutabréfum urðu að engu. Síðan er því þannig farið að menn verða að ná ákveðinni ávöxtun á því fjármagni sem situr í sjóðunum til að tryggja þau réttindi sem sjóðirnir lofa. Reiknað hefur verið út að til að tryggja 56% af meðaltekjum fólks yfir starfsævina þurfi raunávöxtun að vera 3,5% en raunávöxtun sjóðanna hefur verið minni eftir hrun. Það þýðir að skerða þarf réttindi og þegar réttindi eru skert fá margir minni lífeyri og lífeyri sem ekki dugar fyrir framfærslu. Það er talinn einn ókostur sjóðsmyndunarkerfisins að sá lífeyrir sem það tryggir dugar ekkert endilega fyrir framfærslu, sem hægt væri að tryggja betur í gegnum gegnumstreymiskerfi.

Einnig er talað um að sjóðsmyndunarkerfið geti ekki að sama skapi og gengumstreymiskerfið tryggt aukinn jöfnuð. Það er ýmsir kostir og gallar við bæði kerfin og þess vegna mæla flestir hagfræðingar með því að farin sé blönduð leið (Forseti hringir.) en ekki sú leið sem við höfum farið að byggja bara upp annað kerfið.