140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að sá vandi sem lífeyrissjóðirnir eiga við að etja af þeim sökum að þeir fá ekki ávöxtun auki enn frekar á mismuninn milli annars vegar almennu sjóðanna, þ.e. verkamanna, iðnaðarmanna og verslunarmanna, og hins vegar lífeyrissjóða opinberra starfsmanna. Opinberir starfsmenn eru með tryggð réttindi, sem ég mun koma inn á í ræðu minni á eftir, á meðan sjóðirnir hjá öðrum verða að standa undir réttindunum. Það er ekki nema þrennt í stöðunni: Lífeyrissjóðirnir geta hækkað iðgjald sem er mjög erfitt í dag því að atvinnuvegirnir og launþegarnir eru ekki tilbúnir að borga mikið meira, þeir geta skert lífeyri en eiga mjög erfitt með það þótt þeir neyðist væntanlega til að gera það vegna þess að lífeyrisþegar lífeyrissjóðanna eru ekkert sérlega vel haldnir og svo geta þeir hækkað ellilífeyrisaldur.

Ég kom reyndar inn á þetta í fylgiskjali með nefndaráliti fyrir ári í texta um vandamál með vaxtaviðmiðið af því að alls konar umræða hefur verið í gangi í þjóðfélaginu um að það sé eins konar ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna og þeir haldi einhvern veginn vaxtastiginu uppi í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu geta þeir það ekki og ég veit að hv. þingmaður veit að ef markaðurinn segir að ávöxtunarkrafan sé 2,2% þá verða lífeyrissjóðirnir að sætta sig við það. Það er einmitt staðan í dag.

En það sem við stöndum frammi fyrir núna er hvernig í ósköpunum okkur tekst að jafna muninn á lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisins og á almenna markaðnum vegna mistaka sem gerð voru 1997 þegar aðlögunarsamningarnir voru gerðir. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður man eftir þeirri baráttu þegar laun opinberra starfsmanna voru aðlöguð raunverulega greiddum launum og þeir fengu lífeyrisréttindi miðað við nýju stórhækkuðu launin.