140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

refsiaðgerðir ESB vegna makrílveiða Íslendinga.

[11:02]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að í þessu máli séum við hv. þingmaður mjög sammála. Það er mjög ómaklegt og óeðlilegt að verið sé að ræða einhverjar refsiaðgerðir eða undirbúa þær gegn Íslandi vegna þess hvernig við höfum haldið á málum og hvernig við, réttilega, höfum tekið okkar hlut að því er varðar makrílinn þegar ekki hafa náðst samningar.

Auðvitað vildum við gjarnan ná samningum þar sem eðlilega væri farið með hlut Íslands. Ég held að vel hafi verið haldið á hlut Íslands af hálfu sjávarútvegsráðherra og sjávarútvegsráðuneytisins í þessu efni. Maður vonaðist til þess að á fundinum síðasta, fyrir stuttu, næðust samningar en því miður náðust þeir ekki. Við munum því standa að málum með sama hætti og við höfum gert þannig að hlutur okkar í makrílnum verði eins og hann hefur verið áður.

Boðað hefur verið til fundar í Reykjavík í byrjun næsta árs. Við skulum vona að þar fáist niðurstaða.

Það er með öllu óeðlilegt að blanda niðurstöðu úr þessum samningsviðræðum með einhverjum hætti við aðildarferli okkar að Evrópusambandinu. Við munum alls staðar neita því að það sé gert vegna þess að það er mjög óeðlilegt. Þetta er sjálfstætt mál og við eigum fullan rétt sem strandþjóð að sækja okkar hlut með eðlilegum hætti í þessu efni. Við munum gera allt sem hægt er til að það náist og mótmæla auðvitað refsiaðgerðum sem við verðum beitt út af því að við séum að sækja eðlilegan hlut okkar sem strandríkis í makrílveiðunum.