140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Fæstir þingmenn hafa komist hér í gegnum allar þær athugasemdir sem þeir hafa við þetta mál í ræðum sínum og er það vitanlega vegna þess að málið er flókið og stórt og miklar álögur boðaðar. Það er því mikilvægt að menn komi skoðunum sínum á þeirri stefnu sem er boðuð í þessu frumvarpi eða þessum bandormi sem við köllum svo vel og vandlega á framfæri. Það er ágætt að kalla þetta bandorm því að þeir hafa ekki gott orð á sér. Ýmislegt hefur komið fram í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar og sitt sýnist hverjum.

Það sem ég ætla í upphafi að beina athyglinni að eru skattar sem munu sérstaklega reynast landsbyggðinni þungbærir, þ.e. skattar sem leggjast sérstaklega á hluti, farartæki eða ferðalög og annað sem landsbyggðarfólk eða fyrirtæki úti á landi þurfa einna mest að nota eða þiggja þjónustu af.

Ég ætla að byrja á því að nefna skatta á flug. Frá ársbyrjun 2013 mun taka við svokallað ETS-kerfi, sem er Evrópukerfi sem við höfum gengist undir, en hugmyndin er að leggja jafnframt á kolefnisgjald á flugið sem nemur tugum milljóna. Því til viðbótar er í nýrri samgönguáætlun boðuð stórhækkun lendingargjalda á Reykjavíkurflugvelli, hátt í 300 milljónir að mig minnir. Allt þetta mun leiða af sér meiri ferðakostnað en rekstur flugfélaganna hér innan lands er hreinlega í járnum þannig að þau hafa engan annan kost en að velta þessum gjöldum út í verðlagið, þ.e. hækka farmiðana, eða draga saman seglin og einbeita sér að þeim flugleiðum sem gefa best. Það mun leiða af sér skerðingu á þjónustu við þá sem þurfa nauðsynlega á fluginu að halda.

Það er svo merkilegt að á sama tíma og verið er að hækka ferðakostnað landsmanna, hvort sem það er flugið eða eldsneytiskostnaðurinn sem ég ætla að nefna hér á eftir, er farið með niðurskurðarhnífinn um land allt og þjónusta skorin niður hjá heilbrigðisstofnunum þar sem aðstæður eru jafnvel orðnar þannig að íbúar þurfa að ferðast um langan veg til að sækja sér þá þjónustu sem áður var heima fyrir.

Það er sótt að úr öllum áttum. Það er verið að skerða þjónustu og hækka svo kostnað þeirra sem þurfa að ferðast til að nálgast þjónustuna.

Það er slæm hugmynd að leggja kolefnisgjald á flugið á sama tíma eða um svipað leyti og þetta ETS-kerfi tekur gildi því að að sumu leyti er um tvísköttun að ræða.

Hitt er svo að þeir sem treysta sér ekki til að fljúga eða hafa lítil eða engin fjárráð til þess munu væntanlega nota bíl, en þá á að hækka eldsneytið enn frekar en verið hefur fram að þessu og mörgum þykir nú nóg um.

Hækkanir á ferðakostnaði og eldsneytisgjöldum fara eins og frægt er, ásamt hækkunum á áfengi og mörgu öðru, út í verðlagið og hækka um leið lánin hjá fólki.

Íslendingar eru býsna háðir samgöngum, hvort sem þær eru á landi eða í lofti, og því er mjög sérstakt að fara þá leið að hækka bensínverðið eins og gert er ráð fyrir hér, ekki síst í ljósi þess að mjög góð rök hafa verið færð fyrir því að hærra eldsneytisverð leiði af sér minni notkun á farartækjunum. Þá er ég ekki að vísa til þess að þeir sem þurfa nauðsynlega fara veg muni ekki gera það heldur þess að þeir sem eiga bifreiðar og nota þær munu einfaldlega keyra minna.

Það má velta því fyrir sér hvaða stöðu er verið að setja landsbyggðina í að mörgu leyti. Á höfuðborgarsvæðinu er hægt er að spara mikið eldsneyti með því að kaupa svokallaða metanbíla því að þar er selt metan. Það getur munað mörg hundruð þúsundum á ári fyrir þá sem keyra mjög mikið að eiga slíkan bíl. Þetta er hins vegar ekki í boði eða erfitt úti á landi þar sem engar metanstöðvar eru. Þar af leiðandi má færa fyrir því rök að það sé verið að mismuna íbúum landsins með þessari aðgerð einni og sér.

