140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

refsiaðgerðir ESB vegna makrílveiða Íslendinga.

[11:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. forsætisráðherra, mér finnst hafa verið haldið ágætlega á þessu máli og um það hefur verið mikil samstaða í þinginu.

Ég spurði sérstaklega með hvaða hætti yrði núna brugðist við þegar sú nýja staða er komin upp að Evrópusambandið er að ræða þetta mál í fullri alvöru á vettvangi ráðherraráðsins. Nú eru sjávarútvegsráðherrarnir meðal annars að fara yfir þessi mál. Með hvaða formlega hætti verður brugðist við af hálfu hæstv. ríkisstjórnar? Hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan að þessu yrði mótmælt. Verður formlega mótmælt? Verður skrifað bréf frá hæstv. utanríkisráðherra til Evrópusambandsins þar sem þessu verður mótmælt?

Ég spyr enn og aftur: Er ekki mjög óeðlilegt að á sama tíma og þetta öfluga ríkjasamband er að undirbúa mögulegar refsiaðgerðir á hendur okkur skulum við ganga svipugöngin, vilja kyssa á vöndinn, svo að ég noti fleiri frasa úr munni hæstv. utanríkisráðherra, og óska eftir aðildarviðræðum að Evrópusambandinu, því sambandi sem undirbýr refsiaðgerðir (Forseti hringir.) á hendur okkur?