140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

niðurskurður í heilbrigðismálum á Vesturlandi.

[10:37]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Þetta snýst um forgangsröðun. Sá sem hér stendur stýrir núna ráðuneyti með einum aðstoðarmanni þar sem áður voru tvö ráðuneyti. Það eru helmingi færri í stjórninni á því ráðuneyti og það er búið að hagræða í því um þær prósentutölur sem lagðar hafa verið til þannig að ég held að menn ættu að finna sér eitthvað annað til að miða við frekar en að vera í einhverjum popúlískum fullyrðingum.

Það kann að vera að viðkomandi þingmaður telji sig geta nefnt fullt af gæluverkefnum og þá vil ég fá þau fram. Það er búið að gera hér að umræðuefni ferðalög hjá opinberum starfsmönnum. Mörg þeirra eru samkvæmt kjarasamningum sem viðkomandi stjórnvöld hafa gert og eru búin að vera í gangi í mörg ár, m.a. í heilbrigðisgeiranum, þar sem læknar eiga rétt á því að fara í ferðir, námsleyfi og annað. Það er obbinn af kostnaðinum. Ráðuneytið hjá okkur er með 15 milljónir í kostnað vegna ferða og mikið dygði það stutt til að laga þá hluti sem hér hafa verið ræddir.

Ef við skoðum heildarhagræðinguna í heilbrigðiskerfinu á þeim tíma sem liðinn er frá hruni eru þar ekki stórkostlegar tölur — sem betur fer. Það er verið að nota í velferðarmál jafnstóran hluta af tekjunum og áður, heldur stærri ef eitthvað er, og meira til (Forseti hringir.) miðað við verga landsframleiðslu. Ef menn gæta allrar sanngirni verður að segja að ef menn ætla ekki að þenja út útgjöldin, eins og hv. þingmaður talar oft um að eigi ekki að gera, verða menn að koma víða við.