140. löggjafarþing — 36. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[00:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Áður en ég byrja á efnislegri ræðu tel ég ástæðu til að gagnrýna að við skulum ræða stærstu og veigamestu mál haustþingsins hverju sinni, þ.e. fjárlögin og tekjuhlið fjárlaganna sem er sá bandormur sem nú er til umræðu, ávallt seint á nóttunni. Við fjárlagaumræðuna setti sá er hér stendur sig á mælendaskrá fljótlega eftir að umræðan hófst. Þannig fór nú að sú ræða var haldin að mig minnir hálfsex um morguninn. Þetta er þó öllu betra núna. En það er mjög gagnrýnisvert og er fjallað um það víða úti í samfélaginu að við skulum ræða þessi stóru og veigamiklu mál sem snerta mjög marga og sem eru í eðli sínu mjög flókin, seint á kvöldin og nóttunni, ítrekað. Margir mundu vilja fylgjast með þeirri umræðu. Ég beini því til hæstv. forseta og þingheims alls að taka þetta fastari tökum og breyta út af vananum.

Töluvert hefur verið gagnrýnt í umræðunni í dag að við skulum ræða tekjuhlið fjárlaganna eftir að fjárlagafrumvarpið, útgjaldahliðin, hefur verið samþykkt. Það er mjög gagnrýnisvert. Á mjög mörgum sviðum, í fleiri nefndum, eru nú mál til umfjöllunar sem tengjast tekjuhlið fjárlaganna þar sem verið er að hækka ýmis gjöld og annað. Ég heyri bæði frá stjórnarandstæðingum og stjórnarliðum um að þessi frumvörp, tekjuhliðarfrumvörpin, komi það seint fram að búið sé að samþykkja allt, að menn séu búnir að skuldbinda sig til að samþykkja tekjuhliðina án þess að hægt sé að fjalla um málin, án þess að hægt sé að senda þau til umsagnar eða fá gesti eða annað. Það er algerlega óboðlegt og því verður hreinlega að breyta. Það er raunar ótrúlegt að sú ríkisstjórn sem nú situr og fór fram með þau loforð að bæta skyldi vinnulag, að allt gegnsæi skyldi aukast, skuli ekki hafa staðið við það. Ég held svei mér þá að vinnulagið hafi ekki farið batnandi, þó hef ég ekki reynslu af fyrri ríkisstjórnum.

Þá komum við að bandorminum. Ég talaði um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og viljann sem upphaflega var sýndur til að breyta vinnubrögðum og öllum þáttum, en það hefur fjarað undan því öllu. Það er aðeins komið inn á það í nefndaráliti 2. minni hluta við frumvarpið. Þar segir hv. þm. Birkir Jón Jónsson um samráð í athugasemdum við frumvarpið, með leyfi herra forseta:

„Við gerð frumvarpsins var meðal annars stuðst við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengda kjarasamningum sem dagsett er 5. maí 2011. Yfirlýsingin er afrakstur víðtæks samráðs stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar um margvíslega þætti er lúta að efnahags- og kjaramálum í aðdraganda kjarasamninga.“

Þarna er fjallað um víðtækt samráð og stjórnvalda og aðila hins almenna vinnumarkaðar.

Fljótlega eftir að frumvarpið var lagt fram og var sent til nefndar í vinnslu kom mjög í ljós að það átti lítt skylt við samráð þegar fram komu upplýsingar um stórfelld tvísköttunaráform í frumvarpinu sem ekki nokkur maður vissi um. Svo virtist vera sem stjórnarþingmenn sem fyrst höfðu samþykkt frumvarpið í þingflokki hefðu heldur ekki haft vitneskju um það. Maður veltir því fyrir sér hvenær þessi tvísköttunaráform komu inn í frumvarpið og af hverju mál þurfi ætíð að vera unnin með þeim hætti að enginn viti af svona stórum aðgerðum áður en svona lagað er sett inn.

Þarna er, eins og ég kom inn á, hið svokallaða kolefnisgjald eða réttara sagt kolefnisskattur. Hluta af þessu hefur síðan verið kippt út.

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnulífinu hefði þessi skattlagning kippt grundvelli undan stórum og öflugum fyrirtækjum hér á landi eins og til að mynda Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og að auki líklega tveimur kísilverksmiðjum sem eru í burðarliðnum.

