140. löggjafarþing — 36. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[00:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér ráðstafanir í ríkisfjármálum, ýmsa þá þætti sem liggja til grundvallar fjárlögum ársins 2012, fjárlögum sem þegar hafa verið afgreidd sem lög frá Alþingi. Í ljósi þessa tel ég að við verðum að breyta verklagi fjárlaga og afgreiða frumvörp sem tengjast tekjuöflun fjárlaganna áður en sjálf fjárlögin með tekjum og útgjöldum eru afgreidd. Ég vil taka undir þau sjónarmið félaga minna í hv. fjárlaganefnd að breyta þurfi jafnframt umræðuferlinu um fjárlagafrumvarpið og ég bind vonir við að nýskipuð þingskapanefnd skoði það frekar.

Virðulegur forseti. Ef við lítum hins vegar á forsendur fjárlaga ársins 2012 er ljóst að þær hafa þegar breyst nokkuð. Í nýrri þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði 0,7% minni á næsta ári en gert er ráð fyrir í forsendunum. Hvað þýðir það í raun? Það þýðir, virðulegi forseti, að gera má ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs vegna minni hagvaxtar minnki sem nemur rúmlega 3,1 milljarði.

Af hverju er talið að þessi samdráttur verði? Helst má rekja hann til þess að ekki er spáð jafnmiklum vexti einkaneyslu, samneyslu og útflutnings og fyrr. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjárfesting vaxi og þá sérstaklega opinber fjárfesting sem vegur að einhverju leyti upp samdráttinn í hinum liðunum. En er sýnilegt að það gangi eftir? Er sýnilegt að fjárfesting vaxi og þá sérstaklega opinber fjárfesting? Því miður, virðulegur forseti, eru fjárfestingar ekki í hendi og sífelldar breytingar í skattumhverfinu eru ekki til þess fallnar að auka áhuga fjárfesta, hvorki innlendra né erlendra, og þrátt fyrir yfirlýsingar einstakra ráðherra um að ýmislegt sé í pípunum skila þær yfirlýsingar engu, virðulegur forseti, ef ekkert fylgir í kjölfarið, því miður. En ég vildi svo gjarnan að allar þessar yfirlýsingar gengju eftir til hagsældar fyrir þjóðina. Yfirlýsingar einar og sér hafa hingað til engu skilað, engu og engum. Þar fyrir utan er það ekki vænlegt til fjárfestinga þessar sífelldu breytingar sem eiga sér stað í skattumhverfinu. Dæmi um vanhugsaðan skatt var kolefnisskattur á kol og koks, en það eru þau hráefni sem eru í rafskautum sem notuð eru við framleiðslu áls, járnblendis og kísilmálms.

Áætlun var að leggja sérstakan skatt á þau hráefni en þegar hagsmunaaðilar og Íslandsstofa gerðu grein fyrir hugsanlegum áhrifum slíks skatts á fjárfestingaákvarðanir kom annað hljóð í strokkinn. Sagt var frá hvaða áhrif þessi skattur gæti haft til dæmis á byggingu kísilvers í Helguvík, sem er nú inni samkvæmt þjóðhagsspánni, þar sem fjárfestingar eru upp á 17–18 milljarða sem gætu dreifst á tvö ár. Af slíku kísilveri yrði ekki ef þessi vanhugsaði skattur hefði verið lagður á og það hefði kallað á 4 milljarða tekjusamdrátt og aukinn kostnað vegna aukins atvinnuleysis allt að 1,2 milljörðum. Sem betur fer, virðulegur forseti, var þeim vanhugsaða skatti í meðförum nefndarinnar hafnað. Í IV. kafla í 11. gr. eru liðir a, b, d og e felldir niður í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar en c-lið er enn þá haldið inni með hækkun krónutölu.

Það verður að hæla meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar fyrir þann kjark sem hún sýnir að draga til baka þann vanhugsaða skatt. Það sýnir sig, virðulegur forseti, að oft geta tillögur sem frammi liggja í frumvörpum tekið breytingum í meðförum nefnda og það er vel. En slíkt hringl í skattumhverfinu og vanhugsaðir skattar sem fara í umræðuna og eru síðan dregnir til baka, umræðan um slíkt fælir fjárfesta frá og það er ekki það sem íslenskt samfélag þarf á að halda. Ef einhvern tíma hefur verið þörf fyrir fjárfestingar er nauðsyn á því nú, en slíkt er ekki í hendi, virðulegur forseti, og verður ekki í hendi ef hringl í skattumhverfinu verður áfram eins og það hefur verið fram til þessa í valdatíð núverandi ríkisstjórnar.

