140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að geta haldið áfram samræðum við hv. þingmann því að þó að ég sé oft sammála hv. þingmanni er ég ekki sammála henni í þessu máli. Við drögum ekki úr áhættu með því að leggja áherslu á gegnumstreymiskerfið, við færum bara áhættuna yfir á börnin okkar og barnabörn. Ef fram fer sem horfir á Íslandi mun fæðingartíðni hér lækka því að þó að við séum enn sú þjóð í Evrópu þar sem fólki fjölgar hefur fæðingum hér fækkað, reyndar minna en annars staðar. Síðast þegar ég skoðaði þetta var um að ræða náttúrulega fjölgun fólks, þ.e. ekki fjölgun sem byggist á innflytjendum, hjá tveimur þjóðum í Evrópu, Íslandi og Tyrklandi. Hjá öðrum þjóðum er svo komið að fólksfjölgun stendur í stað eða fólki fækkar jafnvel og það er meðal annars í þessum sterku iðnríkjum. Auður þeirra hvílir að vísu að stórum hluta á gömlum peningum, ef svo má segja, sem er annað mál. En ég hef aldrei séð litteratúr sem mælir með upptöku gegnumstreymiskerfis. Þvert á móti er almennt lögð áhersla á sparnað og mönnum hefur þótt íslenska lífeyrissjóðakerfið vera til fyrirmyndar. Það þýðir hins vegar ekki að það sé fullkomið. Ég er til dæmis sannfærður um að ekki sé sérstaklega skynsamlegt að miða útreikninga við 3,5% ávöxtun, þótt það sé að vísu til lengri tíma. Í rauninni ætti að miða bætur við það hver ávöxtun er á ákveðnu árabili og jafna það út eins og núna en festa ekki við 3,5%.

Ég held líka, virðulegi forseti, að við þurfum að horfast í augu við að við þurfum að hækka lífeyrisaldurinn. Það er líka rökrétt. Menn fundu ekki upp þennan 67 ára aldur fyrir tíu eða fimmtán árum heldur fyrir 150 árum. Það var sjálfur Bismarck sem vildi ná því fram að uppgjafahermenn einkanlega sem hefðu náð 67 ára aldri gætu lifað án fjárhagsáhyggna síðasta árið því að hann fann það út úr einhverri talnaspeki að þeir yrðu ekki eldri en 68 ára. Nú er staðan allt önnur, meðalaldur hækkar jafnt og þétt og þeir sem eldri eru eru alla jafna miklu yngri í anda en var fyrir nokkrum áratugum. Ég held að ef eitthvað er ættum við að ýta undir sparnað en ekki minnka hann.

Virðulegi forseti. Það er af mörgu öðru að taka en lífeyrismálum en þau tengjast hins vegar þessu frumvarpi vegna þess að nú er gerð atlaga að lífeyrissjóðunum. Það er byrjað að skattleggja þá sem ekki hefur verið gert áður. Í íslenskum stjórnmálum hefur verið órofa samstaða um að gera það ekki og þar hafa ekki síst farið fram hv. þingmenn vinstri flokkanna í þessari tæru vinstri stjórn sem meðal annars hafa gegnt trúnaðarembættum fyrir lífeyrissjóðina. Til dæmis hefur hæstv. innanríkisráðherra og hv. þm. Ögmundur Jónasson verið stjórnarformaður og stjórnarmaður í stærsta lífeyrissjóði landsins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Sá sjóður á nú í vanda og hefur átt í miklum vanda síðasta áratug í það minnsta, ef ekki lengur.

Vinstri menn hafa fjörugt ímyndunarafl þegar kemur að skattlagningu. Ef hæstv. ríkisstjórn hefur það að markmiði að flækja skattkerfið hefur henni tekist stórkostlega vel upp, það er ekki hægt að segja annað. Jafnt og þétt hafa hv. þingmenn stjórnarliðsins kynnt til sögunnar nýja skatta. Það er auðvitað alltaf skemmtilegt og áhugavert að sitja í hv. efnahags- og viðskiptanefnd en þessa dagana sérstaklega er maður alltaf dálítið kvíðinn fyrir hvern fund því maður veit aldrei hvort nýr skattur dettur inn. Við fundum ótt og títt og alltaf getur maður átt von á því að kynnt verði um nýja skattlagningu eða að flækja eigi þá skatta sem fyrir eru. Það er fundur á morgun í nefndinni, virðulegi forseti, en við skulum vona hið besta og að það verði skattlaus fundur eða að minnsta kosti verði engir nýir skattar kynntir til sögunnar. (Gripið fram í.) Ég útiloka ekki neitt í því sambandi að fenginni reynslu.