Fram kom töluverð gagnrýni á þessi áform, meðal annars frá stjórnarliðum. Það er raunar með ólíkindum að fylgjast með því hvernig það mál eitt og sér var unnið. Það er gott sýnidæmi um hvernig ríkisstjórnin vinnur í stórum og veigamiklum málum. Það er algjört samráðsleysi. Mig langar að fara sérstaklega ofan í það mál af því það er svo gott dæmi og hefur verið töluvert til umfjöllunar.

Eins og flestum er ljóst fellur íslenskur iðnaður undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir eða ETS-kerfið. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um skattlagningu á þennan iðnað voru í rauninni tvísköttun og skattlagning umfram það sem kerfið mælti fyrir um. Það mælir að sjálfsögðu enginn gegn því að iðnaðarfyrirtæki leggi sitt til samfélagsins, þau gera það svo sannarlega í dag. En það er mjög mikið atriði, til þess að koma í veg fyrir hugmyndir eins og þessar sem standast enga skoðun fyrir fram, að vinnulag sé með öðrum hætti.

Í fyrsta lagi hefði verið mjög skynsamlegt að kanna hvort skattlagningin fæli í sér skerðingu á samkeppnishæfni þessara fyrirtækja á heimsmarkaði, því að það kom snemma fram í umræðunni að það mundi gera það, og hvort fyrirtækin væru almennt í stakk búin til að greiða þessa umræddu skatta.

Það er raunar með ólíkindum að það hafi ekki verið gert. Þetta flokkast einmitt undir pólitíska áhættu sem fer vaxandi á Íslandi. Ég ætla að koma betur inn á hana á eftir.

Í öðru lagi er mikilvægt að haft sé lágmarkssamráð við atvinnurekendur áður en slíkir skattar eru lagðir á.

Í þriðja lagi er mikilvægt að gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem svona aðgerð kann að hafa til að mynda á starfsfólk fyrirtækja og samfélögin sem það starfar í. Það er í rauninni með ólíkindum að menn skuli fara fram með svona hugmyndir án þess að þessi atriði séu könnuð.

Eitt þeirra fyrirtækja sem þarna átti að tvískatta er fyrirtækið Elkem á Grundartanga. Ekkert samráð var haft við umrætt fyrirtæki áður en tillögurnar voru lagðar fram. Það var ekki fyrr en mánuði eftir að þær komu fram sem það kom í ljós. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir slíkt hefðu menn í upphafi skoðað grundvallaratriðin og hefði verið haft það samráð sem ríkisstjórnin talar um að haft hafi verið við vinnslu frumvarpsins, einnig fjárlagafrumvarpsins.

Skatturinn á þetta einstaka fyrirtæki, hefði þessi skattur verið lagður á, hefði numið um 430 milljónum árið 2013 og hefði hækkað upp í 860 milljónir árið 2015. Það kom fram á fundi með bæjarstjórn Akraness þar sem það var upplýst og farið var yfir skattaáformin með þingmönnum kjördæmisins og einstökum nefndum. Það var því ljóst að umræddur skattur hefði verið tvöfalt hærri en meðalhagnaður þessa umrædda fyrirtækis hefur verið undanfarin 10 ár. Því mátti mönnum vera ljóst að með þessum aðgerðum hefði stoðunum verið kippt undan rekstri þessa fyrirtækis og fyrirhuguð stækkun fyrirtækisins, sem verið hefur í burðarliðnum, gerð að engu.

Fyrir utan það var þetta þvert gegn samkomulagi sem gert var milli iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra annars vegar og forsvarsmanna þessa fyrirtækis og fleiri fyrirtækja hins vegar. Elkem á Grundartanga hefur starfað í 30 ár. Um 300 manns starfa hjá þessu fyrirtæki og auk þess eru afleidd störf áætluð vera á annað þúsund talsins þannig að vel á annað þúsund störf voru sett þarna í algjöra óvissu vegna handvammar og fljótfærnisgangs í besta falli. Það getur ekki gengið að mál séu ávallt unnin með þessum hætti.