Virðulegur forseti. Vaðlaheiðargöng eru heldur ekki í hendi því að enn liggur ekki fyrir sú úttekt sem átti að gera áður en endanleg samþykkt lægi fyrir um framkvæmdina. Við stöndum frammi fyrir því nú, virðulegur forseti, og kominn er 15. desember, að litlar fjárfestingar eru sýnilegar á árinu 2012. Það styrkir ekki á nokkurn hátt forsendur fjárlaga, ef eitthvað er þá dregur það að sjálfsögðu úr því að fjárlögin standist á þeim forsendum sem gerðar eru í þessum fjárlögum.

Virðulegur forseti. Það er flestum kunnugt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa margoft lýst því yfir að þeir ætli í heildstæða stefnumótun um breytingar á skattkerfinu sem og í heildstæðar breytingar og til einföldunar á almannatryggingakerfinu, en lítt bólar á slíku. Því hefur verið haldið fram í umræðunni að núverandi ríkisstjórn hafi frá því að hún tók við lagt til 146 breytingar á skattkerfinu. Ef það reynist rétt slær Ísland væntanlega enn eitt heimsmetið og ég veit ekki hvort það er okkur til framdráttar að þessu sinni.

Flestar þær tillögur sem við ræðum í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og er til 2. umr. með breytingum frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar eru til hækkunar, en einstaka þó til lækkunar svo fyllstu sanngirni sé gætt. Aðrar eru felldar niður eins og áður hefur verið nefnt.

Í athugasemdum stendur á bls. 10, með leyfi forseta, í kafla 2.2. Sérstakar tekjuöflunaraðgerðir, að samkvæmt forsendum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins fyrir árið hafa stjórnvöld uppi áform um eftirtaldar tekjuöflunaraðgerðir:

Það er í fyrsta lagi, virðulegur forseti:

„Dregið verði tímabundið úr frádráttarbærni iðgjalda vegna viðbótarlífeyrissparnaðar frá tekjuskattsstofni, þannig að hámark launþega verði 2% af launum í stað 4%. Áætluð tekjuáhrif eru metin 1,4 milljarðar kr. á ársgrundvelli.“

Í öðru lagi að lagður verði sérstakur fjársýsluskattur á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja, lífeyrissjóða og vátryggingafélaga, sem er 3. mál á dagskránni í dag og er sérstakt frumvarp frá fjármálaráðherra. Áætlað er að þetta skili ríkissjóði 4,5 milljörðum kr. á árinu 2012.

Eins og flestir vita mótmæla lífeyrissjóðirnir enn því að þeir verði skattlagðir með þessum hætti til að greiða niður vaxtabætur og telja að þeir hafi aldrei samþykkt að slíkt yrði gert. Forseti ASÍ hefur hótað að farið verði í málsókn við ríkið ef af þessu verður, en eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, verður þessi fjársýsluskattur ræddur hér sem sérstakur dagskrárliður, þ.e. frumvarp til laga um fjársýsluskatt.

Hér er talað um viðbótarskattþrep í auðlegðarskattinum og áætlað er að viðbótartekjur af breytingunni verði nálægt 1,5 milljörðum kr.

Síðan var kolefnisgjaldið sem um var rætt en sumt af því hefur verið fellt niður þó að annað hafi verið hækkað í krónutölu.

Gert er ráð fyrir frekari hækkun veiðigjalds, úr 13,3% í 27%. Tekjuáhrif eru áætluð 4,5 milljarðar kr. á ársgrundvelli, en áhrifin á árinu 2012 eru metin 1,5 milljarðar kr. á greiðslugrunni. En þess er jafnframt getið á bls. 10 í frumvarpinu, virðulegur forseti, að aðgerðir vegna veiðigjaldsins verði að finna í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, sem verður þá hugsanlega lagt fram á árinu 2012. Án fjársýsluskattsins að upphæð 4,5 milljörðum og án veiðigjaldsins eru tekjuáhrif frumvarpsins af framangreindum aðgerðum tæpir 4 milljarðar en væru með fjársýsluskattinum sem og veiðigjaldinu 9,7 milljarðar.

