140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

Icesave og hugsanleg ráðherraskipti.

[10:57]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við erum einfaldlega ósammála um að hæstv. fjármálaráðherra hafi staðið vel að gerð fyrstu samninganna og ég er sannfærð um að ef hæstv. fjármálaráðherra hefði á sínum tíma viðhaft sömu vinnubrögð og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra viðhefur í dag, þ.e. þar er opið gegnsætt ferli þar sem allir koma að, ekki bara stjórnarflokkarnir heldur allir stjórnmálaflokkar á þingi og eindregnir andstæðingar Icesave-samkomulagsins, væri staða Íslands önnur en í dag. Hún er engu að síður þannig að við þurfum að sýna samstöðu og ég ítreka að að því munum við sjálfstæðismenn svo sannarlega vinna.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði hins vegar ekki seinni spurningu minni. Telur hún það ekki ógna stöðu okkar varðandi málsvörnina í Icesave ef uppstokkun verður í ríkisstjórninni á þann veg að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hverfi á brott úr ríkisstjórninni? Mun það ekki veikja stöðu okkar í þeirri mikilvægu málsvörn sem við þurfum að standa saman um á næstu mánuðum?