Þrátt fyrir að þessi áform hafi nú verið dregin til baka hvað þennan þátt snertir er alveg ljóst að áhrifanna mun gæta mjög lengi. Þetta veldur því að Ísland fikrar sig nú upp listann yfir þau ríki þar sem pólitísk óvissa er hvað mest. Þetta er pólitísk óvissa. Nú sýna erlendir listar, sem eru yfirlit yfir áhættugreiningu á ríkjum heims þegar kemur að fjárfestingum almennt og atvinnuuppbyggingu, sem birtir eru reglulega, að Ísland flokkast með ríkjum í Suður-Ameríku, Afríku og Asíu.

Þetta getur ekki gengið svona. Enn eru uppi spurningar varðandi þetta mál. Í samfélaginu í kringum þessa ákveðnu verksmiðju er spurt: Er öruggt að búið sé að draga þessi áform til baka? Er trúlegt að ráðist verði í stækkun þessarar verksmiðju á meðan vinnubrögðin eru með þessum hætti og umgjörðin jafnóstöðug og raun ber vitni? Er trúlegt að fleiri fyrirtæki horfi til þess hvernig vinnubrögðin voru í þessu máli?

Nýlega kom forstöðumaður fjárfestingardeildar Íslandsstofu á þingflokksfund hjá Framsóknarflokknum. Hann sagði að aðgerðir sem þessar sem væru síðan dregnar til baka tæki mjög langan tíma að vinna til baka vegna þess að allar slíkar aðgerðir spyrðust út. Það er pólitískur óstöðugleiki og getur ekki gengið lengur.

Okkur Íslendingum hefur í gegnum tíðina tekist að nýta okkar auðlindir á sjálfbæran hátt. Með menntun þjóðar okkar hefur okkur tekist að sækja fram og skapa hér góð lífskjör. En svona glundroði getur ekki gengið lengur. Það þarf skýra pólitíska sýn. Það þarf stefnu sem fyrirtæki geta gert áætlanir eftir til lengri tíma en einnar viku. Það þekkja það allir sem starfað hafa í fyrirtækjarekstri að grunnurinn undir honum er að menn sjái eitthvað inn í næstu viku í það minnsta og helst einhver ár fram í tímann.

Þetta veldur því síðan að hvort sem það eru lítil eða stór fyrirtæki, einyrkjar, lítil atvinnufyrirtæki veigra þau sér við að fjárfesta vegna þess að það er svo mikil óvissa í allri umgjörðinni. Fjöldi fyrirtækja gæti aukið framleiðslu sína og verðmætasköpun, fjölgað fólki og því um líkt. Lykillinn að því er að ríkisstjórnin og löggjafarvaldið skapi stöðuga umgjörð fyrir þessi fyrirtæki. En allt kemur fyrir ekki. Við horfum upp á það dag eftir dag hvernig málum er háttað. Nú er svo komið að allt það sem varað var við þegar hrunið varð, það sem Færeyingar lentu í þegar bankahrun þeirra varð, þ.e. þessi gríðarlegi brottflutningur fólks frá landinu, hefur komið fram. Fólk sem missir vinnuna, sem finnur ekki vinnu, sækir kannski um tugi starfa og er búið að vera atvinnulaust í lengri tíma, leitar út fyrir landsteinana eftir vinnu. Það þekkjum við úr sögunni. Það hefur gerst áður. Það gerðist svo um munaði í lok 19. aldar, en nú er svo komið að þessar tölur eru að verða allt of háar.

Árið 2008 fluttu 500 einstaklingar af landi brott. Árið 2009 voru það um 2.500. Árið 2010 voru það 1.700 einstaklingar. Í byrjun febrúar 2010, þegar rúmlega 3.000 einstaklingar höfðu flutt af landi brott, var tekin umræða í þessum sal einmitt um þessa brottflutninga. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir spurði hæstv. forsætisráðherra út í þessa brottflutninga og hvað ríkisstjórnin væri að gera til þess að koma í veg fyrir þá. Þá svaraði hæstv. forsætisráðherra því að full ástæða væri til að hafa áhyggjur af þeirri þróun og að ríkisstjórnin væri að gera allt hvað hún gæti til að koma í veg fyrir að Íslendingar sæju ástæðu til þess að flytjast búferlum.

