140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

niðurskurður í heilbrigðismálum á Vesturlandi.

[10:35]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var kunnugleg ræða hjá hæstv. velferðarráðherra um að það þurfi að draga saman ríkisútgjöldin. En þetta mál fjallar um forgangsröðun í ríkisútgjöldum. Það er verið að bruðla með tugi eða hundruð milljóna og jafnvel milljarða í einhver pólitísk gæluverkefni. Það væri kannski hægt að nefna við hæstv. ráðherra það sem stendur honum næst, að það er verið að ráða aðstoðarmenn ráðherra upp á tæpar 40 milljónir og það er verið að fara í breytingar á húsnæði í ráðuneytunum upp á fleiri hundruð milljónir sem skila ekki neinu.

Þetta fjallar nefnilega um forgangsröðun og ekkert annað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Og þar erum við ekki sammála. Það er það sem ég er að benda á og þetta eru mjög köld skilaboð til þessa fólks og þessarar viðkvæmu þjónustu. Núna kemur það nefnilega á daginn sem er búið að vara við, það er búið að skera inn að beini í heilbrigðismálunum og það verður ekki farið lengra. Svo getur hæstv. ríkisstjórn hælt sér af því að vera með einhverja kynjaða fjárlagagerð og álíka bull á þessum tímum. Hún felst nefnilega í því (Forseti hringir.) að reka konurnar á dyr en láta einhverja flokksgæðinga hræra í einhverjum pappírum á aðalskrifstofum ráðuneytanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)