140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:42]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég væri að tala gegn sparnaði væri ég að tala um að leggja af sjóðsmyndunarkerfið. Ég er ekki að tala um það, ég er að tala um að við þurfum meira jafnvægi á milli sjóðsmyndunarkerfisins og gegnumstreymiskerfisins en við höfum nú þegar í dag.

Ég veit ekki betur en að margir lífeyrisþegar séu grátandi yfir því að verið sé að skerða lífeyrisréttindi þeirra eða að lífeyrissjóðirnir geti ekki greitt þeim nógu háan lífeyri vegna þess að sjóðirnir hafa tapað of miklu á undanförnum árum og ávöxtun þeirra hefur verið fyrir neðan þetta lágmark, þessi 3,5%. Það eru því ekki bara Ítalir sem gráta yfir því að þurfa að lækka bætur, lífeyrissjóðirnir þurfa að gera það líka og þeir sem fá lífeyri úr slíkum sjóðum hér á landi gráta yfir því að sjóðirnir hafi þurft að skerða bætur.

Það sem ég tala fyrir er fyrst og fremst að draga úr áhættunni í þessu kerfi með því að hafa það blandað.