Það eru því, virðulegur forseti, verulegar hækkanir á ýmsum stöðum sem maður veltir fyrir sér hvort og þá hvernig hafi áhrif á hinn almenna borgara. 10,5% fjársýsluskattur, maður hefur það á tilfinningunni, án þess að geta fullyrt um það, að það hljóti með einhverjum hætti að ganga beint inn í gjöld sem fjármálastofnanir þá láta neytendur með einum eða öðrum hætti greiða sem og vátryggingafélögin. En spurning verður hvernig lífeyrissjóðirnir muni, ef þeir verða þvingaðir með lögum í slíkar greiðslur, þurfa að nálgast þá fjármuni öðruvísi en skerða lífeyrisréttindi.

Stundum veltir maður því fyrir sér, virðulegur forseti, með núverandi ríkisstjórn sem ýmist kennir sig við jöfnuð og jafnrétti, velferð og norræna velferð — hvar hugsunin um velferð borgaranna liggur í raun og veru þegar oftar en ekki ofan á allt á að hækka álögur og skatta.

Í VIII. kafla, virðulegur forseti, eru lagðar til breytingar á lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum. Ég er í sjálfu sér ekki að lasta hækkanir á þeim vörum en þær hafa óneitanlega áhrif á heimilin í landinu vegna neysluvísitölunnar. Þær tillögur sem hér liggja fyrir upp á 5,1% hækkun kalla á hækkun lána heimilanna. Sá útreikningur liggur ekki fyrir en gefur augaleið að það rýrir að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimilanna um leið og lánin hækka og þar af leiðandi afborganir af lánum, en áætlaðar tekjur ríkissjóðs af þessari 5,1% hækkun nema 760 milljónum.

Einnig eru, virðulegur forseti, lagðar til breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum. Þær breytingar hafa líka áhrif á heimilin í landinu og sú 5,1% hækkun rýrir að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimilanna, en tillögurnar gera hins vegar ráð fyrir að áætlaðar tekjur ríkissjóðs verði 320 milljónir. Þetta er í kafla IX, virðulegur forseti.

Í X. kafla eru lagðar til breytingar á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum. Og það er ef ég man rétt um Framkvæmdasjóð aldraðra sem allir greiða í. Þær tillögur gera ráð fyrir 5,1% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Áætlaðar tekjur ríkissjóðs nema 90 milljónum en eins og fyrr, virðulegur forseti, rýrir þessi 5,1% hækkun á framlagi til Framkvæmdasjóðs aldraðra að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimilanna.

Sömu sögu er að segja um tillögur sem lagðar eru til um breytingu á lögum nr. 6/2007, um Ríkisútvarpið ohf., með síðari breytingum. Þar er gert ráð fyrir 5,1% hækkun, sem hækkar tekjur ríkissjóðs um 200 milljónir, virðulegur forseti, en að sama skapi rýrir sú hækkun að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimilanna.

Það er eiginlega nákvæmlega sama hvar við berum niður. Á flestum stöðum eru lagðar til hækkanir sem á einn eða annan hátt koma við heimilin í landinu, við fjölskyldur og einstaklinga, rýra ráðstöfunartekjur þeirra, hækka lánin þeirra og þar af leiðandi draga úr einkaneyslu sem að sjálfsögðu rýrir svo til baka tekjur ríkissjóðs.

Hæstv. ríkisstjórn tókst að finna nýjan skattstofn, hún breikkaði skattstofninn vegna þess að hún fann steinolíuna. Steinolían er nýr skattstofn og er hann fram kominn vegna þess að í kjölfar hækkandi eldsneytisverðs hefur komið í ljós að steinolían hefur í auknum mæli verið notuð á ökutæki. Á árinu 2005 voru rúmlega 118 þúsund lítrar seldir af steinolíu en á árinu 2010 var salan komin í rúmlega 1,1 milljón lítra og áætlað tap ríkissjóðs vegna þessa er talið nema um 60 millj. kr. Sú þróun er fyrst og fremst ástæða þess að olíugjald er lagt á steinolíu. Ég velti því fyrir mér, virðulegur forseti, og það hljóta þeir sem nota metan á bílana sína einnig að gera, hvort næsti skattstofn verði metanið. Þó svo að metanið dragi úr umhverfismengun og sé af hinu góða, er spurning hvort ríkisstjórnin sjái þar nýjan skattstofn. Og það hlýtur að vekja þá til umhugsunar sem velta fyrir sér breytingu á bílum sínum, sem kostar fé, ef það verður hirt til baka innan tíðar með sams konar skatti á metan.

