140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

niðurskurður í heilbrigðismálum á Vesturlandi.

[10:33]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við höfum stundum rætt áður að það er skelfilegt að þurfa að endurstokka þetta samfélag eftir það sem á undan hefur gengið. Það er skelfilegt að hafa misst fimmtu hverja krónu af tekjum ríkissjóðs og þurfa að endurskipuleggja samfélagið miðað við það. Það er erfitt að þurfa að horfa upp á að það snertir alla þætti samfélagsins. Þótt 220 milljarðar af 520 séu undir velferðarmálum kemur það þar við líka.

En hvernig hefur þetta verið gert og á hvað höfum við verið að líta? Við höfum einmitt verið að endurskoða kerfi eins og heilbrigðiskerfið miðað við þann raunveruleika sem við búum við í dag, þ.e. nýja hugsun og nýtt umhverfi. Þannig hafa menn tekið á á nánast öllum heilbrigðisstofnunum í landinu og náð verulegum árangri, með því að breyta vaktafyrirkomulagi, með því að breyta verkferlum, með því að taka tillit til þess að hér eru notaðar dagdeildir í vaxandi mæli og hægt að veita þjónustuna öðruvísi. Þegar menn fengu baksjúkdóma og komu inn í bakaðgerðir lágu þeir áður inni allt upp í tíu daga án þess að mega hreyfa sig en nú eru menn teknir fram úr rúmi um leið.

Á Heilbrigðisstofnun Vesturlands er verið að mæta niðurskurði frá því fyrir rúmu ári og menn aðlaga sig þar þeim fjárveitingum sem hafa verið settar þangað. Núna er verið að grípa til þeirra aðgerða. Það er ekki verið að segja þessu fólki upp en það er búið að aðvara um að það eigi að sameina öldrunardeildina öðrum deildum á sjúkrahúsinu á Akranesi. Það á að endurskoða þjónustuna á nánast öllu svæðinu, sérstaklega vaktafyrirkomulag. Það er gengið út frá því af hálfu þeirra sem stjórna stofnuninni að þarna verði áfram um að ræða dagdeildarþjónustu og áfram boðið upp á skammtímainnlagnir vegna öldrunar. Þetta verður að sjálfsögðu skoðað í samhengi við Dvalarheimilið Höfða og það hefur legið fyrir frá yfirmönnum þessarar stofnunar að engum verði kastað út af þessu sjúkrahúsi og þeim sinnt á einstaklingsgrunni sem þar hafa notið þjónustu.

Tíminn leyfir mér ekki að svara öllu meira í þessari lotu (Forseti hringir.) en betur væri ef við hefðum ekkert þurft að gera. Þó er nauðsynlegt að hagræða og Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið talsmaður þess þó að hann hafi aldrei viljað koma fram og segja hvernig ætti að gera. það.