Ég ætla líka aðeins að nefna annað mál sem ég hef miklar áhyggjur af. Það er sjávarútvegurinn og aukin skattheimta á sjávarútveginn. Eins og við vitum gefur sjávarútveginn sem betur fer ágætlega af sér í dag. Menn gleyma því hins vegar að á bak við mörg þessara fyrirtækja og ekki síst þau sem minni eru og einyrkjana er töluvert af skuldum sem hafa orðið til vegna kaupa á bátum eða aflaheimildum innan lagaramma þess kerfis sem var og er við lýði þannig að menn hafa spilað eftir bókinni, eftir reglunum. Þessir aðilar eiga að sjálfsögðu mjög erfitt með að bera stóraukinn kostnað, jafnvel munu margar milljónir fara úr rekstri lítils fyrirtækis í viðbót við það sem tekið er nú þegar. Hættan er vitanlega sú að þessir aðilar hafi engan kost annan en skera niður starfsemina og hugsanlega segja upp fólki eða draga saman launakostnað með öðrum hætti. Hvatinn til að efla fyrirtækið verður vitanlega lítill vegna þess að svigrúmið minnkar með því að auka þessar álögur og minna verður til skiptanna til að fjárfesta eða stækka við sig.

Þegar við tölum um að hækka eða auka skatta á sjávarútvegsbyggðarlög, sem byggja líf sitt meira og minna á þessari grein, erum við að tala um mjög stórar tölur. Við erum að tala um að t.d. fyrir Ísafjörð lítur út fyrir að hækkunin muni fara úr 117 millj. kr. í 351 milljón. Í Fjarðabyggð muni hækkunin fara úr 281 milljón í 843 milljónir. Bolungarvík 56 milljónir í 168. Forseti, þetta borgar vitanlega enginn nema þessi byggðarlög. Þetta er skattur á þau svæði, þau byggðarlög, þar sem þessi starfsemi fer fram. Í kringum 85% af aflaheimildum er úti á landi, ef ég man rétt, þannig að þetta er fyrst og fremst landsbyggðarskattur.

Það er mjög sérstakt að láta eina atvinnugrein og hluta landsmanna taka á sig aukna skattheimtu. Það er ekki eins og við séum að tala um örfáa einstaklinga sem reka risastór útgerðarfyrirtæki sem þeir eiga einir. Við erum að tala um fjöldan allan, hundruð einyrkja og fyrirtækja sem fjölmargir aðilar standa að baki, sem þessi kostnaður lendir á. Fyrir utan það minnka möguleikar þessara fyrirtækja til að taka þátt í samfélaginu á staðnum.

Með þessari aðgerð ræðst ríkisstjórnin heiftarlega gegn þeim byggðum sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Það nægir að nefna þessar tölur til að sjá að þannig er staðan. Ugglaust eru einhver fyrirtæki sem geta borið þetta, mjög stór og öflug félög, en þau eru bara mjög fá sem eru þannig sett í dag að geta tekið á sig auknar álögur án þess að þurfa að bregðast við með afgerandi hætti vil ég leyfa mér að segja.

Þegar ég tala um hækkanir í sjávarútveginum hugnast mér jafnframt ekki þær fyrirætlanir að taka þá fjármuni sem runnið hafa í svokallaðan AVS-sjóð, aukið virði sjávarfangs. Hugmyndin að honum er sú að hluti af þeim gjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir renni aftur til greinarinnar í rannsóknir, nýsköpun og slíkt til að efla greinina. Þessar greiðslur skipta máli fyrir mörg athyglisverð verkefni sem munu væntanlega leiða af sér ábata fyrir samfélagið í framtíðinni. Nú virðist hugmyndin vera sú að láta þessa fjármuni renna bara í ríkissjóð, í hítina eins og sagt er. Þetta er röng hugsun. Þetta eru röng skilaboð. Við höfum lagt á það áherslu við þessa umræðu að þetta verði ekki gert heldur renni gjöldin áfram í þennan sjóð og þessir fjármunir hafi áfram það gildi sem þeir hafa í dag. Það er hins vegar alveg til umræðu að fara yfir þær reglur sem um sjóðinn gilda og allt það, en það er mikilvægt að setja þessa fjármuni aftur til greinarinnar vegna nýsköpunar, atvinnuþróunar og þess háttar. Sá listi sem við höfum yfir aðila sem hafa fengið úthlutað úr þessum sjóði er áhugaverður og sýnir að þetta gerir gott.

Ég nefndi áðan, frú forseti, að þegar farið er í skattahækkanir sem fara beint út í verðlagið mun hagur þeirra heimila sem eru með verðtryggð lán versna vegna þess að verðtryggingin mun ýta lánunum upp. Þetta er sá hópur sem ríkisstjórnin hefur enn hunsað algjörlega að rétta hjálparhönd eða leiðrétta þau rangindi sem hópurinn varð fyrir í hruninu.

Margir þingmenn hafa ekki gefið upp alla von um að hægt sé að leiðrétta þennan ójöfnuð með einhverjum hætti. Mikilvægi þess að það verði gert eykst í hvert skipti sem við rennum yfir og skoðum þær fyrirætlanir sem ríkisstjórnin hefur varðandi skattahækkanir. Það kann að vera, frú forseti, og mikilvægt að hafa það í huga að þau tækifæri sem voru og hafa verið til staðar til að leiðrétta þessi lán með því að láta hluta af þeim afslætti sem fjármálastofnanirnar fengu renna til heimilanna séu að renna okkur úr greipum. Þar af leiðandi mun hlutverk ríkisins, ríkissjóðs, verða meira og stærra í leiðréttingunum verði farið í þær á annað borð. Ég hef áhyggjur af þessu, frú forseti, því að þetta er merki um sinnuleysi stjórnvalda þegar kemur að heimilum í landinu.

