140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. 142 tegundir af skattbreytingum. Þetta frumvarp sem við ræðum í dag er í 29 greinum þannig að það bætist við og í sumum greinum er fleiri en ein skattbreyting þannig að þetta eru um 30–40 breytingar sem bætast við sem gerir alls um 180 breytingar. Eins og bent er á eru lögð fram mörg frumvörp á viku þannig að þetta fer sennilega að slaga upp 200 breytingar. Þetta gerir að verkum að Ísland verður mjög ófýsilegt fyrir fjárfesta vegna þess að menn vilja ekki fjárfesta í svo óöruggu umhverfi þar sem allt leikur á reiðiskjálfi og ekkert er hægt að treysta á. (BJJ: En er þetta ekki markmiðið?) Nei, ég held að það sé örugglega ekki markmiðið hjá ríkisstjórninni en það kemur þannig út af því að menn átta sig ekki á gangverki atvinnulífsins. Sennilega hafa fæstir í ríkisstjórninni verið með atvinnurekstur og átta sig ekki á því hvernig fólk hugsar sem hættir fé sínu í atvinnurekstri í stað þess að vinna hjá hinu opinbera.

En þetta er allt saman mjög dapurlegt þegar maður hugsar um hvert við stefnum. Maður verður bara að þreyja þorrann og reyna að vera bjartsýnn og vonast til að ríkisstjórnin fari frá, helst sem allra fyrst því að það er dálítið uggvænlegt að lesa tölur um vaxandi atvinnuleysi. Það hafa um 2.000 manns verið atvinnulausir síðan fyrir hrun og horfa fram á ekki neitt og nú er fólk sem fór í háskólann fyrir þremur eða fjórum árum að klára námið og kemur út á vinnumarkaðinn og fær ekkert að gera. Það fer úr atvinnuleysi í nám og svo aftur í atvinnuleysi og fer þá væntanlega til útlanda. Þetta er mjög dapurlegt. Ég vonast til að menn sjái að sér og snúi af þessari stefnu.