Aðili í ferðaþjónustu hafði samband við mig og benti mér á að erfitt sé að átta sig á því hvert sé jafnræðið við gistináttaskattinn sem við erum að lögleiða núna. Reglan er sú að ef einstaklingur gistir í tjaldi eða á hótelherbergi borgar hann ákveðna upphæð, þ.e. 20 kr. á mann. En ef viðkomandi gistir í skála er upphæðin 100 kr. Þessi aðili rekur stað á Suðurlandi þar sem er skáli og tjaldsvæði. Skálinn er iðulega fullur af fólki ef vont er veður. Eins og menn þekkja eru veðrabrigðin mörg á Íslandi þannig að ef til dæmis fimm manna fjölskylda ætlar að tjalda þarna fyrir utan en lendir í vondu veðri og gistir í skálanum, er hún ekki aðeins svo óheppin að lenda í vondu veðri heldur hækkar gjaldið sem hún þarf að borga fyrir nóttina úr 100 kr. í 500 kr. Þetta gjald setur hæstv. ríkisstjórn á, eins og það sé ekki nógu slæmt að lenda í vondu veðri, þá bætir hún ofan á það með aukaskattlagningu. Ég veit ekki hvort þetta stenst jafnræðisreglu en svona er þetta og gott ef þetta er ekki orðið að lögum núna, virðulegi forseti.

Mikið var talað um það hvort tekjuskattarnir hefðu hækkað eða lækkað. Mér fannst hv. formaður nefndarinnar vera nokkuð sáttur með sig þegar hann sagði frá því hér að meiri hluti nefndarinnar, í meðförum sínum á tekjuskattshluta frumvarpsins, hefði hækkað viðmiðunarmörkin á tekjuviðmiðunum í tekjuskattinum á lægsta þrepinu ekki um 3,5%, eins og lagt var upp með í frumvarpinu, heldur hvorki meira né minna en um 9,8%. Ég bað um að fá reiknað út hvað þetta þýddi, hvað það mundi muna miklu að hækka þessa viðmiðun sem ættu að vera góðar fréttir fyrir launþega. Ég fékk útreikninginn ekki á mánudaginn eins og hafði verið lofað en fékk hann í dag.

Skemmst er frá því að segja að þetta munar engu fyrir þá sem eru með 210 þús. kr. í laun á mánuði og minna. Ef viðkomandi einstaklingur er með 230 þús. kr. í mánaðarlaun aukast ráðstöfunartekjur hans — og haldið ykkur nú, virðulegi forseti, — um hvorki meira né minna en 0,15%. Já, um hvorki meira né minna (Gripið fram í.) en 0,15% (Gripið fram í.) ef viðkomandi er með 230 þús. kr. í mánaðarlaun. Þetta versnar síðan eitthvað ef launin hækka og þegar þau eru komin í 280 þús. kr. munar um 0,05% og fer síðan lækkandi. Ég verð að viðurkenna að ég hef sjaldan séð menn hreykja sér jafnmikið yfir jafnlitlu eins og þessari meðferð í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. En í það minnsta þurfum við ekki að diskútera þetta lengur, hámarkið er þetta, ráðstöfunartekjurnar aukast um 0,15% ef viðkomandi hefur 230 þús. kr. í mánaðarlaun, en er minna við önnur tekjubil.

Menn hafa líka rætt um auðlegðarskattinn sem ætti að heita eignarnámsskattur og margt er athyglisvert í því. Ég hef spurst fyrir um þennan skatt meðal annars vegna þess að ég veit að menn hafa lagt slíkan skatt af annars staðar. Í sumum löndum hafa menn talið að hann færi þvert gegn stjórnarskrá viðkomandi landa og ég held að upphafið hafi verið þegar stjórnlagadómstóll Þýskalands komst að þeirri niðurstöðu að þetta samræmdist ekki þýsku stjórnarskránni. Ég lagði því skriflega fyrirspurn fyrir hæstv. fjármálaráðherra um hvort ráðuneyti hans hefði kannað ástæðu þess að þetta var afnumið í öðrum löndum. Nú fæ ég ekki oft mjög skýr svör frá hæstv. fjármálaráðherra en ég fékk mjög skýrt svar þarna.

