140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

samgöngumál.

[10:51]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Finnst mér það í lagi að lofa og lofa og standa ekki við gefin fyrirheit? Nei. Þess vegna erum við hætt að lofa upp í ermina á okkur. Það er grundvallaratriði að við sýnum raunsæi og fyrirhyggju, að við höfum þá fjármuni til ráðstöfunar sem við lofum að verja í framkvæmdir. Það þjónar engum góðum tilgangi að tala niður þau samgöngumannvirki sem við búum við, eins og mér heyrist menn vera að gera og telja sig þá vera að tala upp móralinn á þessum svæðum, þingmenn telja sig þar með standa sig afskaplega vel í hagsmunagæslu fyrir umbjóðendur sína.

Mér finnst það ekki rétt nálgun og mér finnst hún í rauninni ekki sæmandi. Við erum ekki með þessa fjármuni til ráðstöfunar. Við erum að reyna að verja þeim takmörkuðu fjármunum sem við höfum eins vel og við mögulega getum til heilbrigðisstofnana, til velferðarkerfisins, til almannatrygginga, til að tryggja kjör öryrkja og atvinnulausra (Forseti hringir.) og þeirra sem minnst hafa úr að spila í þjóðfélaginu, það erum við að fást við á þingi. Hér er einnig rætt um auðlegðarskatt. Sjálfstæðisflokkurinn ræðir um að leggja auðlegðarskattinn af. (Forseti hringir.) Þar koma fram mismunandi pólitískar áherslur okkar. En ég segi: Sýnum fyrirhyggju og raunsæi og hættum (Forseti hringir.) að lofa upp í ermina á okkur.