Síðan þau ummæli féllu, 16. febrúar 2010, er nú liðið dálítið vel á annað ár. Árið 2010 fluttu um 1.700 manns af landi brott. Það sem af er árinu 2011 hafa um 1.400 einstaklingar flutt af landinu þannig að það stefnir allt í að árið í ár verði stærra en árið 2010 í þessu tilliti. Það er þvert á það sem hæstv. forsætisráðherra sagði í fjölmiðlum í gær eða fyrradag, að þessir brottflutningar væru nú eiginlega ekkert vandamál, að meira væri gert úr þeim en ástæða væri til. Það lýsir best hugsunarhættinum.

Í byrjun febrúar 2010 var talað um að verið væri að gera allt til þess að skapa atvinnu fyrir þessa einstaklinga til að koma í veg fyrir brottflutning. Nú, tæpum tveimur árum síðar, eru um 3.000 manns til viðbótar fluttir af landi brott.

Það var þó þannig í febrúar 2010 að hæstv. forsætisráðherra sagði að þetta væri vandamál en nú, tveimur árum síðar, er þetta ekki lengur vandamál. Heildarfjöldi þeirra sem flutt hafa af landi brott er kominn yfir 6.000 manns — yfir 6.000 einstaklingar hafa flutt af landi brott frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum.

Kostnaðurinn við brottflutningana er ærinn fyrir íslenskt samfélag. Hann er gríðarlega hár. Ég hef miklar áhyggjur af því hvað er að gerast þarna. Í fyrsta lagi er íslenskt samfélag búið að kosta gríðarlegum fjármunum til að byggja upp það ágæta fólk sem flutt hefur af landi brott, því að Ísland er í rauninni bara eitt fyrirtæki. Við þurfum að hugsa um að tapa sem minnstu út úr því ágæta fyrirtæki sem landið okkar er.

Hver grunnskólamenntaður einstaklingar á Ísland kostar, samkvæmt skýrslu OECD sem unnin var á síðasta ári, íslenskt samfélag um 10 millj. kr. í útgjöldum vegna menntunar. Hver háskólamenntaður einstaklingur kostar samfélagið 23 millj. kr. með beinum útgjöldum vegna menntunar þannig að beinn kostnaður til að mynda við 2.000 brottflutta Íslendinga, sem er um það bil sá fjöldi sem fluttist af landi brott á árinu 2010, er um 30 milljarðar sem er bara glötuð fjárfesting fyrir íslenskt samfélag. Þessir ágætu einstaklingar eru flestir í yngri kantinum, fólk sem er nýbúið að mennta sig, fólk sem er á besta aldri hvað vinnuframlag varðar. Það eru einstaklingarnir sem ættu að drífa áfram hagkerfið hér, skapa hagvöxt, skapa verðmæti og greiða þannig til baka menntunina sem samfélagið er búið að kosta til þeirra.

Það er ekki svo að sá sem hér stendur gagnrýni að við menntum þjóð okkar því að það skilar okkur gríðarlegum tekjum. Kostnaðurinn er 30 milljarðar á hverju einasta ári. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum er kostnaðurinn líklega um hundrað til tvö hundruð milljörðum fyrir utan glataðar tekjur, skatta, vegna þeirra sem flytja burt, og þeirra jákvæðu áhrifa sem þeir hefðu með því að vera áfram í íslensku hagkerfi.

Nei, hæstv. forsætisráðherra segir að þetta sé ekki vandamál en brottflutningar fólks hafa aukist allt of mikið í íslensku samfélagi. Á meðan við náum ekki atvinnulífinu í gang, á meðan við töpum fólki á besta aldri úr landi í auknum mæli — ég fullyrði það og miðað við hljóðið í fólki núna eru brottflutningar að aukast. Ég fullyrði það að … Nú ruglaði þessi blái miði mig sem þingmaður leggur á ræðustólinn og er ekki ólíklegt að fjölmiðlar muni velta því fyrir sér á morgun hvað á honum stendur, en við látum það liggja á milli hluta. (RR: Skemmtileg teikning.)

Ég fullyrði að þessir brottflutningar kosta okkur gríðarlega háar fjárhæðir en íslenskt samfélag þarf á því að halda að vaxa fremur en hitt.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum í fjárlagafrumvarpinu og síðan í því frumvarpi sem hér er til umræðu, vinna þvert gegn því að stækka kökuna. Það er hægt að taka gott dæmi um það: Segjum að forsætisráðherra sé bústjóri á stóru búi þar sem eru kannski 500 fjár. Á hverju ári fækkar forsætisráðherrann í hjörðinni um 20–30 ær og ætlast svo til þess að af því komi sömu tekjurnar og áður. Það er það sem gerist nú, bæði í því frumvarpi sem við ræðum nú, í fjárlagafrumvarpinu og í frumvarpinu á síðasta ári með þeim skattkerfisbreytingum sem þá voru gerðar, enda fjölgar þeim sem gagnrýna stefnu ríkisstjórnarinnar. Undanfarið hefur verið til umræðu gagnrýni Guðmundar Ólafssonar hagfræðings, eða Lobba eins og hann er oft kallaður, í útvarpsþætti á Bylgjunni, að ég held, fyrir nokkrum dögum. Vart verður sá hagfræðingur sakaður um að vera mikill stjórnarandstæðingur því að hann hefur alla jafna varið málstað ríkisstjórnarinnar. Það er óhætt að segja að þau orð sem þessi ágæti hagfræðingur hafði til þess að lýsa ríkisstjórninni og þeirri stefnu og vegferð sem hún er á séu þess eðlis að ekki er hægt að hafa þau eftir í þingsal Alþingis. Hann talaði um skattaáform ríkisstjórnarinnar og áhrif þeirra, að það væri eins og hundur sem elti skottið á sér þegar ríkisstjórnin vildi skattleggja meira á næsta ári vegna þess að kakan væri alltaf að minnka og allt væri að dragast saman.

Fleiri hafa tekið í sama streng. Ríkisstjórnin virðist ekki átta sig á þessu, heldur leggur hún til enn fleiri skattbreytingar, eins og það sé ekki nóg orðið.

Gerðar hafa verið 142 skattbreytingar frá því að hæstv. fjármálaráðherra tók við fjármálaráðuneytinu. Hann er búinn að vera fjármálaráðherra í 940 daga. Í hverri einustu viku er gerð skattbreyting. Fæstar þeirra breytinga hafa verið í þá veruna að stækka kökuna.

Landsbyggðin fer gríðarlega illa út úr mörgum af þessum breytingum. Maður skyldi ætla að miðað við þær veigamiklu skattkerfisbreytingar sem gerðar hafa verið hefðu byggðamál verið höfð til hliðsjónar. Þá hefði kannski í einhverjum atvikum verið horft til norska skattkerfisins þar sem keyrt er á lægri skattprósentu í Norður-Noregi og skattkerfið notað til þess að jafna byggðaáhrif og gera fólki á afskekktari svæðum auðveldara fyrir að stofna fyrirtæki, reka fyrirtæki, halda heimili, en með því er hvatt til þess að halda öllu landinu í byggð.

Ekki er það svo og raunar er það með ólíkindum að fylgjast með því hvernig byggðirnar fara út úr þessu. Byggðamálin verða undir í þeirri stefnu sem alla jafna birtist okkur í fjárlögunum, til að mynda varðandi heilbrigðismálin.

Fyrir um ári síðan var óskað eftir að gerð væri sérstök byggðaúttekt á fjárlögum ár hvert. Ekkert bólar enn á niðurstöðum úr þeim byggðaúttektum sem þá voru lagðar fram. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að gerðar séu einhvers konar kynjaúttektir á fjárlagafrumvarpinu, það þykir sjálfsagt, en þá er ekki síður mikilvægt að gerð sé byggðaúttekt á bæði útgjaldaliðum og skattaliðum og að horft sé til þess að mörg þeirra landsvæða sem fóru gríðarlega illa út úr þenslutímanum á árunum 2005–2008, máttu glíma við mikla fólksfækkun. Það eru engar sértækar aðgerðir eða viðleitni til þess að hlífa þessum svæðum, hvorki varðandi skattaumgjörðina né niðurskurðinn, enda eru margir á þessum svæðum farnir að örvænta mjög og velta því fyrir sér hvort markmiðið sé raunverulega að leggja þau algerlega af.

Það er lítið gert varðandi atvinnuuppbyggingu. Skorið er niður það litla sem orðið er eftir af til að mynda heilbrigðisþjónustu og opinberri starfsemi. Niðurskurður í samgöngumálum hefur verið gríðarlegur, sem við vitum öll að skiptir mjög miklu máli fyrir hinar dreifðu byggðir. Svo koma skattahækkanir mjög illa niður á þessum landsvæðum. Þar er til að mynda hægt að nefna hækkun á bensíngjaldi, hækkun á olíugjaldi, almennar skattahækkanir, flutningskostnað. Þótt í þinginu sé til umræðu frumvarp þess efnis að koma til móts við þann þátt, nær það eingöngu til útflutningsfyrirtækjanna en ekki til einstaklinga, þannig að ég held að full þörf sé á því að ráðast til einhverra almennra aðgerða í þágu hinna dreifðu byggða.

Því miður er það frumvarp sem við ræðum enn eitt skrefið í þá átt að þyngja róðurinn hjá landsbyggðinni eða hjá þeim byggðarlögum sem hafa mátt glíma við mikla fólksfækkun og erfiðleika undanfarna áratugi. Ég fullyrði að líklega hafa aldrei verið jafnmiklir erfiðleikar sem þessi byggðarlög hafa þurft að glíma við og jafnmikil mótbára frá stjórnvöldum og einmitt núna undir stjórn þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr.

Ef við skoðum þetta frumvarp hefur til dæmis á olíugjaldinu gríðarleg áhrif víða úti á landi. Við vitum að á landsbyggðinni eru menn alla jafna mjög bundnir af einkabílum, af öllum flutningum og kostnaði sem þeim tengist. Menn hafa ekki möguleika á að nýta sér almenningssamgöngur þar í sama mæli og í þéttbýli. Einkabíllinn er oft og tíðum eina tækið til þess að ferðast og oft er um langan veg að fara til að sækja þjónustu og enn frekar núna þegar verið er að skera niður í heilbrigðismálum og á fleiri sviðum. Fólk þarf oft að sækja þjónustu um langan veg og allar hækkanir hafa gríðarlega neikvæð byggðaleg áhrif. Þetta er eitt af því sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetustað.

Ég veit ekki hvort ég hef tíma til að fara nægilega vel ofan í þennan þátt í ræðu minni, en fyrirhugað er að leggja kolefnisgjald á flugsamgöngur í frumvarpinu og mun það hafa gríðarleg áhrif á innanlandssamgöngur með flugi, mjög neikvæð áhrif. Það var nú ekki á það bætandi eftir að það sem á undan var gengið í fjárlagafrumvarpinu þar sem nánast er búið er að skera niður það litla sem eftir er af opinberri þjónustu í mörgum þessara byggðarlaga, þá sérstaklega heilbrigðisþjónustu.

Eitt er það sem verið hefur töluvert til umræðu og er raunar ekki í þessu frumvarpi en á að ræða á milli 2. og 3. umr., að mér skilst. Það eru málefni AVS-sjóðsins sem er sjóður sem hefur haft það að markmiði að styrkja sprotastarfsemi í sjávarútvegi og í sjávarbyggðum og hefur unnið gríðarlegt þrekvirki og komið mörgum góðum málum áleiðis. Fyrr á þessu ári var ákveðið að tekjur sem kæmu inn af skötusel mundu renna að hluta til í þennan sjóð. Það var reyndar ákveðið eftir miklar umræður og niðurstaðan var þessi, sem var gríðarlega jákvætt bæði fyrir þennan sjóð og sérstaklega sjávarbyggðirnar vítt og breitt um landið. Hluti af þeim fjármunum var sem sagt eyrnamerktur þessum sjóði.

Nú ber svo við að ríkisstjórnin og fjármálaráðuneytið vilja taka þá fjármuni út úr sjóðnum og koma þeim beint í ríkissjóð. Það er alveg ótrúleg hugmynd að nú eigi að taka þá fjármuni sem fara áttu inn í AVS-sjóðinn til þessara góðu verkefna, þeir eiga allir að sogast inn í ríkissjóð án þess að tryggt sé aukið fé til sjóðsins. Það er raunar enn ótrúlegra það sem komið hefur fram í umræðunni hvað þetta snertir, að þetta hafi átt að gera nær umræðulaust í nefnd og skella því svo inn án þess að ræða við forsvarsmenn sjóðsins, án þess að ræða við þá aðila sem þetta mál snertir og án þess að ræða við fagráðherrann í þessum málaflokki. Það sýnir kannski enn betur þá vegferð sem hluti ríkisstjórnarinnar virðist vera á gagnvart hinum dreifðu byggðu landsins, gagnvart sjávarútvegi, sprotastarfsemi og atvinnuuppbyggingu í þeirri mikilvægu atvinnugrein.

