140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

forræði Icesave-málsins í Stjórnarráðinu.

[10:38]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég er alltaf að leita að tækifærum til að hrósa hæstv. forsætisráðherra og því hyggst ég grípa slíkt tækifæri núna og hrósa hæstv. forsætisráðherra fyrir afdráttarlaus og skýr viðbrögð í gær við áformum ESA um að senda Icesave-málið til EFTA-dómstólsins.

Jafnframt spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um að vel hafi verið haldið á málinu í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, þar hafi verið unnið mikið starf og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra sett sig í samband við mikinn fjölda fólks, m.a. erlendra stjórnmálamenn, og rekið málið af nokkurri festu. Er þá ekki ástæða til að halda málinu áfram í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu? Er ekki hæstv. forsætisráðherra sammála mér um að það sé æskilegt að sú vinna sem hefur verið unnin í málinu undanfarnar vikur og mánuði og sú þekking sem hefur byggst upp í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu nýtist áfram í stað þess að senda málið á nýjan stað í nýtt ráðuneyti þar sem menn þyrftu að miklu leyti að byrja frá grunni í stað þess að halda áfram að byggja á þeim grunni sem lagður hefur verið í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu?