140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

niðurskurður í heilbrigðismálum á Vesturlandi.

[10:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Nú liggur fyrir að niðurskurður á Heilbrigðisstofnun Vesturlands leiðir til þess að 35 konum verður sagt upp. Það er kannski viðeigandi að hæstv. forsætisráðherra gengur úr salnum á meðan ég segi þessi orð. (Gripið fram í.) Þakka þér fyrir, hæstv. forsætisráðherra, sem talar mikið um kynjaða fjárlagagerð og femínisma.

Eins og ég segi leiðir þessi niðurskurður til þess að 35 konum verður sagt upp, konum með áratugastarfsreynslu og menntun (Gripið fram í: Innihald…) sem er mjög mikilvæg, sérstaklega á þessu viðkvæma sviði. Þeim verður sem sagt sagt upp og þær reknar á dyr.

Stærsta einstaka aðgerðin er lokun á öldrunar- og endurhæfingardeildinni á Akranesi. Þar verður 28 konum sagt upp og atvinnumöguleikar þeirra eru litlir eða engir. Þetta er líka mjög sérkennilegt í ljósi þess að bæði á Dvalarheimilinu Höfða og Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi eru mjög langir biðlistar. Því hlýtur að vera eðlileg spurning til hæstv. velferðarráðherra hvort hann geti svarað spurningunni sem enginn hefur enn getað svarað: Hvað verður um þetta fólk? Hvað verður um vistmennina þegar deildinni verður lokað í vor?

Það er líka ágætt að rifja það upp í þessari fyrirspurn að þetta er akkúrat fólkið sem ruddi brautina fyrir okkur sem stjórnum í dag, þ.e. braut þeirra sem stjórna í dag, fólksins sem lifir í allsnægtum, a.m.k. miðað við þetta fólk. Spurningin er þessi: Getur hæstv. velferðarráðherra svarað því hvað verður um þetta fólk? Eins spyr ég líka hver hinn raunverulegi sparnaður verður. Meðallaun þessara 35 kvenna sem verða reknar á dyr eru tæp 300 þúsund en atvinnuleysisbætur (Forseti hringir.) eru 180 þúsund. Hver er hinn raunverulegi sparnaður?