Spurningin var, með leyfi forseta: Hefur ráðuneytið kannað hvers vegna auðlegðarskattur hefur verið afnuminn í sumum Evrópulöndum? Svarið var skýrt: Nei, það hefur bara ekki verið kannað. Ef við skoðum tekjubilin árið 2009 og hversu margir höfðu minni heildartekjur en 10 millj. kr. á ári, voru það 387 fjölskyldur sem höfðu minni heildartekjur en 10 millj. kr. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að þessi skattur tekur ekki tillit til tekna. Viðkomandi greiðir einungis skatt af eignum, óháð því hvort hann hafi háar eða lágar tekjur. Þessar 387 fjölskyldur greiða 186 millj. kr. í auðlegðarskatt.

Í þessu frumvarpi er skatturinn hækkaður verulega. Við getum sagt að fleiri eignir séu skattlagðar að því leytinu til að ekki þarf að eiga eins mikla hreina eign og áður til að lenda í skattinum. Það á við bæði um einstaklinga og hjón og er miðað við að ef einstaklingur á 75 millj. kr. hreina eign, greiðir hann 1,5% auðlegðarskatt. Ef hjón eiga 100 millj. kr. hreina eign greiða þau sömuleiðis 1,5% af umframeigninni.

Nú kann einhver að segja: Þetta er ríkt fólk og hefur bara gott af því að greiða skatta til samfélagsins. Ég hef enga sérstaka samúð með ríku fólki, í það minnsta ekki vegna þess að það sé ríkt. Kannski er það fólk ríkt sem á 75 millj. kr. í hreinni eign, en skoðum þetta aðeins. Mér sýnist að þeir sem greiða þennan skatt séu fyrst og fremst eldra fólk sem hefur náð að spara þessa upphæð. Stundum og kannski oftar en ekki er lífeyrissjóður þessa fólks bundinn í eignum en ekki í hefðbundnum lífeyrisréttindum, meðal annars vegna þess að sumir hafa ekki haft tækifæri til að greiða í lífeyrissjóð. En þessi hópur, eins og aðrir, hefur tækifæri til að flytja úr landi og sleppa við að greiða skattinn. Hver tapar á því? Það erum við hin, virðulegi forseti, sérstaklega ef fólkið er mjög ríkt, sérstaklega ef það á miklar eignir, því að þá greiðir það ekki aðra skatta hér á landi, t.d. fjármagnstekjuskatt ef eign þess er inni á bókum eða í hlutabréfum sem það selur, ekki virðisaukaskatt eða annan veltuskatt, og ekki vörugjöld, tolla o.s.frv. Þannig að þeir sem tapa á þessu eru kannski fyrst og fremst þeir sem þurfa hvað mest á því að halda að hafa hér öflugt velferðarkerfi sem verður ekki fjármagnað öðruvísi en með skatttekjum.

Virðulegi forseti. Mér finnst áhugavert að þeir sem tala hvað mest fyrir auðlegðarskattinum og eru hvað ánægðastir með hann eru þeir sem sitja í ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn. En fyrst þeir hafa þessa gríðarlega miklu sannfæringu fyrir honum, af hverju taka þeir þá ekki lífeyrisréttindin, sem svo sannarlega er hægt að reikna upp, og setja þau inn í auðlegðarskattsstofninn? Nú teljast eignir lífeyrissjóðanna vera um 2 þús. milljarðar kr. Þeir sem hafa sérstaklega góð lífeyrisréttindi, og það hefur einmitt verið gagnrýnt, hafa unnið í opinbera geiranum og eru kannski sérstaklega embættismenn og stjórnmálamenn sem hafa verið lengi á þingi, kannski í áratugi eða setið í ráðherrastólum svo árum skiptir. Þessir einstaklingar eru komnir með verulega góð lífeyrisréttindi. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að það hefur komið fram í fjölmiðlum að fyrrum sambýlismaður stjórnmálamanns sem hefur setið á þingi, þó ekki neitt sérstaklega lengi, og setið sem ráðherra í nokkur ár, er að sækjast eftir lífeyrisréttindum þessa stjórnmálamanns og telur þau nema um 100 millj. kr. Ég fullyrði að margir á þingi eru með miklu hærri lífeyrisréttindi en viðkomandi einstaklingur sem þarna er sótt á.

