140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

forræði Icesave-málsins í Stjórnarráðinu.

[10:40]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki oft sem við hv. þingmaður erum sammála í ræðustól en í þetta sinn erum við sammála um að efnahags- og viðskiptaráðherra hafi haldið vel á málum og að hann hafi staðið sig þar með stakri prýði.

Spurningin er um forsvar þessa máls núna. Við höfum verið að skoða það í ljósi þess hvernig haldið hefur verið á málum þegar þeim er vísað til EFTA-dómstólsins, hver fordæmin eru í því efni. 10–12 sinnum hefur málum verið vísað til EFTA-dómstólsins frá 1994, flest í byrjun og einhver á síðari árum. Í öllum tilvikum hefur utanríkisráðuneytinu eða utanríkisráðherra verið falið forsvar máls þegar þau eru komin fyrir EFTA-dómstólinn. Við eigum eftir að fara yfir þessa stöðu. Ég byrjaði bara að kynna mér í gær hvernig haldið hefur verið á málum þegar þau væru komin í þennan farveg. Þetta er niðurstaðan í því þannig að ég geri ráð fyrir að við munum hafa málið í svipuðum farvegi. Ég undirstrika að það á eftir að ræða þetta en í öllu falli, hvort sem forsvarið verður hjá utanríkisráðherra eða efnahagsráðherra, og ef litið er til fordæmis er það utanríkisráðherra, munu fjórir ráðherrar koma að þessu máli, utanríkis-, fjármála-, forsætis- og efnahagsráðherrar. Við munum fara yfir þetta mál með sérfræðingum og það verður byrjað að undirbúa í dag með sérfræðingum hvernig haldið verður á málum. Að sjálfsögðu verður haft samráð við stjórnarandstöðuna og utanríkismálanefnd um framgang þessa máls allan tímann vegna þess að við þurfum sannarlega á því að halda að sýna góða samstöðu í málinu.