Það var öllum ljóst að fjármálaráðherra var mjög ósáttur við það á sínum tíma að settir væru fjármunir í AVS-sjóðinn og aukið við hann og það byggðatengt, sem er sjálfsagt mál. (Gripið fram í.) En hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur staðið fast á þessu hingað til. Það kannski er hluti af þeirri deilu sem verið hefur innan ríkisstjórnarinnar. Kannski er hluti af því það að meiri vilji hefur verið hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að gæta að stöðu hinna dreifðu byggða í þessu samhengi en hjá hæstv. fjármálaráðherra. Ég skal ekki segja um það, en þetta mál ber svolítinn keim af því að þannig sé um hnútana búið.

Það er raunar með ólíkindum að hugsunarhátturinn sé þessi á sama tíma og menn tala um mikilvægi þess að styðja við alla sprotastarfsemi. Sjávarútvegurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga. Hann er sú atvinnugrein sem skilar okkur hvað mestum þjóðartekjum og mestum útflutningstekjum. Maður skilur ekki hvers vegna ráðist er að greininni með þessum hætti og fótunum kippt undan frekari uppbyggingu á þessum mikilvæga sjóði.

Ég vil benda á ýmis verkefni sem sjóðurinn styður. Hann styður til dæmis við uppbyggingu þorskeldis. Hann styður við frekari úrvinnslu á hliðarafurðum í sjávarútvegi. Hann styður við uppbyggingu á fiskeldi almennt. Hann styður við uppbyggingu á kræklingarækt, sem gæti orðið gríðarlega stór atvinnugrein hér á landi og lofar mjög góðu. En þetta eitt og sér getur ekki gengið eins og hugsunin er hjá ríkisstjórnarflokkunum. Það er mjög mikilvægt að það náist í gegn við meðferð málsins í þinginu að ríkisstjórnin gefi eftir þau áform sín að taka þessa tengingu algjörlega út.

Tíminn sem ég hef til umráða hér fer að styttast. Ég vil segja í lokin að það er mjög mikilvægt að breytt sé í stórum málum í frumvarpinu sem fjallað er um í frumvarpinu, eins og til að mynda kolefnisgjaldinu, AVS-sjóðnum, byggðatengingunni sem þar var hugsuð og auknu framlagi í þann sjóð. En heilt yfir er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því að frumvarpið og raunar efnahagsstefnan almennt muni leiða það af sér að samfélagið — við skulum segja að við náum því ekki sem við gætum í raun náð. Við erum ekki í sókn í íslensku samfélagi. Það er allt of mikið í störfum og stefnu ríkisstjórnarinnar og í þessu frumvarpi eins og í fjárlagafrumvarpinu sem vinnur beinlínis gegn atvinnuuppbyggingu í landinu, sem er beinlínis árás á almenning í landinu, sem veldur því að þær miklu skattahækkanir munu verða til þess að lán heimilanna munu hækka mjög mikið. Það er full ástæða til að hafa miklar áhyggjur, sérstaklega í ljósi þess þegar maður sér hæstv. forsætisráðherra koma aftur og aftur fram í fjölmiðlum án þess að hafa mikla þekkingu eða skilning á högum almennings og fyrirtækja í landinu. Það kom síðast fram í gær, eins og ég kom að í ræðu minni, þegar hæstv. forsætisráðherra kom fram í fjölmiðlum og sagði að brottflutningur væri ekkert vandamál hér á landi.

Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur. Þjóðin hefur orðið miklar áhyggjur af því hvert við stefnum og ég tek fyllilega það. Mestu áhyggjurnar eru vegna þess að ríkisstjórnin er í svo litlum tengslum við almenning og við raunveruleikann í þessu landi.