Virðulegur forseti. Í VI. kafla í þessum bandormi er breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald. Þar er tillaga um að almennt og sérstakt vörugjald á bensín, svo og olíugjald hækki um 2,5% sem á að skila ríkissjóði um 400 milljónum og tillagan um 5,1% hækkun á kílómetragjald á skila ríkissjóði 30 milljónum. Það þarf ekki, virðulegur forseti, glöggt auga til að sjá að þessar hækkanir rýra jafnframt að sjálfsögðu ráðstöfunartekjur heimilanna. Hér er flest á sömu bókina lært.

Árið 2009 var auðlegðarskattur tekinn upp með lögum. Sumir segja að eignarskatturinn gamli hafi fengið nýtt nafn og ég get fallist á það, og nú er verið að festa hann í sessi. Það er alveg ljóst, virðulegur forseti, að menn geta ekki reiknað út nú hvaða tekjum þessi auðlegðarskattur muni skila í ríkissjóð. Hins vegar telja menn ljóst að þessi viðbótartekjuöflun kunni að lækka ráðstöfunartekjur þeirra sem hann greiða um allt að 1,5 milljarða kr.

Svo er kannski það sem meira máli skiptir um svokallaðan eignarskatt eða auðlegðarskatt að þeirri spurningu sem fram hefur komið hefur aldrei verið svarað hvort þessi skattur brjóti í bága við stjórnarskrána. Ýmsir hafa sagt svo og þá standa einstaklingar sem greiða þennan auðlegðarskatt frammi fyrir því að þurfa að leita til dómstóla til að fá úr því skorið hvort skatturinn brjóti í bága við stjórnarskrána.

Það var dapurt, virðulegur forseti, þegar fjármálastofnanir tóku að veita svokölluð gjaldeyrislán eða lán með viðmiðun við erlenda mynt, sem var ólöglegt, og áður en stjórnvöld gripu í taumana, eða einhver las lögin eins og átti að lesa þau og túlka, fóru einstaklingar með málið fyrir dóm og þar af leiðandi þurfti síðan löggjafinn að bregðast við. Það færi betur, virðulegur forseti, að áður en slíkt er fest í löggjöf, áður en slíkir skattar eru settir á sem einhver löglærður maður telur að orki tvímælis og brjóti hugsanlega í bága við stjórnarskrána, þá sé það fullkannað af þeim sem leggja fram áætlun um slíkan skatt, að kannað sé áður en hann er lagður á hvort hann brjóti í bága við stjórnarskrána í stað þess að láta einstaklingana, borgarana í landinu, þurfa að leita til dómstóla til að fá úr því skorið hvort svo sé. Það er ekki, virðulegur forseti, sú aðferð sem löggjafarvaldið, Alþingi Íslendinga, á að beita og það er heldur ekki sú aðferð sem einstaka ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eiga að nota vegna þess að þeir verða að geta fundið sköttum sínum stoð með lögum.

Virðulegur forseti. Það er ýmislegt annað í þessu frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem tók breytingum og hefur tekið breytingum. Það verður væntanlega fært til sama horfs og er í fjárlagafrumvarpinu, að til dæmis kom fram töluverð breyting á sóknargjöldum og öðrum þáttum sem snerta trúfélög. Hækkun var til nokkurra muna í sjálfu fjárlagafrumvarpinu og ég geri ráð fyrir að breytingar á lögum sem hér eru lagðar til taki mið af því í breytingartillögum virðulegrar efnahags- og viðskiptanefndar.

Hér er við nokkuð marga liði verið að framlengja gildistöku. Það á til dæmis við um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum. Þar er verið að framlengja bráðabirgðaákvæði að í stað dagsetningarinnar 31. desember 2011 komi 31. desember 2012, vegna þess að í ljós hefur komið að gengið hefur hægar að vinna úr skuldavanda heimilanna en flestir höfðu bæði óskað og vænst. Ýmislegt er í þessu frumvarpi sem tengist slíku.

Það eru líka, virðulegur forseti, breytingar sem tengjast aðgerðum vegna kjarasamninga. Á bls. 9 í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Á árunum 2009–2010 hækkaði tryggingagjaldið verulega, en þó einungis sá hluti þess sem rennur til atvinnuleysistrygginga, enda jókst atvinnuleysi mjög mikið á þessu tímabili.“

Jafnframt kemur fram að gangi spár eftir um minnkandi atvinnuleysi er lögð til lækkun á atvinnutryggingagjaldinu um 1,36% og það er í samræmi við yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga.

