140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held út af fyrir sig að sú tala sem hér er lögð til, 6%, sé alls ekki heilög. Í raun lögðu fjármálafyrirtækin áherslu á að öll þessi tekjuöflun yrði tekin með skattlagningu á hagnað. Þessi tala er fyrst og fremst fundin út til að koma í stað þeirra tekna sem við afsölum okkur með því að lækka fyrirhugaða skattlagningu á laun í fjármálafyrirtækjunum um helming. Ef alfarið hefði verið hætt við að leggja fjársýsluskattinn á launaþáttinn hefði þessi skattlagning á hagnað umfram 1 milljarð þurft að vera 12% til að skila þeim tekjum. Tillaga Samtaka fjármálafyrirtækja snerist um að í einhvern tíma kynni slíkt að vera hægt.

Vegna þeirra hagnaðartalna sem hv. þingmaður nefndi verðum við því miður að hafa í huga að eitt er sá hagnaður sem fjármálafyrirtæki tilkynna á aðalfundum sínum, í fjölmiðlum og á fjármálamörkuðum en annað er sá hagnaður sem er að finna í skattframtölum þeirra. Það er því um ólíkar stærðir að ræða og ekki hægt að gefa sér að tekjur af hinum birtu tölum skili sér í skattheimtu.