Maður hlýtur því að spyrja: Er hér um sérhagsmunagæslu að ræða? Er hér á ferðinni sérhagsmunagæsla af hálfu forustumanna hæstv. ríkisstjórnar? Þeir ætla ekki að borga þennan skatt þó svo að þeir eigi eignir, en þeir sem ekki hafa haft tækifæri til að greiða í lífeyrissjóð eiga hins vegar að greiða skattinn.

Einhver kann að segja að lífeyrisréttindi séu ekki eins vel skilgreind og eignir í fasteignum og hlutabréfum og jafnvel inneignum í bönkum. En, virðulegi forseti, því er öfugt farið, nema eitthvað rosalegt gerist. Lífeyrisréttindi, sérstaklega hjá opinberum aðilum, eru mjög vel skilgreind. Allt milli himins og jarðar getur gerst á hlutabréfamörkuðum og fasteignamörkuðum en lífeyrisréttindin hreyfast ekki. Einhver getur átt fasteign eða hlutabréf og hlutabréfin orðið verðlaus yfir nótt og ég þarf ekki að útskýra það fyrir neinum Íslendingi að þannig geta málin farið. Fasteignaverð fer aldeilis upp og niður og hefur aðallega farið niður undanfarið. En eignir í lífeyrissjóði opinberra starfsmanna haldast óbreyttar. Það er eingöngu um opinberu sjóðina að ræða því að almennu lífeyrissjóðirnir þurfa að skerða réttindin ef til dæmis hlutabréf og fasteignir fara niður í verði.

Ég hitti einn prýðilegan hv. þingmann úti rétt áðan og spurði hann um þetta en það var lítið um svör. Ég hef ekki fengið tækifæri til að spyrja hv. stjórnarliða út í þetta vegna þess að þeir hafa ekki mætt hér til að ræða þessi mál. Það væri gaman ef maður sæi einhvern í salnum sem mundi taka umræðu um þessa niðurstöðu sem hv. þingmenn þessarar ríkisstjórnar komast að, en þeir eru algerlega harðir á því að það sé bara eðlilegasta mál í heimi að skattleggja eignir og engu skipti þótt viðkomandi hafi engar tekjur. Það er öðruvísi hugsun en annars staðar, til dæmis á Spáni. Þar eru menn með eignarskatt en heildarskattheimtan — það eru að vísu fullt af undanþáguliðum — má aldrei vera meira en 60% af tekjum einstaklings. Þó að viðkomandi eigi miklar eignir og sé með lágar tekjur mega allir skattar, þar með talinn eignarskatturinn, aldrei vera meiri en 60% af tekjum viðkomandi. En hér er ekkert slíkt. Þessi skattur hefur algera sérstöðu og tekur til allra eigna nema lífeyrisréttinda. Ég held að það sé ekkert ofsalega sannfærandi að stjórnmálamenn, sem sumir hverjir eru með mjög góð lífeyrisréttindi, standi svona að málum.

Staðreyndin er nefnilega sú, virðulegi forseti, að fólk getur flutt. Það er í sjálfu sér kostur en fólk getur flutt burt og er að flytja burt vegna þess að það þarf að greiða óhóflega skatta. Við vitum hvað gerist oft og tíðum ef menn hækka skatta upp úr öllu valdi. Ég heyrði Guðmund Ólafsson hagfræðing tala um að einu sinni setti einhver ráðherra lúxusskatt á kassettur. Það gerði að verkum að menn fengu minna út úr skattinum á kassettur eftir þennan lúxusskatt en áður. Þetta snýst ekki bara um að viðkomandi einstaklingur flytur og borgar ekki auðlegðarskattinn, þetta snýst líka um að hann borgar ekki aðra skatta á meðan hér á landi eins og fjármagnstekjuskatt og virðisaukaskatt. Ef hann fellur kannski frá í öðru landi, hvað gerist þá? Þá rennur erfðafjárskatturinn, sem er hvorki meira né minna en 10% hér á landi, til annarra landa.