Vissulega verður að fagna þessu, virðulegur forseti, því það dregur úr álögum á atvinnulífið. Þetta kallar á væntingar um minnkun atvinnuleysis og það er vel. Hins vegar eigum við eftir að sjá hvort þetta gangi eftir. Talið er að þessar aðgerðir geti kostað lækkun og þá tekjutap um tæplega 8 milljarða sem mun þá endurspeglast fyrst og síðast í lægri útgjöldum til atvinnuleysistrygginga, og vonandi að þeir sem þá hafa verið atvinnulausir verði komnir inn sem einstaklingar í vinnu með tekjur, og dregið verði úr álögum á atvinnulífið og það verði betur í stakk búið til þess að efla hér atvinnu. Og þá fara fleiri í vinnu og verða þar af leiðandi greiðendur tekjuskatts þegar til lengri tíma er litið. Það er vel því að það er það sem þjóðin þarf hér og nú, hún þarf öflugt atvinnulíf. Við þurfum að draga úr atvinnuleysi vegna þess að atvinnuleysi, hvort sem það er langvinnt eða skammvinnt, er þjóðhagslega óhagkvæmt í alla staði og verst er það fyrir þá sem fyrir því verða. Margur maðurinn nær aldrei að koma sér aftur á vinnumarkaðinn eftir langvarandi atvinnuleysi. Það er tap samfélagsins, það er tap einstaklingsins og fyrst og síðast er það dapurt vegna þess að það minnkar virkni þeirra í samfélaginu sem ekki hafa vinnu. Þess vegna þarf með öllum tiltækum ráðum, virðulegur forseti, að efla atvinnulífið.

Öflugt atvinnulíf er, hefur verið og verður alltaf undirstaða velferðar í hvaða samfélagi sem er. Ef ekki er lögð áhersla á eflingu atvinnulífs verður engin velferð. Mér finnst stundum, virðulegur forseti, að töluvert vanti á að skilningur sé á því að öflugt atvinnulíf sé forsenda velferðar og margur maðurinn, jafnt vinstri maður sem hægri maður, hefur sagt að versta leiðin sé að skattleggja þjóð í kreppu og út úr kreppu. Hitt er alveg ljóst að við tölum ekki fólk út úr kreppu og heldur ekki þjóð.

Það sem er líka að finna í þessu frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum, aðgerðir í skattamálum, verðlagsbreytingar o.fl., eins og þetta heitir einnig, og sem er kannski órætt er samspil þess sem sést í fjárlögunum, þ.e. samspil tekna og útgjalda. Ef við lítum til eins þáttar í fjárlögum, heilbrigðiskerfisins, þar sem verið er að draga úr þjónustu á mörgum stöðum, þó sérstaklega á landsbyggðinni, erum við samhliða að draga úr og rýra ráðstöfunartekjur heimilanna, m.a. með hækkun bensíngjalds og olíugjalds, og með því að hækka álögur á áfengi og tóbak, sem fer beint út í lán heimilanna. Samspilið í þessum fjárlögum, virðulegur forseti, er því óhagstætt fólkinu í landinu.

Þær ráðstafanir sem liggja fyrir í frumvarpi þessu og rætt er við 2. umr. og þess sem fram er komið og við þekkjum í nýsamþykktu fjárlagafrumvarpi, sumar þær forsendur sem þar eru stangast á og þær auka í flestum tilvikum á álögur heimilanna, einstaklinganna, hvort heldur er í því að þurfa að sækja sér þjónustu um langan veg eða að horfa á ýmsar verðlagsbreytingar sem hækka lán.

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort þær ráðstafanir sem hér er gripið til verði til þess að auka tekjur ríkissjóðs þegar til lengri tíma er litið. Það læðist að mér sá grunur að þær muni frekar draga úr tekjum ríkissjóðs. Það hefur sýnt sig að hækkun á bensíni og olíu hefur dregið úr akstri fólks. Fólk notar hjól, það gengur jafnvel, fólk kemur sér saman um ferðir í bíla, sumir nota almenningssamgöngur. Það er líka verið að hækka kílómetragjald, bensíngjald og olíugjald á almenningsfarartæki. Það kallar hugsanlega á hækkun fargjalda. Þetta hefur því víxlverkun í för með sér, virðulegur forseti.

Að lokum vænti ég þess engu að síður að forsendur fjárlaga og sú þjóðhagsspá sem liggur að baki standist, að hér verði fjárfestingar, hér dragi úr atvinnuleysi og tekjur ríkissjóðs aukist vegna aukinnar atvinnu. Það er að lokum, virðulegur forseti, ósk mín í þessari umræðu um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.