Við framsóknarmenn höfum, eins og þeir sem fylgjast með þessum málum vita, átt frumkvæði að hugmyndunum um hvernig leiðrétta megi lán heimilanna. Við höfum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar lagt fram tillögur í þá veru. Því miður hafa þær ekki hlotið hljómgrunn stjórnvalda þrátt fyrir fagrar yfirlýsingar um að taka vel á móti öllum góðum hugmyndum og tillögum. Skemmst er að minnast að hluti af þeim skilyrðum sem voru sett fyrir því að verja hina svokölluð minnihlutastjórn hér 2009 sneri að þessu, en við það var ekki staðið eins og ýmislegt annað í því samkomulagi sem átti að liggja að baki stuðningnum við minnihlutastjórnina. Við höfum lagst í áframhaldandi vinnu og vangaveltur um hvernig megi gera þetta.

Í gær nefndi ég hugmynd sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur nefnt hér og er að ég held búið að útfæra. Hún snýr að því að sá hluti tekna fólks sem það notar til að borga niður lán sé í þrjú ár t.d. frádráttarbær frá skatti. Við erum að tala um sambærilega hluti og eru gerðir varðandi séreignarsparnaðinn. Skattafsláttur frá ríkinu stuðlar að einhverju, t.d. fjárfestingu í hlutabréfum, og hann mundi þá stuðla þarna að því að fólk mundi greiða hraðar niður lánin sín. Þetta mun vitanlega ekki duga öllum og þarf að grípa til skilvirkari ráða en eru í dag fyrir þá einstaklinga. Þeir sem þetta gætu hefðu hvata til að borga hraðar niður lán sín þar sem skattafslátturinn yrði lagður inn á höfuðstólinn. Þannig mætti taka sem dæmi að þeir sem borguðu 100 þús. kr. fengju hugsanlega 30 þús. kr. aukalega í skattafslátt sem legðist síðan inn á lánin. Þrátt fyrir þennan hvata til að greiða niður lánin yrði á sama tíma að færa lánin niður í 100% í það minnsta því að 110%-leiðin er að margra mati, þar með mínu mati, ekki nein framtíðarlausn. Það er hæpið að það borgi sig fyrir nokkurn að selja húsnæði sitt og fá kannski 70% þegar áhvílandi er 110%. Einhver þarf að borga þennan mismun og hættan er sú að fólk festist hreinlega í íbúðum sínum og sitji þar uns ný stjórnvöld koma og grípa inn í og breyta hlutunum.

Skuldir heimilanna er eitt stærsta vandamál samfélagsins í dag, húsnæðisskuldirnar og það litla svigrúm sem heimilin hafa til að taka þátt í samfélaginu með því að fjárfesta og framkvæma. Í fréttaskýringu í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 fyrir nokkru kom fram hversu miklu skiptir að fasteignamarkaðurinn sé virkur og að skuldir heimilanna séu lækkaðar. Ef ég man rétt viðurkenndi meira að segja einn af forstöðumönnum greiningardeilda bankanna það og þótti mér dálítið merkilegt að það skyldi vera viðurkennt á þeim bænum. Það mun sýna sig að með því að létta á skuldum heimilanna munu tækifæri þeirra til að eyða meira, fjárfesta, kaupa þjónustu, fara í lagfæringar á húsnæði o.s.frv., leiða til aukinnar veltu í samfélaginu. Til þess hefur hins vegar skort vilja.

Hækkandi skattar eins og við erum að ræða hér munu auka vandræði skuldsettra heimila ef ekkert er gert á móti. Ég fæ ekki séð að í umræddu frumvarpi sé nokkuð komið til móts við skuldsett heimili.

Ég nefndi það í ræðu minni í gær líka, herra forseti, að um skeið hefur verið í gangi átak sem er mjög gott og ég vil hrósa ríkisstjórninni fyrir að hafa komið því af stað ásamt aðilum vinnumarkaðarins. Þetta er átakið Allir vinna sem snýr að endurgreiðslu á skatti hjá þeim sem kaupa sér vinnu iðnaðarmanna og slíkt. Þetta er mjög gott verkefni sem ég vil hvetja til að verði framlengt. Það eykur umsvif. Það eykur veltu. Það er hvetjandi fyrir þá sem hafa tækifæri til að ráðast í framkvæmdir að gera það. Því vil ég enn á ný hvetja til þess að átakið Allir vinna verði framlengt í það minnsta um eitt ár þannig að þessi hvati verði áfram til staðar. Auðvitað er einhver kostnaður af því en kostnaðurinn við að hafa allt stopp er miklu meiri að mínu viti en sá kostnaður sem fylgir því að hvetja til verkefna sem þessa.

Herra forseti. Ég hef aðeins farið yfir lítinn hluta af þeim athugasemdum sem ég geri við frumvarpið og þeim ráðleggingum sem ég vil koma á framfæri og óska því eftir að ég verði aftur settur á mælendaskrá.