140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:26]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður spurði mig að varðandi virðisaukaskattsskyldu fjármálafyrirtækja. Ég held að það væri langbest þegar kemur að skattlagningu almennt að við ynnum slík mál vel.

Hv. þingmaður talaði um ýmislegt út frá bestu vitund og sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar en hann veit ekkert um þetta. Af hverju veit hv. þingmaður ekkert um þetta? Vegna þess að við höfum ekkert fjallað um þetta. Ef við viljum breyta skattlagningu á fjármálafyrirtæki eða aðra starfsemi í landinu held ég að það væri mjög skynsamlegt að skoða það mál vel, bera saman t.d. á milli landa og taka síðan upplýsta ákvörðun um málið.

Þegar hv. þingmaður segir að hann telji að 5,45% skattur muni ekki hafa áhrif á innlenda starfsemi í samkeppni við erlenda, að því gefnu að hagnaður sé af starfseminni, þá er skatturinn í rauninni 6,71%. Við í nefndinni komumst að því á síðustu metrunum að munur er á því sem við erum að framkvæma og hvernig þetta er í Danmörku. Við vitum ekkert um þetta, við höfum ekki skoðað hvort launakostnaður í samkeppnislöndum okkar hvað þetta varðar sé hærri. Við vitum hins vegar að álögur hafa verið stórauknar, ekki bara með þessum skatti heldur einnig auknum álögum út af FME og sérstökum bankasköttum o.s.frv. Við erum hér rétt fyrir jól að tala um hluti sem lítil þekking er á innan hv. efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að ekki hefur gefist tími til að fara almennilega yfir það.

Ég styð það að við reynum að ná endum saman í ríkisfjármálum, en við erum komin í vítahring sem er þannig að menn leggja alltaf á meiri skatta og auka þar af leiðandi atvinnuleysi meðal annars og útgjöld ríkissjóðs í formi hærri atvinnuleysistryggingagjalda og (Forseti hringir.) sömuleiðis missum við skatttekjur þegar fólk fer úr landi. Þetta frumvarp er dæmi um það.